Ferill 260. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1053  —  260. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Tómas Njál Möller og Hermann Jónasson frá fjármálaráðuneyti, Magnús M. Norðdahl frá Alþýðusambandi Íslands, Sigríði Á. Andersen frá Verslunarráði Íslands, Jón G. Kristjánsson frá Lífeyrissjóði starfsmanna Reykjavíkurborgar, Má Guðmundsson frá Seðlabanka Íslands, Ástu Þórarinsdóttur, Pál Gunnar Pálsson og Guðbjörgu Bjarnadóttur frá Fjármálaeftirlitinu, Jóhannes Siggeirsson og Hallgrím Gunnarsson frá Sameinaða lífeyrissjóðnum, Árna Guðmundsson frá Lífeyrissjóði sjómanna, Þorgeir Eyjólfsson frá Lífeyrissjóði verslunarmanna, Hrafn Magnússon frá Landssamtökum lífeyrissjóða og Karl Benediktsson frá Lífeyrissjóðnum Framsýn. Umsagnir um málið bárust frá Verslunarráði Íslands, Landssamtökum lífeyrissjóða, Lífeyrissjóði starfsmanna Reykjavíkurborgar, Alþýðusambandi Íslands, Lífeyrissjóði sjómanna, Sameinaða lífeyrissjóðnum, Lífeyrissjóði verslunarmanna, Samtökum fjármálafyrirtækja, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Fjármálaeftirlitinu, Lífeyrissjóðnum Framsýn og Seðlabanka Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga verði rýmkaðar. Í fyrsta lagi verði heimild þeirra til að fjárfesta í skráðum skuldabréfum bæjar- og sveitarfélaga, skuldabréfum og víxlum banka, sparisjóða og annarra lánastofnana sem lúta eftirliti opinbers eftirlitsaðila, hlutabréfum fyrirtækja og öðrum verðbréfum verði hækkuð úr 35% í 50%. Í öðru lagi verði heimild þeirra til að fjárfesta í erlendum gjaldmiðlum hækkuð úr 40% af hreinni eign sjóðanna í 50% og í þriðja lagi verði heimild þeirra til að fjárfesta í óskráðum verðbréfum látin ná jafnt til verðbréfa sem gefin eru út af innlendum og erlendum aðilum en ekki einungis innlendum eins og nú er. Að auki er lagt til í frumvarpinu að gerðar verði auknar kröfur um hæfni stjórnenda lífeyrissjóða.
    Meiri hlutinn leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Lagt er til að tvær nýjar greinar bætist við frumvarpið. Í þeirri fyrri kemur fram að lífeyrissjóðir skuli senda sjóðfélögum sínum yfirlit um iðgjaldagreiðslur eigi sjaldnar en á hálfs árs fresti og skuli fylgja því áskorun til sjóðfélaga að gera án tafar athugasemdir ef sannanlega innheimt iðgjöld hafa ekki borist sjóðnum. Með þessari breytingu er stuðlað að því að sjóðfélagar geti betur gætt réttar síns og gripið til viðeigandi ráðstafana ef iðgjöld skila sér ekki til lífeyrissjóðs. Í þeirri síðari er lagt til að kveðið verði á um heimild til eingreiðslu lágrar fjárhæðar í samþykktum lífeyrissjóða en ekki í reglugerð eins og nú er. Er það eðlilegt þar sem lífeyrissjóðum er í sjálfsvald sett hvort þeir nýta sér heimildina.
     2.      Lögð er til einföld orðalagsbreyting á 3. gr. frumvarpsins.
     3.      Lagt er til að ákvæði í 4. gr. frumvarpsins bætist við 34. gr. laganna en komi ekki í stað 33. gr. þeirra eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Með því gilda áfram ákvæði laganna um gerðardóm.
     4.      Lögð er til leiðrétting á tilvísun í 29. gr. laganna.
     5.      Lagðar eru til breytingar á 6. gr. Aðalbreytingin er að felld verði úr greininni sundurliðun á því hvað skuli mæla fyrir um í reglum um form og efni fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða þannig að á hverjum tíma megi setja reglur sem þjóni best markmiðum sjóðanna. Þá er lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði falið að setja reglurnar, en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að fjármálaráðherra setji þær. Fjármálaeftirlitið setur m.a. reglur um ársreikninga lífeyrissjóða og er því eðlilegt að það setji einnig þessar reglur.
     6.      Lagt er til að fallið verði frá þeirri kröfu að lífeyrissjóðirnir leggi fram fjárfestingarkröfu fyrir komandi ár með ársreikningum sínum en látið nægja að þeir leggi fram fjárfestingarstefnu þá sem starfað er eftir. Er með því tryggt að þeir þættir sem mikilvægir eru við mat á stöðu hvers lífeyrissjóðs séu öllum aðgengilegir. Þá er lagt til að Fjármálaeftirlitið setji reglur um form og efni skýrslugjafar en ekki fjármálaráðherra eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.
     7.      Loks er lagt til að rýmkuð verði heimild sjóða sem hyggjast einvörðungu veita lífeyri vegna áunninna réttinda til að gera afmarkaðar breytingar á réttindaákvæðum samþykkta sjóðanna ef þær hafa óveruleg áhrif á réttindi einstakra sjóðfélaga eða sjóðfélagahópa. Við mat á því hvort breytingar hafi veruleg áhrif á fjárhagsstöðu lífeyrissjóðs skal litið til áhrifa breytinganna á lífeyrisgreiðslur til einstakra hópa sjóðfélaga.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 25. apríl 2000.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Hjálmar Árnason.



Sigríður A. Þórðardóttir.


Pétur H. Blöndal,


með fyrirvara.


Gunnar Birgisson.



Ögmundur Jónasson.