Ferill 587. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1102  —  587. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu ýmissa ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum og bókunum við EES-samninginn.

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gunnar Snorra Gunnarsson, sendiherra Íslands í Brussel, og Stefán H. Jóhannesson og Einar Gunnarsson frá utanríkisráðuneyti. Þá hélt nefndin sérstakan fund um EES-mál í mars síðastliðunum, ásamt Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á nokkrum ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar. Ákvarðanir þessar kalla á lagabreytingar hér á landi og voru teknar af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu með vísan til 103. gr. EES-samningsins.
     Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum eða bókunum við EES-samninginn eru þjóðréttarsamningar. Almennt hefur ekki verið leitað sérstaks samþykkis Alþingis áður en stjórnskipulegum fyrirvara er aflétt heldur látið við það sitja að Alþingi hafi samþykkt nauðsynlegar lagabreytingar vegna innleiðingar ákvarðana. Þetta felur í sér nokkurt frávik frá almennri meðferð við staðfestingu þjóðréttarsamninga þar sem atbeina Alþingis er krafist en á sér skýringar í sérstöðu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar meðal þjóðréttarsamninga. Hins vegar hafa nokkrir ókostir fylgt þessu fyrirkomulagi. Má þar helst nefna að nokkuð mismunandi er á hvaða hátt það hefur komið fram í lagafrumvörpum hvernig þau tengjast tilteknum ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar, svo og að með þessari aðferð hefur skort á að Alþingi hafi verið gefinn kostur á að taka beina afstöðu til staðfestingar einstakra ákvarðana nefndarinnar.
    Meiri hlutinn telur rétt að færa almenna meðferð þeirra ákvarðana sameiginlegu EES- nefndarinnar, þar sem Ísland hefur gert stjórnskipulegan fyrirvara, til samræmis við meðferð þjóðréttarsamninga. Í því felst að leitað verði eftir samþykki Alþingis til staðfestingar sérhverri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem stjórnskipulegur fyrirvari hefur verið gerður við. Á þeim sex árum sem liðin eru frá því að EES-samningurinn tók gildi hefur Ísland beitt þessum fyrirvara alls 38 sinnum. Slíks samþykkis verði leitað í formi þingsályktunartillögu en viðeigandi ráðuneyti muni samhliða undirbúa nauðsynleg frumvörp til lagabreytinga.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 27. apríl 2000.



Tómas Ingi Olrich,


form., frsm.


Jón Kristjánsson.


Árni R. Árnason.



Einar K. Guðfinnsson.


Jónína Bjartmarz.


Vilhjálmur Egilsson.



Sighvatur Björgvinsson.