Ferill 467. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1103  —  467. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á lögreglulögum, nr. 90 13. júní 1996.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Björgu Thorarensen og Benedikt Bogason frá dómsmálaráðuneyti, Arnar Guðmundsson frá Lögregluskóla ríkisins, Jónas Magnússon frá Landssambandi lögreglumanna og Þóri Oddsson vararíkislögreglustjóra. Umsagnir um málið bárust frá Landssambandi lögreglumanna, Lögregluskóla ríkisins og ríkislögreglustjóra.
    Með frumvarpinu er lögð til rýmkun á inntökuskilyrðum í Lögregluskóla ríkisins auk þess sem lagðar eru til breytingar á skipulagi náms í skólanum. Er markmiðið með breytingunni m.a. að fjölga faglærðum lögreglumönnum en ófaglærðum hefur fjölgað nokkuð í lögreglunni á síðustu árum. Þá kom fram í máli gesta sem komu á fund nefndarinnar vegna frumvarpsins að ákvæði gildandi laga um inntökuskilyrði í Lögregluskólann væru býsna ströng. Þau tilvik hefðu komið upp að þurft hefði að vísa mjög hæfum umsækjendum frá vegna strangra skilyrða, t.d. um aldur umsækjenda, og því væru veigamikil rök fyrir því að rýmka þau.
    Breytingar á skipulagi náms í skólanum fela einkum í sér breytingar á starfsþjálfun nemenda. Telja stjórnendur Lögregluskólans æskilegra að námið verði heildstæðara en að þeirra mati er starfsþjálfunin nú of löng. Tillögur frumvarpsins miða að því að stytta starfsþjálfunina þannig að lögreglunámið taki eitt ár jafnframt því sem gert er ráð fyrir að eftirlit skólans með nemendum í starfsþjálfuninni verði meira en nú er.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Árni Steinar Jóhannsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.
    Lúðvík Bergvinsson, Guðrún Ögmundsdóttir og Ásta Möller voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 28. apríl 2000.



Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


form., frsm.


Sverrir Hermannsson.


Hjálmar Jónsson.



Ólafur Örn Haraldsson.


Katrín Fjeldsted.


Jónína Bjartmarz.