Ferill 469. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1122  —  469. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um hópuppsagnir.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og farið yfir umsagnir sem bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Eyþingi, Bandalagi háskólamanna, Sjómannasambandi Íslands, Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi og Samtökum fiskvinnslustöðva.
    Frumvarpið er lagt fram í þeim tilgangi að gera íslenska löggjöf um hópuppsagnir skýrari og laga hana að tilskipun 98/59/EB um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um hópuppsagnir samkvæmt skuldbindingum Íslands við aðild að Evrópska efnahagssvæðinu.
    Nefndin lítur svo á að ákvæði frumvarpsins séu til bóta, einkum hvað varðar framkvæmd hópuppsagna, tilkynningarskyldu til svæðisvinnumiðlana og samráð við trúnaðarmenn stéttarfélaga.
    Athugasemdir bárust um að áhafnir skipa eru í b-lið 2. gr. frumvarpsins undanskildar ákvæðum þess og ræddi nefndin nokkuð um ástæður þess. Sams konar ákvæði er að finna í gildandi lögum um hópuppsagnir og er þetta í samræmi við margar sérreglur um sjómenn, t.d. varðandi vinnutíma. Þá taka sérstök ákvæði sjómannalaga á réttindum og skyldum sjómanna. Að svo búnu taldi nefndin því ekki ástæðu til að hrófla við þessu ákvæði frumvarpsins.
    Nefndin leggur til breytingu á frumvarpinu þess efnis að orðið „öðru“ verði fellt brott úr 1. mgr. 4. gr. Ankannalegt er að tala um atvinnurekanda og annað fyrirtæki þar sem atvinnurekandi hlýtur eðli málsins samkvæmt að vera persóna en ekki fyrirtæki í þeim skilningi sem gert er ráð fyrir í 1. mgr. 4. gr.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svohljóðandi

BREYTINGU:


    Við 4. gr. Orðið „öðru“ í 1. mgr. falli brott.

Alþingi, 3. maí 2000.



Arnbjörg Sveinsdóttir,


form., frsm.


Guðrún Ögmundsdóttir.


Pétur H. Blöndal.



Ólafur Örn Haraldsson.


Kristján L. Möller.


Kristján Pálsson.



Drífa Hjartardóttir.


Jónína Bjartmarz.


Steingrímur J. Sigfússon.