Ferill 272. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1138  —  272. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Frá Guðrúnu Ögmundsdóttur og Kristjáni L. Möller.



     1.      Við 3. gr. Við 3. mgr. bætist tveir nýir liðir sem verði i- og j-liðir, svohljóðandi:
                  i.      leita sátta milli einstaklinga og hópa annars vegar og fyrirtækja eða einstaklinga hins vegar í ágreiningsmálum sem skrifstofunni berast og varða ákvæði laga þessara,
              j.      veita kæranda aðstoð við meðferð máls hjá úrskurðarnefnd, óski hann þess.
     2.      Við 4. gr. Greinin orðist svo ásamt fyrirsögn:

              Úrskurðarnefnd jafnréttismála.

             Félagsmálaráðherra skipar úrskurðarnefnd jafnréttismála til þriggja ára í senn og skulu nefndarmenn vera lögfræðingar. Ráðherra skipar einn án tilnefningar en Hæstiréttur tilnefnir tvo, formann og varaformann nefndarinnar. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.
             Verkefni úrskurðarnefndar jafnréttismála er að taka til meðferðar, rannsaka og kveða upp skriflegan rökstuddan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin, sbr. V. kafla þeirra.
             Þegar um er að ræða mál sem ætla má að geti haft stefnumarkandi áhrif á vinnumarkaðinn í heild skal úrskurðarnefnd leita umsagnar frá heildarsamtökum launþega og viðsemjendum þeirra áður en úrskurður er kveðinn upp.
              Niðurstöður úrskurðarnefndar sæta ekki kæru til æðra stjórnvalds.
              Úrskurðarnefnd jafnréttismála skal gefa úrskurði sína út árlega.
             Úrskurðarnefnd jafnréttismála ræður sér starfsfólk og greiðist kostnaður við starfsemi nefndarinnar úr ríkissjóði.
     3.      Við 5. gr. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
             Úrskurðarnefnd getur að höfðu samráði við málshefjanda sent mál til sáttameðferðar hjá Jafnréttisstofu.
     4.      Á eftir 5. gr. komi ný grein og orðist svo ásamt fyrirsögn:

              Viðmið við mat á hæfni.

             Við mat á því hvort ákvæði 24. og 25. gr. laganna hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu og öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu.
     5.      Við 7. gr.
                  a.      1. mgr. orðist svo:
                     Eftir hverjar alþingiskosningar skipar félagsmálaráðherra ellefu manna Jafnréttisráð. Ráðherra skipar formann án tilnefningar, einn nefndarmann tilnefndan af Alþýðusambandi Íslands, einn tilnefndan af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, einn tilnefndan af Bandalagi háskólamanna, einn tilnefndan af Háskóla Íslands, einn tilnefndan af Kvenfélagasambandi Íslands, einn tilnefndan af Kvenréttindafélagi Íslands, einn tilnefndan af Samtökum atvinnulífsins og einn tilnefndan af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Fjármálaráðuneyti skipar einn nefndarmann og Jafnréttisstofa einn nefndarmann.
                  b.      Við 2. mgr. 1. málsl. falli brott.
     6.      Við 8. gr. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Jafnréttisráð skal standa fyrir málþingum og annarri opinni umræðu um jafnréttismál í samstarfi við Jafnréttisstofu og jafnréttisnefndir sveitarfélaganna.
     7.      Við 20. gr. Greinin orðist svo ásamt fyrirsögn:

         Þátttaka í ráðum og nefndum á vegum hins opinbera.

             Í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkis og sveitarfélaga skal hlutfall kynja vera sem jafnast þar sem því verður við komið.
             Þar sem tilnefnt er í nefndir, stjórnir og ráð á vegum ríkis og sveitarfélaga skal tilnefna tvo, konu og karl. Við skipun skal þess síðan gætt að skipting milli kynja sé sem jöfnust.
             Tilnefningaraðila er heimilt að víkja frá ákvæðum 2. mgr. ef illmögulegt er að framfylgja þeim af sérstökum ástæðum. Skal tilnefningaraðili þá skýra ástæður þess.
             Ákvæði 2. og 3. mgr. fellur sjálfkrafa úr gildi að liðnum tíu árum frá gildistöku laga þessara.