Ferill 556. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1166  —  556. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingimar Sigurðsson og Kristínu L. Árnadóttur frá umhverfisráðuneyti. Umsagnir um málið bárust frá sveitarstjórn Norður- Héraðs, byggðaráði Búðahrepps, Bændasamtökum Íslands, Skotveiðifélagi Íslands, Náttúrustofu Austurlands, Náttúruvernd ríkisins, bæjarstjórn Austur-Héraðs, Náttúrufræðistofnun Íslands, Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, sveitarstjórn Fljótsdalshrepps, bæjarstjórn Fjarðabyggðar, veiðistjóraembættinu og Skúla Magnússyni.
    Frumvarpið er að mestu leyti í samræmi við tillögur nefndar sem umhverfisráðherra skipaði í nóvember á síðasta ári til að endurskoða ákvæði laganna um hreindýraveiðar. Meðal þess sem lagt er til í frumvarpinu eru breytingar á skipan hreindýraráðs, að fjallað verði um hlutverk ráðsins í lögunum í stað reglugerðar, breytingar á ráðstöfun leyfisgjalds af veiðum hreindýra og breytingar á fyrirkomulagi veiðileyfa.
    Við umfjöllun málsins í nefndinni komu fram athugasemdir við þá breytingu sem gerð er á tillögu hinnar ráðherraskipuðu nefndar og kemur fram í 7. efnismgr. 1. gr. um að veiðistjóri annist vöktun og rannsóknir á hreindýrastofninum í stað Náttúrustofu Austurlands. Hreindýrastofninn er staðbundinn stofn á starfssvæði Náttúrustofunnar sem jafnframt hefur það hlutverk að stuðla að almennum rannsóknum á náttúru landshlutans. Nefndin mælir með því að stofnuninni verði falið þetta verkefni í stað veiðistjóra eins og nefndin lagði til í upphafi og leggur til breytingu á frumvarpinu í samræmi við það. Nefndin leggur jafnframt til að í stað Náttúrustofu Austurlands tilnefni veiðistjóri fulltrúa í hreindýraráð þar sem hún telur ekki eðlilegt að aðili sem annast vöktun og rannsóknir á hreindýrastofninum geti einnig tilnefnt fulltrúa í ráðið. Að mati nefndarinnar er mikilvægt að a.m.k. einn aðili í ráðinu hafi líffræðimenntun eins og lagt er til í frumvarpinu eða aðra svipaða menntun, t.d. dýralæknismenntun, og leggur til að sá fulltrúi sem veiðistjóri tilnefnir hafi slíkan bakgrunn.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

Við 1. gr.
     a.      Í stað orðanna „Náttúrustofa Austurlands einn og skal hann vera líffræðingur“ í 3. efnismgr. komi: veiðistjóri einn og skal hann vera líffræðingur eða með sambærilega menntun.
     b.      7. efnismgr. orðist svo:
             Náttúrustofa Austurlands annast vöktun og rannsóknir á hreindýrastofninum og gerir Náttúrufræðistofnun Íslands grein fyrir niðurstöðum, sbr. lög nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur. Af hverju felldu dýri skal greiða sérstakt gjald til þess að standa undir vöktun stofnsins og ákveður ráðherra upphæð gjaldsins, sbr. 2. mgr.

    Össur Skarphéðinsson og Ísólfur Gylfi Pálmason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 8. maí 2000.



Ólafur Örn Haraldsson,


form., frsm.


Kristján Pálsson.


Ásta Möller.



Katrín Fjeldsted.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.


Kolbrún Halldórsdóttir.



Gunnar Birgisson.