Ferill 292. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1183  —  292. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um að lögleiða ólympíska hnefaleika.

Frá meiri hluta menntamálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Reyni Karlsson frá menntamálaráðuneyti, Sólveigu Ásgrímsdóttur frá Sálfræðingafélagi Íslands og Baldur Kristjánsson frá Kennaraháskóla Íslands.
    Umsagnir bárust frá Ungmennafélagi Íslands, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Læknafélagi Íslands, lögreglustjóranum í Reykjavík, ríkissaksóknara, Ómari Ragnarssyni, Félagi íslenskra sjúkraþjálfara, landlækni, Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur og heilbrigðis- og trygginganefnd Alþingis. Einnig barst yfirlýsing frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að ólympískir hnefaleikar verði lögleiddir á Íslandi og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands setji reglur um íþróttina. Frá árinu 1956 hafa hnefaleikar verið bannaðir hér á landi, sbr. samnefnd bannlög nr. 92 27. desember 1956. Ólympískir hnefaleikar eru hins vegar viðurkennd íþróttagrein af alþjóðaólympíunefndinni og í þeirri íþrótt er keppt á Ólympíuleikum og í öllum vestrænum löndum. Það er því algjört einsdæmi að ólympísk keppnisgrein sé bönnuð með sérstakri löggjöf.
    Samkvæmt greinargerð með frumvarpinu er gert ráð fyrir að áfram standi óbreytt lög nr. 92/1956, sem banna hnefaleika í atvinnuskyni. Í því sambandi vill meiri hlutinn vekja athygli á yfirlýsingu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, dags. 3. maí sl., þar sem fram kemur að framkvæmdastjórn sambandsins hafi ekki í hyggju og sé því algjörlega andvíg að atvinnumannahnefaleikar verði leyfðir hér á landi, enda þótt ólympískir hnefaleikar verði lögleiddir.
    Að mati meiri hluta nefndarinnar verður að gera skýran greinarmun á ólympískum hnefaleikum og atvinnumannahnefaleikum því að reglur og öryggiskröfur greinanna eru mjög ólíkar. Þannig er skylt að nota höfuðhlífar í ólympískum hnefaleikum og hver leikur stendur í þrjár lotur í stað allt að tólf lotum í atvinnumannahnefaleikum. Fram kom í umræðum í nefndinni að strangar reglur hafa verið settar í Noregi og Svíþjóð um ólympíska hnefaleika, m.a. þannig að eftirlit með keppnum er mikið og læknir ávallt viðstaddur. Samkvæmt íþróttalögum, nr. 64/1998, er Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands æðsti aðili frjálsrar íþróttastarfsemi í landinu. Meiri hlutinn telur því eðlilegt að sambandið setji reglur um þessa íþróttagrein með hliðsjón af framangreindum reglum. Þá kom fram í máli gesta að uppeldisleg rök eru einnig fyrir lögleiðingu íþróttarinnar þar sem sumir hópar þjóðfélagsins gætu haft gott af iðkun íþróttarinnar og þeim aga sem þar gildir.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Tómas Ingi Olrich var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 3. maí 2000.



Sigríður A. Þórðardóttir,


form.


Kristinn H. Gunnarsson,


frsm.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.



Svanfríður Jónasdóttir.


Árni Johnsen.





Fylgiskjal.



Umsögn heilbrigðis- og trygginganefndar.
(13. apríl 2000.)


    Heilbrigðis- og trygginganefnd hefur fjallað um frumvarp til laga um lögleiðingu ólympískra hnefaleika, 292. mál, í samræmi við bréf menntamálanefndar frá 25. febrúar sl.
    Nefndin fékk á sinn fund vegna málsins Líneyju Rut Halldórsdóttur frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Grétar Guðmundsson frá Félagi heila- og taugalækna, Þuríði J. Jónsdóttur taugasálfræðing, Sigurbjörn Sveinsson frá Læknafélagi Íslands, Harald Sigurðsson frá Félagi íslenskra augnlækna, Ómar Ragnarsson, áhugamann um hnefaleika, Torfa Pálsson frá Glímusambandi Íslands og Ólaf Haraldsson Wallevik frá Karatesambandi Íslands. Þá horfði nefndin á myndband með nýlegri upptöku frá svokölluðum friðarleikum í áhugamannahnefaleikum. Kynnir var Ómar Ragnarsson.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að ólympískir hnefaleikar, öðru nafni áhugamannahnefaleikar, verði lögleiddir, en áfram gildi bann við atvinnumannahnefaleikum, sbr. lög nr. 92/ 1956, sem banna hnefaleika í atvinnuskyni.
     Meiri hluti nefndarinnar (JB, KF, JónK, ÁRJ, BH, ÞBack, TIO, LMR) er andvígur frumvarpi þessu. Meiri hlutinn telur jafnframt að heitið ólympískir hnefaleikar sé villandi. Um er að ræða hnefaleika sem stundaðir eru af áhugamönnum og annars staðar í heiminum er íþróttin að jafnaði kölluð áhugamannahnefaleikar (amateur boxing á ensku). Ekki er t.d. talað um ólympískt júdó þótt keppt sé í júdó á Ólympíuleikum. Þá vill meiri hlutinn taka fram að læknasamtök, t.d. í Bretlandi, hafa ákveðið að vinna gegn því að keppt sé í hnefaleikum á Ólympíuleikum.
    Slysatíðni í hnefaleikum er há miðað við aðrar íþróttir, sem kemur ekki á óvart þar sem markmiðið er að koma höggi á andstæðinginn, með öðrum orðum að fara inn fyrir varnir hans og þar með meiða hann. Þar greinir á milli hnefaleika og þorra annarra íþróttagreina því að hnefaleikar, bæði í atvinnuskyni og sem áhugamannaíþrótt, eru árásaríþrótt en ekki sjálfsvarnaríþrótt eins og t.d. karate og júdó. Slysatíðni er há í nokkrum öðrum íþróttagreinum en þar gegnir öðru máli því að ekki er um ásetning að ræða heldur slys. Í hnefaleikum er markvisst reynt að koma höggi á andstæðinginn og fær keppandi stig fyrir högg á höfuð jafnt sem aðra líkamshluta. Einnig eru veitt stig fyrir rothögg.
    Fram kom í máli sérfræðinga sem nefndin ræddi við að alvarlegustu áverkarnir sem hljótast í þessari íþrótt eru á miðtaugakerfi, þ.e. höfuð- og augnáverkar. Fyrir liggja vísindalegar sannanir um augnskaða í áhugamannahnefaleikum. Þá hefur verið sýnt fram á að enginn munur er á augnslysum í áhugamanna- eða atvinnumannahnefaleikum. Í austurrískri rannsókn sem framkvæmd var á árunum 1992–93 í Vínarborg voru bornir saman tveir hópar ungra manna. Annars vegar voru 25 einkennalausir áhugahnefaleikarar sem áttu að meðaltali 40 keppnir að baki og hins vegar 25 jafnaldrar sem ekki höfðu stundað hnefaleika. Niðurstaða rannsóknarinnar var að 19 áhugahnefaleikarar (76%) sýndu margvísleg merki um höggáverka á augum. Sambærilegur skaði fannst í einum einstaklingi í samanburðarhópi. Augnáverkar af þessum orsökum geta verið slæmir og leiða í mörgum tilvikum til varanlegrar sjónskerðingar.
    Samkvæmt kenningum sérfræðinga er breyting á meðvitundarástandi vegna höfuðhöggs, þ.e. að vankast eða rotast, nú talin vísbending um heilaskaða. Hnefi getur farið á um 160 km hraða á klukkustund í höfuðið á andstæðingi. Breytir þar engu hvort um áhugamanna- eða atvinnumannahnefaleika er að ræða. Það er þannig álit sérfræðinga að höfuðhlífar þær sem notaðar eru í áhugamannahnefaleikum verndi aðeins eyru og ytra borð höfuðs en veiti takmarkaða vörn fyrir heilann. Innri líffæri eru varin af beinum, húð, fitu og vöðvum en heilinn er aðeins varinn af höfuðkúpunni og tengist henni að innanverðu með háræðum og fínum taugum. Þegar boxari fær högg á höfuðið snýst það mjög snögglega og fer síðan í venjulega stöðu á mun hægari hraða. Þá hreyfast mismunandi svæði heilans á ólíkum hraða. Þetta veldur skemmdum, t.d. á yfirborði heilans sem slæst í innra lag höfuðkúpunnar, tauganet rifna, spenna milli heilavefjar og háræða getur valdið blæðingum, þrýstibylgjur geta valdið mismunandi blóðþrýstingi til hinna ýmsu hluta heilans og einnig geta myndast blóðkekkir í heilanum. Það er skoðun sérfræðinga að þung högg skipti ekki aðeins máli í þessu sambandi því að lítil högg valdi smám saman uppsöfnuðum vanda. Helstu erfiðleikarnir eru að áverkar á heila sjást ekki alltaf á myndum og því er erfitt að greina þá. Varanlegur heilaskaði getur t.d. komið fram í því að fínhreyfingar handanna skerðist. Talið er að ítrekaðir áverkar safnist saman og geti haft langtíma varanlegar alvarlegar afleiðingar. Þá er einnig margt sem bendir til þess að ítrekuð höfuðhögg geti m.a. aukið líkur á Parkinsons-sjúkdómi og Alzheimer-sjúkdómi.
    Meiri hluti nefndarinnar telur árásaríþrótt þessa og markmið hennar, þ.e. að koma höggi á andstæðinginn, þar á meðal höfuð hans, hafa í för með sér mun meiri hættu á líkamstjóni en aðrar íþróttir sem stundaðar eru hér á landi og leggst því eindregið gegn samþykkt þessa frumvarps.
     Minni hluti nefndarinnar (ÁMöl) er samþykkur frumvarpi þessu og telur að gera þurfi skýran greinarmun á atvinnumannahnefaleikum og ólympískum/áhugamannahnefaleikum. Hinir síðarnefndu eru viðurkennd íþróttagrein og keppnisgrein á Ólympíuleikum. Ísland er eina landið í heiminum sem hefur bannað iðkun greinarinnar. Atvinnumannahnefaleikar eru á hinn bóginn einungis leyfðir í nokkrum löndum heims.
    Reglur og öryggisbúnaður í þessum tveimur greinum íþrótta eru ólíkar. Í ólympískum hnefaleikum er leitast við að gæta fyllsta öryggis hnefaleikarans og taka reglur, t.d. lengd og fjöldi lota og búnaður, svo sem höfuðhlífar, klæðnaður og þykkt glófa, mið af því. Til grundvallar stigagjöf er lagt mat á leikni hnefaleikarans að fara inn fyrir varnir andstæðingsins, en ekki að slá andstæðinginn niður eða veita honum rothögg eins og í atvinnumannahnefaleikum.
    Í fagtímaritum á sviði læknisfræði hafa birst rannsóknir um áhættuna við iðkun íþróttarinnar. Margar þeirra benda til þess að slys séu fátíð og að um óveruleg áhrif á heilsu manna sé að ræða. Aðrar rannsóknarniðurstöður gefa vísbendingar um hugsanlegan heilaskaða til lengri tíma litið, svo og augnskaða.
    Þegar metið er hvort leyfa á ólympíska hnefaleika með tilliti til slysahættu verður að skoða áhættu af iðkun þeirra í samanburði við aðrar íþróttir. Rannsóknir á slysatíðni í íþróttum benda til þess að ólympískir hnefaleikar séu langt frá því að vera áhættusamasta íþróttin sem stunduð er og má nefna hesta- og bílaíþróttir og fjallaklifur til samanburðar. Ólíkt þessum íþróttum er t.d. ekki kunnugt um dauðaslys í ólympískum hnefaleikum.
    Í umsögn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands segir að ólympískir hnefaleikar séu ekki skaðlegri en margar aðrar íþróttir ef litið er til meiðsla og slysa við íþróttaiðkun. Jafnframt segir í umsögninni að í landinu séu stundaðar ýmsar aðrar íþróttagreinar, svo sem tae kwondo, karate og júdó, sem allar fela í sér bardaga og átök milli tveggja keppenda líkt og í hnefaleikum. Í áliti heilbrigðisráðs ÍSÍ, sem undirritað er af Birgi Guðjónssyni lækni, kemur fram að ráðið styður að bann við ólympískum hnefaleikum verði afnumið.
    Með vísun í framangreint og til jafnræðisreglunnar leggur minni hluti nefndarinnar til að frumvarpið verði samþykkt.