Ferill 250. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1204  —  250. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 60/1998, um loftferðir.

Frá meiri hluta samgöngunefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur frá samgönguráðuneyti, Jakob Fal Garðarsson, aðstoðarmann samgönguráðherra, Þorgeir Pálsson flugmálastjóra, Ómar Benediktsson frá Íslandsflugi hf., Jón Karl Ólafsson frá Flugfélagi Íslands hf. og Hjalta Geir Guðnason og Hörð Sverrisson frá Félagi íslenskra einkaflugmanna. Umsagnir um málið bárust frá Félagi íslenskra einkaflugmanna, Íslandsflugi hf., Samtökum ferðaþjónustunnar, flugráði og Flugmálastjórn. Þá barst sameiginleg umsögn frá Flugleiðum hf. og Flugfélagi Íslands hf.
    Með frumvarpi þessu er leitast við að styrkja gjaldtökuheimildir loftferðalaga. Þá er gert ráð fyrir því nýmæli að farið verði að innheimta sérstakt leiðarflugsgjald til Flugmálastjórnar til fjármögnunar flugleiðsöguþjónustu við flugrekendur auk þess sem ákvæði í loftflutningskafla laganna eru lagfærð.
    Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Þær helstu eru eftirfarandi:
     1.      Í fyrsta lagi er lögð til breyting á þyngdarflokkum vegna eftirlitsgjalda í 1. og 3. gr. frumvarpsins. Með þeirri breytingu verða lægri eftirlitsgjöld fyrir vélar sem eru 5.701–6.700 kg en ella hefðu orðið.
     2.      Lagt er til að lendingargjöld verði greidd fyrir lendingar loftfara í innanlandsflugi með 2.000 kg hámarksflugtaksmassa, en ekki 1.500 kg eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.
     3.      Þá er lagt til að mælt verði fyrir um lendingargjöld fyrir lendingu loftfara í millilandaflugi, en í frumvarpinu er einungis gert ráð fyrir lendingargjöldum í innanlandsflugi.
     4.      Lagt er til að vopnaleitargjald verði ekki einskorðað við Keflavíkurfluvöll, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu, heldur verði það greitt á öllum flugvöllum þar sem það fer fram. Þá er lagt til að gjaldið renni til Flugmálastjórnar en ekki sýslumanns, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Lagt er til að fjárhæð gjaldsins verði fest í lög og verði 125 kr. fyrir hvern farþega eldri en tólf ára, 65 kr. fyrir farþega tveggja til tólf ára, en börn yngri en tveggja ára verði undanþegin gjaldskyldu.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 8. maí 2000.



Árni Johnsen,


form., frsm.


Hjálmar Árnason.


Jón Kristjánsson.



Guðmundur Hallvarðsson.


Arnbjörg Sveinsdóttir.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.