Ferill 280. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1214  —  280. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Frá allsherjarnefnd.



     1.      Við 1. gr. Við 1. mgr bætist: og frjálst flæði þeirra á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins.
     2.      Við 2. gr.
                  a.      1. tölul. orðist svo: Persónuupplýsingar: Sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi.
                  b.      Á undan orðunum „yfirlýsing sem einstaklingur“ í 7. tölul. komi: ótvíræð.
                  c.      Í stað orðanna „og trúar- eða heimspekiskoðanir“ í a-lið 8. tölul. komi: svo og trúar- eða aðrar lífsskoðanir.
     3.      Við 3. gr. 3. mgr. fellur brott.
     4.      Við 5. gr. Greinin orðist svo:
                  Að því marki sem það er nauðsynlegt til að samræma sjónarmið um rétt til einkalífs annars vegar og tjáningarfrelsis hins vegar má víkja frá ákvæðum laganna í þágu fjölmiðlunar, lista eða bókmennta. Þegar persónuupplýsingar eru einvörðungu unnar í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi gilda aðeins ákvæði 4. gr., 1. og 4. tölul. 7. gr., 11.–13. gr. og 24., 28., 42. og 43. gr. laganna.
     5.      Við 7. gr.
                  a.      1. málsl. orðist svo: Við meðferð persónuupplýsinga skal allra eftirfarandi þátta gætt.
                  b.      Framan við 1.–5. tölul. bætist: að þær séu.
                  c.      Á undan orðunum „frekari vinnsla“ í 2. tölul. komi: en.
     6.      Við 8. gr.
                  a.      Við 1. málsl. 1. mgr. bætist: einhverjir eftirfarandi þátta séu fyrir hendi.
                  b.      Orðið „ótvírætt“ í 1. tölul. 1. mgr. falli brott.
     7.      Við 9. gr.
                  a.      Í stað orðanna „Vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga er því aðeins heimil að“ í 1. mgr. komi: Vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga er óheimil nema einhver af eftirfarandi þáttum eigi við.
                  b.      5. tölul. 1. mgr. orðist svo: vinnslan sé framkvæmd af samtökum sem hafa stéttarfélagsleg markmið eða af öðrum samtökum sem ekki starfa í hagnaðarskyni, svo sem menningar-, líknar-, félagsmála- eða hugsjónasamtökum, enda sé vinnslan liður í lögmætri starfsemi samtakanna og taki aðeins til félagsmanna þeirra eða einstaklinga sem samkvæmt markmiðum samtakanna eru, eða hafa verið, í reglubundnum tengslum við þau; slíkum persónuupplýsingum má þó ekki miðla áfram án samþykkis hins skráða.
                  c.      Við 9. tölul. 1. mgr. bætist: enda sé persónuvernd tryggð með tilteknum ráðstöfunum eftir því sem við á.
                  d.      Við bætist tvær nýjar málsgreinar er orðist svo:
                     Persónuvernd setur, að fenginni umsögn vísindasiðanefndar, reglur um hvernig velja má og nálgast fólk til þátttöku í vísindarannsóknum og hvaða fræðslu skuli veita því áður en samþykkis þess er óskað.
                     Persónuvernd leysir úr ágreiningi um hvort persónuupplýsingar skuli teljast viðkvæmar eða ekki.
     8.      Við 19. gr. 6. mgr. orðist svo:
                  Persónuvernd getur sett skilmála um beitingu upplýsingaréttar hins skráða í reglum sem ráðherra staðfestir.
     9.      Við 23. gr. Í stað orðsins „persónumynstra“ og „persónumynstur“ í fyrirsögn greinarinnar og í 1. mgr. komi: persónusniða, og: persónusnið.
     10.      Við 28. gr.
                  a.      Í stað orðanna „a.m.k. tvisvar á ári“ í 1. mgr. komi: á mánaðarfresti.
                  b.      Við lokamálslið 1. mgr. bætist: í sérstökum tilvikum.
                  c.      3. mgr. orðist svo:
                     Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda, eftir því sem við á, einnig um markaðs-, neyslu- og skoðanakannanir samkvæmt nánari fyrirmælum Persónuverndar. Persónuvernd er heimilt að undanþiggja vísindarannsóknir og hliðstæðar rannsóknir takmörkunum skv. 1. mgr., enda þyki ljóst að slík takmörkun geti skert til muna áreiðanleika niðurstöðu rannsóknarinnar.
     11.      Við 31. gr. Í stað 1. málsl. 3. mgr. komi tveir nýir málsliðir er orðist svo: Persónuvernd getur ákveðið að vissar tegundir vinnslu almennra upplýsinga skuli vera undanþegnar tilkynningarskyldu eða að um þær gildi einfaldari tilkynningarskylda. Persónuvernd getur jafnframt ákveðið að vissar tegundir vinnslu skuli vera leyfisskyldar.
     12.      Við 33. gr. Greinin orðist svo:
                  Sé um að ræða vinnslu almennra eða viðkvæmra persónuupplýsinga sem getur falið í sér sérstaka hættu á að farið verði í bága við réttindi og frelsi skráðra aðila getur Persónuvernd ákveðið að vinnslan megi ekki hefjast fyrr en hún hefur verið athuguð af stofnuninni og samþykkt með útgáfu sérstakrar heimildar. Persónuvernd getur ákveðið að slík leyfisskylda falli brott þegar settar hafa verið almennar reglur og öryggisstaðlar sem fylgja skuli við slíka vinnslu.
     13.      Við 36. gr. 3. mgr. orðist svo:
                  Ráðherra skipar fimm menn í stjórn Persónuverndar og jafnmarga til vara til fjögurra ára í senn. Formann og varaformann stjórnarinnar skipar ráðherra án tilnefningar og skulu þeir vera lögfræðingar og fullnægja hæfisskilyrðum héraðsdómara. Hæstiréttur tilnefnir einn stjórnarmann og Skýrslutæknifélag Íslands annan og skal hann vera sérfróður á sviði tölvu- og tæknimála. Varamenn skulu fullnægja sömu skilyrðum og aðalmenn.
     14.      Við 42. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
             Nú er brot framið í starfsemi lögaðila og má þá gera lögaðilanum fésekt skv. II. kafla A almennra hegningarlaga.
     15.      Við 45. gr. Á undan 3. mgr. kemur ný málsgrein er orðist svo:
             Að fenginni umsögn Persónuverndar skal ráðherra í reglugerð mæla nánar fyrir um eftirlit Persónuverndar með rafrænni vinnslu persónuupplýsinga hjá lögreglu. Þar skal m.a. mælt fyrir um skyldu lögreglu til að tilkynna Persónuvernd um rafrænt unnar skrár sem hún heldur og efni slíkra tilkynninga. Þá skal mælt fyrir um í hvaða tilvikum og með hvaða hætti hinn skráði á rétt til aðgangs að persónuupplýsingum sem skráðar hafa verið um hann hjá lögreglu, svo og heimild lögreglu til miðlunar upplýsinga í öðrum tilvikum. Loks skal mælt fyrir um öryggi persónuupplýsinga og innra eftirlit lögreglu með því að vinnslu persónuupplýsinga sé hagað í samræmi við lög, svo og um tímalengd á varðveislu skráðra upplýsinga.
     16.      Við 46. gr.
                  a.      1. málsl. 1. mgr. orðist svo: Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2001.
                  b.      Við 2. mgr. bætast tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
                         3.     Í stað orðsins „Tölvunefnd“ í 3. mgr. 15. gr. laga um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, kemur: Persónuvernd.
                         6.     Í stað orðsins „tölvunefnd“ í 18. og 19. gr. laga um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi, nr. 16/2000, kemur í viðeigandi falli: Persónuvernd.
     17.      Við ákvæði til bráðabirgða. Í stað 1. mgr. komi tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Þegar er lög þessi hafa verið birt skal ráðherra skipa stjórn og auglýsa embætti forstjóra Persónuverndar laust til umsóknar. Eftir að forstjóri hefur verið skipaður ræður hann eftir þörfum annað starfsfólk til að annast undirbúning að gildistöku laganna og sinna stjórnsýslu skv. 2. mgr.
                  Þrátt fyrir 1. mgr. 46. gr. skal Persónuvernd þegar er stjórn hennar hefur verið skipuð taka að sér eftirlit með því að meðferð persónuupplýsinga í Schengen-upplýsingakerfinu á Íslandi sé í samræmi við lög nr. 16/2000, um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.