Ferill 564. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1215  —  564. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á upplýsingalögum, nr. 50/1996 o.fl.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristján Andra Stefánsson frá forsætisráðuneyti. Umsagnir bárust frá Blaðamannafélagi Íslands og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja.
    Megintilgangur frumvarpsins er að halda í þau lagaskil sem gildissvið laga nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, með síðari breytingum, hefur dregið milli þeirra og upplýsingalaga, nr. 50/1996, þegar ný lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga leysa fyrrnefndu lögin af hólmi. Gildissvið laga um skráningu og meðferð persónuupplýsinga hefur almennt verið bundið við persónuupplýsingar sem kerfisbundið eru færðar í skrá. Frumvarp til laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga gerir hins vegar ekki þann greinarmun á varðveisluformi upplýsinga sem það tekur til. Í 1. gr. frumvarps þessa er því lagt til að sams konar lagaskilaregla verði tekin í upplýsingalögin og leitt hefur af gildissviði laga um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Af því leiðir að frumvarp til laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga ætti yfirleitt einungis að ganga upplýsingalögunum framar þegar 18. gr. frumvarpsins á við um upplýsingarétt aðila. Skýr skil þarna á milli hafa þó fyrst og fremst þýðingu við ákvörðun um á hvaða lagagrundvelli beri að leysa úr beiðni um aðgang að upplýsingum hjá stjórnvöldum. Efnisreglur laganna ættu hins vegar að leiða til svipaðrar niðurstöðu, enda er litið svo til að þeir hagsmunir sem takmörkunum þeirra er ætlað að vernda séu yfirleitt hinir sömu.
    Aðrar breytingar samkvæmt frumvarpinu miða að því að bæta starfsskilyrði úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sem starfrækt er samkvæmt V. kafla upplýsingalaga, og að gera lítils háttar lagfæringu á stjórnsýslulögum.
    Við umfjöllun málsins hjá nefndinni komu fram athugasemdir frá forsætisráðuneyti, þar sem frumvarpið var samið, um að æskilegt væri að gerðar yrðu breytingar á frumvarpinu og eftir að hafa skoðað málið leggur nefndin til breytingar á ákvæðum þess til samræmis við þær athugasemdir.
    Lagt er til að frestur til að höfða mál til ógildingar á úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál fyrir dómstólum verði lengdur um eina viku þegar dómari synjar um að veita málinu flýtimeðferð skv. XIX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Kemur það til af því að heimild úrskurðarnefndar til að fresta réttaráhrifum úrskurðar í því skyni að hann verði
borinn undir dómstóla ber lögum samkvæmt að binda því skilyrði að óskað sé flýtimeðferðar




Prentað upp.

slíks máls fyrir dómstólum. Dómstólar meta eftir sem áður sjálfir hvort mál sé þess eðlis að það fullnægi lögmæltum skilyrðum til að því sé veitt slík meðferð. Meti dómari það ekki svo hefur í framkvæmd risið um það vafi hvort sjö daga frestur skv. 18. gr. upplýsingalaga til að bera mál undir dómstóla hafi rofnað við það að óskað sé slíkrar meðferðar eða hvort hann haldi áfram að líða þar til mál er höfðað með útgáfu stefnu. Til að taka af allan vafa um þetta er lagt til að tekið verði í lögin sérstakt ákvæði um að nýr frestur byrji að líða ef dómari synjar um flýtimeðferð. Með því að stefnu þarf jafnframt að undirbúa með nokkuð öðrum hætti, ef svo ber undir, þykir jafnframt rétt að veita í því skyni aðra sjö daga.
    Þá er lagt til að vísun til laga um skráningu og meðferð persónuupplýsinga í 17. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, falli brott. Í þessari grein er stjórnvaldi heimilað að takmarka aðgang aðila máls að gögnum þess ef hagsmunir hans þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari einkahagsmunum, þar á meðal ef lög um skráningu og meðferð persónuupplýsinga standa því í vegi. Þessi breyting stuðlar einnig að því að skýra lagaskil á milli stjórnsýslulaga og laga um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, eftir atvikum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga þegar þau leysa hin fyrrnefndu af hólmi, enda verður þeim ekki beitt samhliða, sbr. 2. mgr. 44. gr. frumvarps til síðastnefndu laganna. Beri á annað borð að leysa úr beiðni aðila máls um aðgang að gögnum þess á grundvelli stjórnsýslulaga verða takmarkanir á aðgangi hans ekki metnar á öðrum lagagrundvelli. Vísun til annarra laga í þessu ákvæði stjórnsýslulaganna á því ekki við enda þótt þau geti eftir sem áður verið inntaki þeirra hagsmuna, sem takmörkunarákvæði stjórnsýslulaga er ætlað að vernda, til skýringar.
    Þá er lögð til breyting á gildistökuákvæði frumvarpsins til samræmis við frumvarp til laga um persónuupplýsingar og meðferð persónuupplýsinga sem lagt er til að öðlist gildi 1. janúar á næsta ári samkvæmt breytingu sem nefndin hefur lagt til á því frumvarpi. Með þessu frumvarpi eru lagðar til breytingar á 1. og 6. gr. upplýsingalaga til samræmis við fyrrgreint frumvarp og er breytingin sem nefndin leggur til hér gerð til samræmis við það frumvarp.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Ögmundur Jónasson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.
    Ásta Möller og Ólafur Örn Haraldsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. maí 2000.



Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


form., frsm.


Jónína Bjartmarz.


Hjálmar Jónsson.



Guðrún Ögmundsdóttir.


Katrín Fjeldsted.


Sverrir Hermannsson.



Lúðvík Bergvinsson.