Ferill 420. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1219  —  420. mál.



Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti, og á l. nr. 10/1993, um verðbréfasjóði, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Árnason og Birgi Má Ragnarsson frá viðskiptaráðuneyti, Pál G. Pálsson frá Fjármálaeftirlitinu, Sigríði Á. Andersen frá Verslunarráði Íslands, Ingimund Friðriksson frá Seðlabanka Íslands og Helenu Hilmarsdóttur frá Verðbréfaþingi Íslands. Umsagnir um málið bárust frá Verslunarráði Íslands, Seðlabanka Íslands, Samtökum fjárfesta og sparifjáreigenda, Verðbréfaþingi Íslands, Fjármálaeftirlitinu, Samtökum fjármálafyrirtækja og Félagi löggiltra endurskoðenda.
    Með frumvarpinu er stefnt að því að mæta örri þróun í verðbréfaviðskiptum. Meðal helstu breytinga má nefna að gerðar eru auknar menntunarkröfur til starfsmanna fyrirtækja í verðbréfaþjónustu og lánastofnana sem hafa umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við viðskipti, aðskilnaður einstakra starfssviða fyrirtækja er gerður skýrari, auk þess sem mælt er fyrir um ítarlegri verklagsreglur um eigin viðskipti fyritækja, eigenda þeirra, stjórnenda, starfsmanna og maka þeirra. Þá er lagt til að krafa um starfsábyrgðartryggingu verði látin ná til verðbréfamiðlara en ekki verðbréfafyrirtækja eins og nú er og loks að ákvæði verði sett um samningsbundið uppgjör tiltekinna afleiðusamninga í tengslum við stöðu þeirra við gjaldþrot, nauðasamninga og greiðslustöðvun.
    Miklar umræður urðu í nefndinni um hvort unnt væri að setja í lögin heimild til handa ráðherra til að setja reglugerð um viðskipti fruminnherja. Varð niðurstaða meiri hlutans sú að leggja ekki til slíka breytingu á frumvarpinu. Telur meiri hlutinn að þær hömlur á viðskipti tiltekinna aðila sem óhjákvæmilega felast í slíkum reglum verði að eiga sér skýra lagastoð. Þá ákvað meiri hlutinn að leggja til að 7. gr. frumvarpsins um almenn útboð verði felld brott. Telur hann einnig óeðlilegt að ráðherra verði falið að setja reglugerð um þau atriði sem þar eru rakin, þau séu þess eðlis að nauðsynlegt sé að kveða á um þau í lögum. Beinir meiri hlutinn þeim tilmælum til viðskiptaráðherra að hann hlutist til um að samið verði frumvarp sem feli í sér helstu efnisreglur um þessi tvö mikilvægu svið ásamt reglum um lokuð útboð. Leggur meiri hlutinn áherslu á að slíkt frumvarp verði lagt fram strax í upphafi næsta löggjafarþings. Við meðferð málsins í nefndinni kom fram að reglugerð um þessi svið hefði ekki orðið tilbúin fyrr en í haust og því ætti þessi tillaga meiri hlutans ekki að leiða til þess að reglurnar verði síðar á ferðinni en ella hefði orðið.
    Aðrar breytingar sem meiri hlutinn leggur til á frumvarpinu eru eftirfarandi:
     1.      Lögð er til smávægileg leiðrétting í 1. gr. frumvarpsins.
     2.      Lagðar eru til orðalagsbreytingar á orðskýringum í 2. gr. frumvarpsins. Ekki er um efnisbreytingar að ræða.


Prentað upp.

     3.      Lagt er til að heimilt verði að veita undanþágu frá einstökum hlutum prófs í verðbréfaviðskiptum eða prófi í heild hafi viðkomandi lokið jafngildu námi. Þá er lagt til að heiti prófsins verði próf í verðbréfaviðskiptum frekar en próf í verðbréfamiðlun, enda er miðlun verðbréfa einungis einn þáttur verðbréfaviðskipta.
     4.      Lagt er til að ný grein komi í stað 7. gr. Með henni er aukin ábyrgð fyrirtækja í verðbréfaþjónustu varðandi bann við milligöngu þar sem grunur er um brot á reglum um meðferð trúnaðarupplýsinga og kveðið á um skyldu fyrirtækja í verðbréfaþjónustu til að tilkynna það Fjármálaeftirlitinu ef grunur vaknar um að viðskipti grundvallist á trúnaðarupplýsingum eða um er að ræða sýndarviðskipti.
     5.      Lagðar eru til tvær breytingar á 8. gr. Í fyrsta lagi er lagt til að orðin „sem því eru falin til sölu“ í fyrri efnismálsgrein falli brott þar sem ekki er ástæða til að takmarka gildissvið greinarinnar við eigin viðskipti með verðbréf sem fyrirtæki eru falin til sölu. Eðlilegra er að reglurnar taki til allra eigin viðskipta fyrirtækja í verðbréfaþjónustu. Þá er lagt til að í stað orðanna „staðfesti þau“ í 6. tölul. fyrri efnismálsgreinar 8. gr. komi orðin „hafi eftirlit með þeim“. Er það gert þar sem ógjörningur er fyrir stjórn fyrirtækis í verðbréfaþjónustu að fara yfir hver einstök eigin viðskipti fyrirtækisins og viðskipti eigenda, stjórnenda, starfsmanna og maka þeirra.
     6.      Lögð er til leiðrétting á 9. gr., þ.e. að í stað orðsins „bankaeftirlitið“ komi „Fjármálaeftirlitið“.
     7.      Loks er lögð til breyting á gildistökuákvæði frumvarpsins. Lagt er til að aðlögun að 5. gr. um menntunarkröfur verði til 1. janúar 2002 í stað 1. júlí 2001.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 8. maí 2000.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Hjálmar Árnason.



Sigríður A. Þórðardóttir.


Pétur H. Blöndal.


Gunnar Birgisson.