Ferill 420. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1220  —  420. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um breyt. á l. nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti, og á l. nr. 10/1993, um verðbréfasjóði, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar (VE, KHG, HjÁ, SAÞ, PHB, GunnB).



     1.      Við 1. gr. Á eftir orðunum „samningsbundið uppgjör“ komi: afleiðusamninga.
     2.      Við 2. gr. B-liður orðist svo: Við greinina bætast sex nýir töluliðir, svohljóðandi:
    17 .     Afleiðusamningur: Samningur þar sem uppgjörsákvæði byggist á breytingu einhvers þáttar, svo sem vaxta, gengis gjaldmiðla, verðbréfaverðs, verðbréfavísitölu eða hrávöruverðs. Andvirði slíks samnings er háð breytingu þessara viðmiðunarþátta á tilteknu tímabili.
               18.      Framvirkur vaxtasamningur: Afleiðusamningur sem kveður á um vaxtaviðmiðun á ákveðnu tímabili og reiknast vextir af fyrir fram ákveðinni grunnfjárhæð sem ekki kemur til greiðslu. Samningurinn er gerður upp á fyrir fram ákveðnum uppgjörsdegi.
               19.      Valréttarsamningur: Afleiðusamningur sem veitir öðrum samningsaðila, kaupanda, rétt en ekki skyldu til að kaupa (kaupréttur) eða selja (söluréttur) tiltekna eign (andlag samnings) á fyrir fram ákveðnu verði (valréttargengi) á tilteknu tímamarki eða innan tiltekins tíma. Sem endurgjald fyrir þennan rétt fær hinn samningsaðilinn, útgefandinn, ákveðið gjald sem segir til um markaðsvirði valréttarins við upphaf samningstímans.
               20.      Framvirkur samningur: Afleiðusamningur sem kveður á um skyldu samningsaðila til að kaupa eða selja tiltekna eign fyrir ákveðið verð á fyrir fram ákveðnum tíma.
               21.      Vaxta- og gjaldmiðlaskiptasamningur: Afleiðusamningur sem kveður á um að samningsaðilar greiði vexti hvor til annars af tiltekinni viðmiðunarfjárhæð í sama gjaldmiðli eða greiði vexti og höfuðstól hvor til annars hvor í sínum gjaldmiðli á samningstímanum.
               22.      Samningsbundið uppgjör afleiðusamninga: Samningur á milli tveggja eða fleiri aðila sem eiga kröfu hver á annan um að í stað þess að gera upp hverja kröfu fyrir sig sérstaklega skuli láta kröfurnar jafnast hverja á móti annarri og aðeins mismunurinn (jaðargreiðsla) komi til greiðslu.
     3.      Við 5. gr. Fyrri efnismálsgrein orðist svo:
             Starfsmenn fyrirtækis í verðbréfaþjónustu, sem hafa umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við viðskipti með verðbréf skv. 8. og 9. gr., skulu hafa staðist próf í verðbréfaviðskiptum. Í reglugerð skal kveða á um prófkröfur og heimildir til að veita undanþágur frá einstökum hlutum slíks prófs eða prófi í heild ef aðili hefur lokið jafngildu námi.
     4.      Við 7. gr. Greinin orðist svo:
              Eftirtaldar breytingar verða á 18. gr. laganna:
                  a.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama gildir varðandi vitneskju eða grun um að viðskipti brjóti gegn 30. gr.
                  b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                       Vakni grunur skv. 1. mgr. skal fyrirtækið þegar í stað tilkynna það til Fjármálaeftirlitsins.
     5.      Við 8. gr.
                  a.      Orðin „sem því eru falin til sölu“ í fyrri efnismálsgrein falli brott.
                  b.      Í stað orðanna „staðfesti þau“ í 6. tölul. fyrri efnismálsgreinar komi: hafi eftirlit með þeim.
     6.      Við 9. gr. Í stað orðsins „bankaeftirlitið“ komi: Fjármálaeftirlitið.
     7.      Við 13. gr. Greinin orðist svo:
             Lög þessi öðlast þegar gildi. Fyrirtæki í verðbréfaþjónustu skulu hafa lagað starfsemi sína að 5. gr. laga þessara fyrir 1. janúar 2002.