Ferill 500. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1223  —  500. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um álagningu gjalda á vörur.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergþór Magnússon, Tómas N. Möller og Halldór Þorkelsson frá fjármálaráðuneyti. Umsagnir um málið bárust frá Bændasamtökum Íslands, ríkistollstjóra, Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunarinnar, Samtökum verslunar og þjónustu, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Verslunarráði Íslands og dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum ýmissa laga er kveða á um álagningu gjalda á vörur sem fluttar eru hingað til lands eða eru framleiddar hér á landi. Er um að ræða breytingar á ákvæðum tollalaga, laga um vörugjald, laga um gjald af áfengi, laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og laga um virðisaukaskatt. Með breytingunum er stefnt að því að kveða skýrar á um í hvaða tilvikum gjöld þau sem lögð eru á með fyrrgreindum lögum skuli felld niður eða lækkuð. Þá er í frumvarpinu lögð til sú breyting að í stað þess að úrskurðum tollstjóra um lækkun eða niðurfellingu gjalda verði skotið til ríkistollanefndar verði þeim skotið til ríkistollstjóra sem kveði upp fullnaðarúrskurð á stjórnsýslustigi. Loks er lagt til í frumvarpinu að tollgæslumönnum verði heimiluð notkun tiltekinna vopna við störf sín ef þörf krefur.
    Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Lagt er til tekið verði fram að vistir og aðrar nauðsynjar í fari verði aðeins tollfrjálsar í fari sem er í utanlandsferðum. Er sú orðnotkun í samræmi við orðnotkun í tollalögum.
     2.      Lagt er til að brúðkaupsgjafir verði tollfrjálsar þrátt fyrir að vera yfir 7.000 kr. að verðmæti, en þær eru gjarnan veglegri en aðrar gjafir.
     3.      Lagt er til að orðinu bifhjól verði bætt við 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. en það mun hafa fallið brott úr texta við vinnslu frumvarpsins.
     4.      Lögð er til skýrari framsetning á heimildum tollstjóra til að fella niður tolla.
     5.      Lagðar eru til leiðréttingar á tilvísunum í 11., 18. og 19. gr. frumvarpsins og að í nýrri frumvarpsgrein verði gerð leiðrétting á tilvísun í 85. gr. laganna.
     6.      Lagt er til að vörugjald af tiltekinni tegund morgunkorns verði fellt niður til samræmis við aðrar gerðir morgunkorns sem eru án vörugjalds.
     7.      Lagt er til að öll ökutæki sem ætluð eru fyrir starfsemi björgunarsveita verði undanþegin vörugjaldi og virðisaukaskatti en ekki einungis bifreiðar og vélsleðar eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.
     8.      Lagt er til að aðeins óskattskyldir rannsóknaraðilar fái endurgreiddan virðisaukaskatt af rannsóknartækjum en ekki allir óskattskyldir aðilar.
     9.      Loks er lagt til að við frumvarpið bætist ákvæði til bráðabirgða þar sem fram komi að heimildir sem innflytjendur og framleiðendur hafi við gilsdistöku laganna til niðurfellingar tolls af hráefni, efnivöru og hlutum í innlendar framleiðsluvörur gildi til 31. október 2000. Á því tímamarki er stefnt að því að ráðgjafarnefnd hafi lokið tillögugerð sinni til landbúnaðarráðherra um framtíðarfyrirkomulag úthlutana tollkvóta viðkomandi hráefna.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Jóhanna Sigurðardóttir, Margrét Frímannsdóttir og Ögmundur Jónasson skrifa undir álitið með fyrirvara.

Alþingi, 8. maí 2000.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Hjálmar Árnason.



Sigríður A. Þórðardóttir.


Pétur H. Blöndal.


Gunnar Birgisson.



Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.


Margrét Frímannsdóttir,


með fyrirvara.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.