Ferill 557. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1236  —  557. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um framkvæmd samnings um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu.

Frá minni hluta umhverfisnefndar.



    Frumvarp þetta gerir ráð fyrir að yfirstjórn mála samkvæmt lögunum sé í höndum tveggja ráðherra og er það rökstutt í greinargerð með tilvísun í reglugerð um Stjórnarráð Íslands. Minni hlutinn telur að hér sé gengið fulllangt í skilgreiningu á verksviði ráðuneyta.
    12. gr. reglugerðarinnar hljóðar svo:
    „ Sjávarútvegsráðuneyti fer með mál, er varða:
     1.      Sjávarútveg.
     2.      Friðun og nýtingu fiskimiða.
     3.      Hafrannsóknastofnunina og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins.
     4.      Mat sjávarafurða.
     5.      Fiskifélag Íslands, Fiskimálaráð, Síldarútvegsnefnd og Verðlagsráð sjávarútvegsins.
     6.      Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins, Fiskimálasjóð, Fiskveiðasjóð Íslands, Styrktar- og lánasjóð fiskiskipa, Stofnfjársjóð fiskiskipa, Tryggingasjóð fiskiskipa og Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins.
     7.      Síldarverksmiðjur ríkisins og Tunnuverksmiðjur ríkisins.“
    Minni hlutinn telur reglugerðargreinina ekki krefjast þess að framkvæmd samningsins verði að hluta á hendi sjávarútvegsráðherra. Samkvæmt henni fer hann einungis með friðun og nýtingu fiskimiða. Hins vegar er í 13. gr. reglugerðarinnar fjallað um verksvið umhverfisráðuneytis og þar kemur fram að aðgerðir til að stjórna stofnstærð villtra dýra og dýravernd heyra undir verksvið þess ráðuneytis:
    „ Umhverfisráðuneyti fer með mál er varða:
     1.      Náttúruvernd, friðunar- og uppgræðsluaðgerðir á sviði gróður- og skógverndar að fengnum tillögum Náttúruverndarráðs og í samráði við landbúnaðarráðherra, útivist og aðstöðu til náttúruskoðunar, aðgerðir til að stjórna stofnstærð villtra dýra, dýravernd og eflingu alhliða umhverfisverndar. Enn fremur þjóðgarða, aðra en Þingvallaþjóðgarð. Náttúruverndarráð og embætti veiðistjóra.
     2.      Varnir gegn mengun á landi, í lofti og legi, eyðingu og endurvinnslu hvers konar úrgangs frá byggð og atvinnuvegum, yfirstjórn Hollustuverndar ríkisins.
     3.      Skipulags- og byggingarmál, brunavarnir, gerð landnýtingaráætlana og mál er varða landmælingar, skipulagsstjóra ríkisins, skipulagsstjórn, Brunamálastofnun ríkisins og Landmælingar Íslands.
     4.      Rannsóknir á sviði umhverfismála í samráði og samvinnu við aðra aðila, veðurspár, veðurathuganir og aðrar mælingar á ástandi lofthjúps jarðar og alþjóðlega samvinnu á því sviði, Veðurstofu Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands.
     5.      Varnir gegn ofanflóðum, sem eigi ber undir annað ráðuneyti lögum samkvæmt.
     6.      Fræðslu og upplýsingastarfsemi á sviði umhverfismála.
     7.      Frumkvæði að samræmingu á aðgerðum ráðuneyta, einstakra ríkisstofnana og sveitarfélaga í málaflokkum sem snerta framkvæmd umhverfismála, svo sem í löggjöf um losun úrgangsefna og varnir gegn loft-, hávaða-, titrings-, geislunar-, ljós-, varma- og lyktarmengun.“
    Í þessu sambandi telur minni hlutinn rétt að huga að því að þótt CITES-samningurinn sé í eðli sínu viðskiptasamningur er honum ætlað að stuðla að verndun dýra eða því að verndarákvæðum sé frekar framfylgt. Það að banna verslun með dýr í útrýmingarhættu hefur reynst vel í báráttunni gegn veiðum á þeim og í sumum tilfellum betur en friðunarráðstafanir. Í skilningi reglugerðarákvæðanna virðast málefni og markmið samningsins því fremur heyra undir umhverfisráðherra en sjávarútvegsráðherra. Minni hlutinn leggur það því til í sérstöku þingskjali. Er það í samræmi við umsagnir Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruverndar ríkisins sem nefndinni bárust. Mun það einnig tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum og víðast í Evrópu (sbr. umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands).
    Minni hlutinn telur einnig mikilvægt að einfalda og skýra framkvæmd samningsins og leggur því fram breytingartillögu, en leggur þó til að í málum sem snerta nytjastofna sjávar skuli umhverfisráðherra leita eftir samþykki sjávarútvegsráðherra áður en ákvarðanir eru teknar. Ábyrgð á framkvæmdinni verði þó aðeins umhverfisráðherra og þar með setning reglugerða vegna samningsins.

Alþingi, 3. maí 2000.



Kolbrún Halldórsdóttir,


frsm.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.