Ferill 547. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1266  —  547. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Um er að ræða m.a. breytingu á frestun á skattlagningu vegna iðgjalda til lífeyrissjóða, meðferð tekna af kaupum á hlutabréfum samkvæmt kauprétti, skattfrelsi vegna kaupa á erlendum hlutabréfum, mat á erlendum hlutabréfum til eignarskattsstofns og túlkun og framkvæmd á tvísköttunarsamningum.
    Nefndin hefur fjallað ítarlega um frumvarpið og fengið umsagnir um það. Meðal annars barst ítarleg umsögn frá ríkisskattstjóra þar sem hann bendir á að ákvæði skattalaga um frádrátt iðgjalda til lífeyrissjóða hafi lengi verið ófullnægjandi, réttarástand óljóst og ósamræmi í framkvæmd og að skortur á skýrum reglum hafi leitt til misnotkunar og ágreinings. Ríkisskattstjóri gerir verulegar athugasemdir við ýmsar aðrar breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu og dregur verulega í efa að rétt sé að ráðast í þær eins og fram kemur í ítarlegri umsögn hans sem fylgir með nefndaráliti þessu.
    Það vekur athygli að lítið sem ekkert tillit er tekið til athugasemda sem bárust frá ríkisskattstjóra í breytingartillögum meiri hlutans.
    Minni hlutinn er hlynntur þeim breytingum sem lagðar eru til varðandi aukið skattfrelsi lífeyrisiðgjalda. Um er að ræða að launafólk og sjálfstætt starfandi einstaklingar fá auknar heimildir til að draga frá skattskyldum tekjum sínum greiðslur í lífeyrissparnað. Minni hlutinn tekur undir þau sjónarmið sem fram hafa komið að þessi breyting hvetji til aukins sparnaðar landsmanna. Minni hlutinn hlýtur þó að vekja athygli á því að ríkissjóður gæti tímabundið orðið fyrir umtalsverðum tekjumissi af þessum sökum.
    Minni hlutinn lýsir eindreginni andstöðu við þá þætti frumvarpsins sem miða að auknum frádrætti vegna fjárfestinga í hlutabréfum og breytingu á skattalegri meðferð kaupréttar eða valréttarsamninga. Þær breytingar fela meðal annars í sér að að uppfylltum ákveðnum skilyrðum verði tekjur starfsmanna af kaupum á hlutabréfum samkvæmt kauprétti ekki skattlagðar sem launatekjur með 38,37% skatthlutfalli heldur sem fjármagnstekjur með 10% skatthlutfalli.
    Þessi breyting mun koma hluta starfsmanna hlutafélaga til góða en ekki öðru launafólki eða elli- og örorkulífeyrisþegum. Í greinargerð með frumvarpinu er gert ráð fyrir að hér sé aðeins um að ræða „vel menntað og sérhæft starfsfólk“. Því má draga í efa að þessi undanþága standist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar eins og fram kemur í umsögn ASÍ.
    Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir að reglur um frádrátt vegna fjárfestinga í hlutabréfum verði rýmkaðar. Heimildin verði ekki lengur bundin því að fjárfest sé í innlendum hlutabréfum heldur nái hún einnig til fjárfestinga í erlendum hlutabréfum. Fyrir þessari breytingu eru færð þau rök að í gildandi lögum felist mismunun sem brjóti í bága við skuldbindingar okkar vegna EES-samningsins. Minni hlutinn tekur undir það sjónarmið sem fram kemur í umsögn ASÍ og BSRB að ef um sé að ræða brot á ákvæðum EES-samningsins sé eðlilegra að afnema afsláttinn vegna hlutabréfakaupa í stað þess að leggja til þá útvíkkun sem frumvarpið felur í sér. Jafnframt er ástæða til að vara við því að um misnotkun geti orðið að ræða þegar skattaleg meðferð er mismunandi vegna launagreiðslna og aukinna ívilnana vegna kaupa á hlutabréfum.
    Minni hlutinn fagnar því að meiri hluti nefndarinnar hefur lagt fram breytingartillögu sem kemur til móts við frumvarp þingmanna Samfylkingarinnar á þskj. 862 um að meðlagsgreiðslur umfram lágmarksmeðlög verði ekki skattlagðar. Fram til þessa hafa meðlög umfram lágmarksmeðlög verið skattskyld sem verður að teljast mjög ósanngjarnt. Í fyrsta lagi er það vegna þess að í hugum flestra er meðlag foreldris með barni ekki tekjur móttakanda heldur fremur ráðstöfun tekna meðlagsgreiðanda í þágu barnsins. Í öðru lagi má segja að um sé að ræða tvísköttun, þ.e. fyrst er greiddur skattur af tekjum meðlagsgreiðanda og síðan af meðlaginu þegar það er komið í hendur þess sem hefur forræði yfir barninu. Minni hlutinn vekur þó athygli á því að í þessu sambandi þyrfti einnig að gera breytingu á lögum sem tryggja að Innheimtustofnun sveitarfélaga innheimti meðlagsgreiðslur umfram lágmarksmeðlag líkt og nú er gert varðandi lögboðið lágmarksmeðlag.
    Minni hlutinn flytur einnig breytingartillögu við frumvarpið sem felur í sér að mikil hækkun á fasteignamati skerði ekki barna- og vaxtabætur. Ráðgjafarstofa heimilanna hefur vakið athygli á því að fasteignamat eigna á höfuðborgarsvæðinu hafi hækkað 1. desember 1999 um 18%, en hækkun á eignaviðmiðun skattalaga hækkar aðeins um 2,5% milli ára. Miðað við að eignarskattsstofn, þ.e. eignir að frádregnum skuldum, hækki um 10% milli áramótanna 1998–1999 og 1999–2000, gerir Þjóðhagsstofnun ráð fyrir að barnabætur skerðist um 15 millj. kr. og vaxtabætur um 70 millj. kr. Í breytingartillögu minni hlutans er gert ráð fyrir að eignarskattsstofn að frádregnum skuldum hækki um 15% milli ára sem ætla má að sé raunhæfara miðað við 18% hækkun á fasteignamati eigna.
    Með vísan til framanritaðs er ljóst að minni hlutinn styður eingöngu eitt af meginmarkmiðum frumvarpsins, þ.e. að skattfrelsi lífeyrisiðgjalda verði aukið, en mun greiða atkvæði gegn þeim ákvæðum sem lúta að kaupum á hlutabréfum samkvæmt kauprétti og auknu skattfrelsi vegna kaups á erlendum hlutabréfum.

Alþingi, 9. maí 2000.



Margrét Frímannsdóttir,


frsm.


Jóhanna Sigurðardóttir.


Ögmundur Jónasson.




    Eftirfarandi fylgiskjölum er útbýtt með nefndarálitinu:
         I.     Umsögn Alþýðusambands Íslands, 26. apríl 2000.
         II.     Umsögn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, 2. maí 2000.
         III.     Umsögn ríkisskattstjóra 27. apríl 2000.