Ferill 292. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1269  —  292. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um að lögleiða ólympíska hnefaleika.

Frá minni hluta menntamálanefndar.


    Að lokinni umfjöllun nefndarinnar hefur minni hlutinn komist að þeirri niðurstöðu að halda eigi fast við núgildandi bann við hnefaleikum. Þær ástæður sem minni hlutinn telur vega þyngst eru vísbendingar um alvarlegt heilsutjón sem hlýst af iðkun hnefaleika, jafnt áhugamanna sem atvinnumanna, og vísbendingar um að skaðinn af iðkun þessara tveggja tegunda hnefaleika sé fyllilega sambærilegur eða alveg sá sami. Að sögn sérfræðinga sem komu á fund heilbrigðisnefndar eru sterkar vísbendingar um að svo sé. Er þar um að ræða alvarlega höfuðáverka, skaða á æðum sem geta rifnað, skaða vegna rifinna festinga, skaða sem hlýst af blæðingum, jafnt fyrir innan heila og utan, heilaskaða af völdum uppsafnaðra áhrifa höfuðhögga, taugaskaða, hreyfiskaða, augnskaða og vitrænan skaða. Þá eru einnig vísbendingar um tengsl hnefaleikaiðkunar og Alzheimer-sjúkdómsins. Augnskaðarannsóknir hafa einnig gefið tilefni til að ætla að höfuðhlífar í hnefaleikum áhugamanna veiti falskt öryggi og augnskaðar sem hljótast í áhugamannahnefaleikum séu þeir sömu og í atvinnumannahnefaleikum. En vegna skorts á langtímarannsóknum á meiðslum sem hljótast í hnefaleikum leikur á því vafi að um sömu áverka/áhrif sé að ræða og þess vegna spyr minni hluti nefndarinnar: Hver á að njóta vafans?
    Það vegur líka þungt í afstöðu minni hlutans gegn lögleiðingu hnefaleika að hér er um árásaríþrótt að ræða. Markmið íþróttarinnar er að meiða andstæðinginn og því ofar sem höggin falla á líkamann því hærri stig gefur höggið, rothögg gefur líka stig í áhugamannahnefaleikum. Þannig má segja að meiðsl sem hljótast af iðkun hnefaleika séu ásetningur en ekki slys. Þar skilur á milli meiðsla sem hljótast af hnefaleikaiðkun og meiðsla sem hljótast af iðkun annarra íþrótta. Þegar leitað er á netinu að upplýsingum um skaðsemi áhugamannahnefaleika finnst nokkur fjöldi greina. Af 10 greinum sem Grétar Guðmundsson læknir, sem kom á fund heilbrigðisnefndar, fann á netinu var komist að þeirri niðurstöðu að um skaðlega íþrótt væri að ræða í sex en í fjórum var hinu gagnstæða haldið fram. Af þessum fjórum voru tvær eftir sama höfund.
    Varðandi þau rök að í áhugamannahnefaleikum gildi reglur sem draga úr skaðsemi íþróttarinnar telur minni hlutinn frumvarpið sem hér er til umræðu ekki leggja neitt til málanna sem tryggt geti að reglur íþróttarinnar séu haldnar við iðkun og æfingar. Það er vitað að tæki til iðkunar hnefaleika eru notuð á Íslandi og nokkur hópur manna stundar greinina þrátt fyrir gildandi bann. Þess er skemmst að minnast að í nýútkomnu skólablaði Menntaskólans í Reykjavík er viðtal við unga menn sem stunda hnefaleika í leynum. Í grein blaðsins kemur glögglega í ljós að æfingarnar eru iðkaðar meira af kappi en forsjá og eftirlitið með því að reglum sé framfylgt virðist ekki vera neitt.
    Minni hlutinn telur að verði slakað á í þessu sambandi og áhugamannahnefaleikar lögleiddir megi gera ráð fyrir að brautin fyrir atvinnumannahnefaleika sé þar með rudd og krafist verði lögleiðingar á þeim innan fárra ára. Það væri að mati minni hlutans stórslys.
    Minni hlutinn lýsir sig að öðru leyti fullkomlega sammála áliti meiri hluta heilbrigðisnefndar Alþingis sem sent hefur verið menntamálanefnd og fylgir nefndaráliti meiri hlutans
og vekur athygli á að einungis einn af níu nefndarmönnum heilbrigðisnefndar telur að lögleiða eigi áhugamannahnefaleika.

Alþingi, 9. maí 2000.



Kolbrún Halldórsdóttir,


frsm.


Sigríður Jóhannesdóttir.


Ólafur Örn Haraldsson.