Ferill 386. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1280  —  386. mál.





Nefndarálit



um frv. til l. um mat á umhverfisáhrifum.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingimar Sigurðsson og Kristínu L. Árnadóttur frá umhverfisráðuneyti, Stefán Thors, Ásdísi Hlökk Theódórsdóttur og Elínu Smáradóttur frá Skipulagsstofnun, Þorkel Helgason og Hákon Aðalsteinsson frá Orkustofnun, Kolfinnu Jóhannesdóttur frá Náttúruverndarráði, Jón Helgason og Tryggva Felixson frá Landvernd, Ketil Sigurjónsson frá Umhverfisverndarsamtökum Íslands, Sigurð Líndal prófessor, Árna Finnsson og Hilmar J. Malmquist frá Náttúruverndarsamtökum Íslands, Sigurð S. Snorrason frá Líffræðistofnun Háskóla Íslands, Eirík Bogason frá Samorku, Ragnheiði Ólafsdóttur frá Landsvirkjun, Guðjón Jónsson og Stefán G. Thors frá Verkfræðistofu VSÓ, fyrir umhverfisráð Samorku, Freystein Sigurðsson frá Hinu íslenska náttúrufræðifélagi, Jón Gunnar Ottósson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Þröst Eysteinsson frá Skógrækt ríkisins, Aðalheiði Jóhannsdóttur lögfræðing, Gunnlaugu Einarsdóttur og Þórólf Antonsson frá Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Hermann Sveinbjörnsson og Davíð Egilson frá Hollustuvernd ríkisins, Eddu Björnsdóttur og Sigurð Jónsson frá Landssamtökum skógareigenda, Árna Bragason frá Náttúruvernd ríkisins, Svein Runólfsson og Úlf Björnsson frá Landgræðslu ríkisins og Víglund Þorsteinsson frá Samtökum atvinnulífsins.
    Umsagnir bárust nefndinni frá Landmælingum Íslands, Vegagerðinni, Bændasamtökum Íslands, Aðalheiði Jóhannesdóttur, Umhverfisverndarsamtökum Íslands, Siglingastofnun Íslands, Landgræðslu ríkisins, Orkuveitu Húsavíkur, Hreini Hjartarsyni, Orkustofnun, Ferðamálaráði Íslands, Hitaveitu Suðurnesja, Samorku, Rafmagnsveitum ríkisins, Orkuveitu Reykjavíkur, Félagi íslenskra landslagsarkitekta, Náttúruverndarráði, Líffræðistofnun Háskóla Íslands, Landssamtökum skógareigenda, Skógrækt ríkisins, Arkitektafélagi Íslands, Hinu íslenska náttúrufræðifélagi, Landvernd, Náttúruverndarsamtökum Íslands, Landsvirkjun, Hita- og vatnsveitu Akureyrar, Hollustuvernd ríkisins, Flugmálastjórn, Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar, Skipulagsstofnun, Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Héraðsskógum, Skógræktarfélagi Íslands, Skjólskógum, Náttúruvernd ríkisins, Samtökum atvinnulífsins, Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, Eyþingi, Orkubúi Vestfjarða, Suðurlandsskógum, Samtökum sveitarfélaga í Norðurlandskjördæmi vestra, Náttúrufræðistofnun Íslands, Norðurlandsskógum, Félagi skógarbænda á Vesturlandi, Félagi skógarbænda á Suðurlandi, Skógrækt ríkisins, Félagi skógarbænda á Héraði, Verkfræðingafélagi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Metani hf. og Samtökum iðnaðarins.
    Með frumvarpinu er lögð til ný heildarlöggjöf um mat á umhverfisáhrifum. Jafnframt felst í frumvarpinu lögfesting á ákvæðum tilskipunar Evrópusambandsins 97/11. Tilskipunin breytir tilskipun ESB 85/337 en sú síðarnefnda var tekin upp í gildandi lög um mat á umhverfisáhrifum. Frumvarpið er samið af nefnd sem skipuð var af umhverfisráðherra í október 1997 til að endurskoða gildandi lög. Nefndin skilaði tillögu sinni í formi frumvarps til ráðherra í desember 1998. Í framhaldi af því voru gerðar breytingar á frumvarpinu í umhverfisráðuneytinu áður en það var lagt fram á Alþingi 22. febrúar sl.
    Í frumvarpinu eru nokkur nýmæli og breytingar frá gildandi lögum. Má nefna að lagt er til að matsferlið verði einfaldað frá því sem nú er með því að gera ráð fyrir að framkvæmdaraðili leggi fram tillögu að matsáætlun til Skipulagsstofnunar. Að því loknu geri framkvæmdaraðili matsskýrslu sem sé í samræmi við matsáætlun Skipulagsstofnunar. Að síðustu úrskurðar Skipulagsstofnun um mat á umhverfisáhrifum á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Þá er gert ráð fyrir aukinni aðkomu almennings að matsferlinu. Í 1. viðauka við frumvarpið er upptalning á framkvæmdum sem eru matsskyldar samkvæmt frumvarpinu, í 2. viðauka eru tilgreindar þær framkvæmdir sem eru tilkynningarskyldar til Skipulagsstofnunar skv. 6. gr. og í 3. viðauka eru tilgreind viðmið sem hafa skal til hliðsjónar við mat á því hvort framkvæmd sé matsskyld skv. 6. gr.
    Nefndin vill minna á að í tilskipun Evrópusambandsins 97/11 er byggt á þeim meginreglum sem mótast hafa á síðustu árum og áratugum jafnt á alþjóðavettvangi og í framkvæmd ríkja, þ.e. varúðarreglunni, mengunarbótareglunni, reglunni um verndarsjónarmið og reglunni um að mengun sé upprætt við upptök. Þessar meginreglur koma ekki fram í sjálfu frumvarpinu þar sem efni reglnanna og orðalag þeirra er um margt óljóst og enn í mótun. Nefndin leggur hins vegar áherslu á að fjallað er um meginreglur þessar í 73. gr. EES-samningsins og ber því að hafa þær í huga við framkvæmd laganna.
    Nefndinni barst mikill fjöldi athugasemda við frumvarpið og miklar umræður urðu um það.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali. Helstu breytingar eru eftirfarandi:
     1.      Nefndin leggur til breytingar á b-lið 1. gr. þannig að orðið „neikvætt“ falli brott og þess í stað kveði þessi liður markmiðsgreinar frumvarpsins á um að aukið verði samráð þeirra sem hafa hagsmuna að gæta eða annarra sem láta sig málið varða vegna framkvæmdar sem áhrif hefur á umhverfið. Að mati nefndarinnar er orðið „neikvætt“ of matskennt og ekki heppilegt í þessu samhengi.
     2.      Nefndin leggur til að gildissvið laganna nái einnig til lofthelgi landsins.
     3.      Nefndin leggur til nokkrar breytingar á skilgreiningum sem koma fram í 3. gr. Hugtakið „framkvæmd“ er skilgreint í c-lið. Leggur nefndin til að orðið „veruleg“ falli brott enda eru breytingar á framkvæmdum skv. 1. og 2. viðauka tilkynningarskyldar skv. 2. viðauka. Skilgreiningin verði þannig miðuð við hvers konar nýframkvæmd eða breytingu á eldri framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir og fellur undir lögin. Þá er lögð til breyting á skilgreiningu d-liðar á leyfi til framkvæmda en lagt er til að orðið „endanlegt“ falli brott. Lítur nefndin svo á að með leyfi til framkvæmda sé átt við nauðsynleg leyfi til framkvæmda og starfsemi sem þeim fylgir eftir að mat á umhverfisáhrifum hefur átt sér stað, svo sem framkvæmda- og byggingarleyfi samkvæmt skipulags- og byggingarlögum og starfsleyfi samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, virkjunarleyfi og önnur hliðstæð leyfi. Nefndin leggur einnig til breytingu á skilgreiningu f-liðar á matsáætlun en skilgreiningin er ekki í samræmi við 8. gr. frumvarpsins þar sem byggt er á því að framkvæmdaraðili leggi fram matsáætlun en ekki Skipulagsstofnun. Þá leggur nefndin til að orðinu „jarðmyndanir“ verði bætt inn í skilgreiningu á umhverfi í j-lið 3. gr. til samræmis við upptalningu í 2. mgr. 9. gr. Enn fremur leggur nefndin til að „umhverfisáhrif“ verði skilgreind sem „áhrif framkvæmdar og starfsemi sem henni fylgir á umhverfi“ en með „umhverfi“ er vísað til skilgreiningar í j-lið 3. gr. Þá leggur nefndin til að orðið „neikvæð“ í skilgreiningu l-liðar á umtalsverðum umhverfisáhrifum falli brott enda telur hún að það séu of matskennd og umdeilanlegt geti verið hvað felst í því. Jafnframt er lagt til að bætt verði inn í skilgreininguna að ekki sé hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum. Nefndin ræddi hvort jafnframt væri rétt að fella brott orðið óafturkræf. Nefndin lítur hins vegar svo á að með þeirri skilgreiningu sé ekki verið að undanskilja ýmsar framkvæmdir, svo sem raflínur og stíflur, sem með einhverjum hætti væri hægt að taka til baka en hafa umtalsverð áhrif á umhverfið á meðan framkvæmdirnar standa og meðan mannvirki þeim tengd eru ekki fjarlægð.
     4.      Nefndin leggur til breytingar á 4. gr. Á varnarsvæðum fer utanríkisráðherra með lögsögu samkvæmt lögum nr. 106/1954 og telur nefndin eðlilegt að það komi fram í frumvarpinu. Þá leggur nefndin til að hlutverk Skipulagsstofnunar samkvæmt frumvarpinu verði að veita leiðbeiningar en orðið „ráðgjöf“ verði fellt brott. Telur nefndin ekki rétt að stofnunin hafi með höndum ráðgjafarhlutverk. Einkaaðilar sinna því hlutverki og er það mat nefndarinnar að óeðlilegt sé að stofnunin standi í samkeppni á því sviði. Þá leggur nefndin til að niðurlagi 2. mgr. verði breytt þannig að fram komi að Skipulagsstofnun taki ákvörðun um hvort framkvæmd skv. 6. gr. skuli háð mati á umhverfisáhrifum en það er eitt af hlutverkum stofnunarinnar samkvæmt frumvarpinu og því rétt að það komi fram í 4. gr.
     5.      Nefndin leggur til breytingar á 2.–4. mgr. 5. gr. Lagt er til að ráðherra verði heimilt að ákveða að þegar fleiri en ein matsskyld framkvæmd er fyrirhuguð á sama svæði geti hann að höfðu samráði við framkvæmdaraðila ákveðið að umhverfisáhrif þeirra skuli metin sameiginlega. Leggur nefndin til að einnig verði leitað umsagnar Skipulagsstofnunar áður en ákvörðun ráðherra er tekin. Í 3. mgr. eru ráðherra veittar víðtækar heimildir til að ákveða að framkvæmd sé ekki háð mati á umhverfisáhrifum og til að ákveða að framkvæmd fari fram með öðrum hætti en lögin ákveða. Að mati nefndarinnar er hér um of opna heimild til handa ráðherra að ræða. Samkvæmt tilskipun ESB 85/337 er aðildarríkjunum heimilt í undantekningartilvikum að veita undanþágur frá matsskyldu. Leggur nefndin til að heimildin sé þrengd þannig að ráðherra sé í sérstökum undantekningartilvikum heimilt að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar að ákveða að tiltekin framkvæmd eða hluti hennar, sem varði almannaheill og/eða öryggi landsins, sé ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt frumvarpinu. Í slíkum tilvikum skal ráðherra ákveða hvaða gögnum skuli safnað um umhverfisáhrif hennar og hvaða aðgang almenningur skuli hafa að þeim. Ástæður undanþágunnar skulu kynntar framkvæmdaraðila, leyfisveitendum og almenningi. Ákvörðunin skal jafnframt tilkynnt sameiginlegu EES- nefndinni líkt og 3. mgr. 5. gr. kveður á um. Þá leggur nefndin til í nýrri málsgrein (sem verður 4. mgr.) að heimild ráðherra til að ákveða að mat á umhverfisáhrifum skv. 5. og 6. gr. fari fram með öðrum hætti en kveðið er á um í frumvarpinu verði þrengd verulega frá því sem lagt er til þannig að hún verði aðeins heimil í sérstökum undantekningartilvikum og að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar. Skal málsmeðferð slíks mats vera jafngild þeirri málsmeðferð sem mælt er fyrir um í IV. kafla frumvarpsins. Þá leggur nefndin til að 4. mgr. 5. gr. falli brott.
     6.      Nefndin leggur til breytingar á 6. gr. Annars vegar er um að ræða breytingu á 2. og 4. mgr. sem fela í sér að almenningi skuli veittar upplýsingar um hvort framkvæmd sem tilgreind er í 2. viðauka skuli fara í mat samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar. Lítur nefndin svo á að það sé stofnunarinnar að ákveða hvernig ákvörðunin skuli kynnt almenningi. Hún getur t.d. ákveðið að auglýsa hana opinberlega í fjölmiðlum, auglýst hana á heimasíðu sinni o.s.frv. Hins vegar leggur nefndin til breytingu á 3. mgr. til að fram komi með skýrari hætti hvernig Skipulagsstofnun á að bregðast við í framhaldi af eftirgrennslan sinni.
     7.      Þá leggur nefndin til breytingar á 7. gr. Á meðan frumvarpið var til meðferðar hjá nefndinni var kveðinn upp í Hæstarétti 13. apríl sl. dómur í málinu Stjörnugrís hf. gegn íslenska ríkinu, nr. 15/2000. Málið snerist um ákvörðun umhverfisráðherra um að meta bæri umhverfisáhrif svínabús á grundvelli 6. gr. gildandi laga. Niðurstaða Hæstaréttar var að heimild 6. gr. laganna gæti haft í för með sér umtalsverða röskun á eignarráðum og atvinnufrelsi þess sem ætti í hlut og svo víðtækt og óheft framsal löggjafans á valdi sínu til framkvæmdarvaldsins stríddi gegn 72. og 75. gr. stjórnarskrárinnar og væri ólögmætt. Var ákvörðun umhverfisráðherra því dæmd ógild. Með hliðsjón af dómi Hæstaréttar skoðaði nefndin sérstaklega ákvæði 7. gr. frumvarpsins. Heimild ráðherra er enn til staðar samkvæmt greininni. Hins vegar eru ákveðin viðmið sett fyrir ákvörðun ráðherra sem koma fram í 3. viðauka frumvarpsins. Að mati nefndarinnar takmarka viðmiðin mjög heimild ráðherra og setja henni skorður. Nefndin leggur til að í stað þess að ráðherra taki um það ákvörðun að einstök framkvæmd sé háð mati á umhverfisáhrifum sé honum heimilt að mæla svo fyrir í reglugerð og bæta framkvæmdum við 2. viðauka. Lítur hún svo á að þannig sé jafnræði betur tryggt og samræmi verði í því hvaða framkvæmdir teljist matsskyldar. Að auki leggur nefndin til breytingar til samræmis við önnur ákvæði frumvarpsins.
     8.      Nefndin leggur til orðalagsbreytingar og málfarslagfæringar á 8. gr. Í 1. mgr. 8. gr. kemur fram að þegar fyrirhuguð framkvæmd er háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum skuli framkvæmdaraðili gera tillögu að matsáætlun til Skipulagsstofnunar eins snemma á undirbúningsstigi og kostur er. Við umfjöllun málsins ræddi nefndin hvort ástæða væri til að kveða skýrar að orði um hvenær tillaga að matsáætlun ætti að koma fram til Skipulagsstofnunar. Telur nefndin að ekki sé þörf á því en hafa megi til hliðsjónar að tillöguna skuli leggja fram þegar meginþættir framkvæmdar eru orðnir það ljósir að hægt sé að fá heildarmynd af umhverfisáhrifum hennar.
     9.      Nefndin leggur til breytingar á 9. gr. Leggur hún til að við 1. mgr. bætist að framkvæmdaraðila sé heimilt að kynna drög að matsskýrslu og óska eftir athugasemdum við hana áður en hann leggur hana fyrir Skipulagsstofnun. Ákveðið samráð hefst við gerð matsáætlunar og telur nefndin að heppilegt sé að framkvæmdaraðila verði gert kleift að kynna drög að matsskýrslu og óska eftir athugasemdum við hana á þessu stigi málsins þannig að umsagnaraðilar og aðrir geti komið að athugasemdum sínum og framkvæmdaraðili eftir atvikum brugðist við þeim. Samráð á þessu stigi málsins getur verið til þess fallið að auka skilvirkni matsins, minnka kostnað og spara tíma við matsvinnuna. Rétt er að benda á að verði þessi heimild nýtt getur hún haft í för með sér kostnaðarauka fyrir stofnanir sem hvað oftast eru beðnar um umsagnir. Þá leggur nefndin til að 2. mgr. verði breytt þannig að uppsöfnuð og samvirk áhrif verði meðal þeirra sem tilgreind verða í matsskýrslu. Þá vill nefndin benda á að upptalning umhverfisliða í 2. mgr. er óþörf því að hún felst í skilgreiningu j-liðar 3. gr. á umhverfi. Leggur nefndin því til að í stað upptalningarinnar verði talað um umhverfi en með því er vísað til j-liðar 3. gr. Bent var á við umfjöllun um 9. gr., þar sem segir að ávallt skuli gera grein fyrir og bera saman helstu möguleika sem til greina koma við framkvæmd, að rétt væri að gera grein fyrir þeim möguleika að aðhafast ekkert, svokallaðri „núll“-lausn. Nefndin lítur svo á að í næstsíðasta málslið 2. mgr. 9. gr. felist sá möguleiki, þ.e. að einn þeirra möguleika sem koma til greina sé að aðhafast ekkert.
     10.      Nefndin leggur til nokkrar breytingar á 11. gr. Einn megintilgangurinn með breytingum á gildandi lögum er að gera matið skilvirkara og að það verði unnið í einu ferli. Meðal annars í þeim tilgangi voru lögð til ákvæði um gerð matsáætlunar en henni er ætlað að mynda ramma eða umgjörð fyrir nauðsynlega undirbúningsvinnu matsskýrslu og byggjast á þeim grunnrannsóknum og forathugunum sem gerðar hafa verið fyrir viðkomandi framkvæmd. Að mati nefndarinnar eru ákvæði um ítarlegra mat til þess fallin að lengja óþarflega þann tíma sem mat á umhverfisáhrifum tekur. Nefndin er á þeirri skoðun að tímabært sé orðið að ætla að framkvæmdaraðilar vandi til verka við gerð matsskýrslna. Bendir nefndin á að Skipulagsstofnun hefur skv. 1. mgr. 10. gr. heimild til að hafna matsskýrslu telji hún að skýrslan sé ekki nægilega vel unnin eða ekki í samræmi við matsáætlun. Í tillögu nefndarinnar felst að í úrskurði Skipulagsstofnunar verði tekin ákvörðun um hvort fallist sé á framkvæmd, með eða án skilyrða, eða lagst gegn framkvæmdinni. Leggur hún því til að b-liður 2. mgr. og 3. mgr. sem hafa að geyma ákvæði um ítarlegra mat falli brott. Aðrar breytingar sem nefndin leggur til á ákvæðinu eru ekki efnislegar heldur lúta að málfarsbreytingum auk þess sem lagt er til að 7. mgr. skiptist í tvær málsgreinar.
     11.      Nefndin leggur til orðalagsbreytingar á 15. gr. til samræmis við ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.
     12.      Að mati nefndarinnar vantar skýrt ákvæði um það í frumvarpið að óheimilt sé að gefa út leyfi fyrir framkvæmd skv. 6. gr. nema fyrir liggi úrskurður um mat á umhverfisáhrifum eða ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmd sé ekki matsskyld. Leggur hún til að slíku ákvæði verði bætt við 16. gr. þar sem fjallað er um leyfi til framkvæmda.
     13.      Í 19. gr. frumvarpsins er lögð til opin reglugerðarheimild fyrir ráðherra. Leggur nefndin til að heimildin verði gerð skýrari og talin upp helstu atriði sem fjalla skal um í reglugerð varðandi framkvæmd laganna. Nefndin vill þó taka fram að ekki er um tæmandi talningu að ræða. Þá leggur nefndin til nýtt ákvæði til bráðabirgða við lögin þar sem lagt er til að reglugerð samkvæmt lögunum skuli sett eins fljótt og kostur er og að hún skuli hafa öðlast gildi eigi síðar en 1. október á þessu ári.
     14.      Þá leggur nefndin til breytingu á ákvæði til bráðabirgða III. Við umfjöllun málsins var mikið rætt um hvort ástæða væri til að sameina og samræma ákvörðunarferli mats við leyfisveitingar fyrir einstakar framkvæmdir. Bent var á af ýmsum aðilum að það gæti verið vel til þess fallið að einfalda matsferlið til muna. Þá var ræddur sá möguleiki að skipulagsáætlanir kæmu í auknum mæli í stað mats á umhverfisáhrifum en þannig getur opnast leið til að meta umhverfisáhrif framkvæmda mörg ár fram í tímann. Einnig var fjallað um hvort heppilegt gæti verið að færa ábyrgð á mati til framkvæmdaraðila í ríkari mæli en lagt er til í frumvarpinu. Nefndin lítur svo á að hér sé um þætti að ræða sem mikilvægt sé að taka afstöðu til sem fyrst. Því leggur hún til að lögin verði endurskoðuð fyrir 1. janúar 2003.
     15.      Nefndin leggur til nokkrar breytingartillögur við 1. viðauka:
                  a.      Við 2. tölul. Nefndin leggur til að liðir i–iii verði sameinaðir í einn lið og að í stað „hráorku“ verði rætt um „varmaafl“ auk þess sem lagt er til, svo að samræmis sé gætt við önnur orkuver, að viðmið vegna jarðvarmavirkjana verði hækkuð í 50 MW. Þá er lagt til að vinnsluholur og rannsóknarholur á háhitasvæðum verði færðar í i-lið c- liðar 2. viðauka.
                  b.      Við 8. tölul. Lagt er til að lagning járnbrauta um langar vegalengdir verði matsskyld en lagning um styttri vegalengdir falli undir 2. viðauka sem tilkynningarskyldar framkvæmdir.
                  c.      Við 10. tölul. Nefndin leggur til nákvæmara orðalag í ii-lið.
                  d.      Við 12. tölul. Við umfjöllun málsins var bent á að í 1. viðauka við tilskipun 97/11 eru ákveðin stærðarmörk á urðunarstöðum sem eru matsskyldir. Telur nefndin ekki ástæðu til að krefjast mats á öllum urðunarstöðum án tillits til stærðar eða aðstæðna. Nefndin leggur hins vegar til strangari stærðarmörk en tilskipunin, þ.e. að í 1. viðauka verði ákvæði sem skyldar í mat alla urðunarstaði þar sem meira en 500 tonn eru urðuð á ári en aðrir urðunarstaðir verði tilgreindir í 2. viðauka. Er lögð til breyting á b-lið 16. tölul. 2. viðauka til samræmis við það. Allir förgunarstaðir spilliefna og tengd starfsemi eru þó samkvæmt tillögu nefndarinnar án stærðarmarka í 1. viðauka.
                  e.      Við 16. tölul. Lagt er til að orðin „í viðskiptaskyni“ falli brott.
                  f.      Við 17. tölul. Í tilskipuninni er miðað við rúmmál vatns. Leggur nefndin til að því viðmiði verði bætt inn í frumvarpið til samræmis við tilskipunina þannig að einnig verði miðað við að rúmtak vatns sé meira en 10 milljónir m 3.
                  g.      Við 18. tölul. Bent var á að sú þrenging sem lögð er til væri erfið í framkvæmd þar sem dæmi eru um grannar langar leiðslur sem ólíklegt er að hafi umtalsverð umhverfisáhrif þar sem þær eru plægðar í jörðina. Leggur nefndin til að einnig verði miðað við að þvermál leiðslu sé 50 sm eða meira.
                  h.      Við 21. tölul. 1. viðauka og a-lið 2. tölul. 2. viðauka. Leggur nefndin til að efnistaka sem fellur undir stærðarmörk þau sem gefin eru í töluliðunum með vinnslutíma sem nær yfir tíu ár eða meira verði ekki matsskyld. Telur hún að það verði of íþyngjandi fyrir aðila sem stunda litla efnistöku á löngum tíma.
     16.      Nefndin leggur til nokkrar breytingar á 2. viðauka:
                  a.      Við 1. tölul. Nefndin leggur til hækkun á stærðarmörkum a- og d-liða og að auki að stærðarmörk við ruðning á náttúrulegum skógi verði felld brott svo að ruðningur verði alltaf tilkynningarskyldur. Þá leggur hún til að við f-lið bætist að stöðvar þar sem þauleldi alifugla og svína sem fer yfir ákveðin stærðarmörk verði tilkynningarskyldar.
                  b.      Við 2. tölul. Breytingar sem lagðar eru til á i-lið c-liðar (sem verður ii-liður) eru gerðar svo að borunarstaðir í næsta nágrenni við ölkeldur, laugar eða hveri verði einnig tilkynningarskyldir. Þá leggur nefndin til breytingar á stærðarmörkum iii-lið c-liðar (sem verður iv-liður) úr 5 milljónum m 3 í 2 milljónir m 3 í samræmi við auðlindalög. Nefndin leggur jafnframt til að í stað orðsins iðjuver í d-lið komi jarðvarmavirkjanir til samræmis við hugtakanotkun í frumvarpinu.
                  c.      Við 3. tölul. Nefndin leggur til að í stað orðsins hráorku í a-lið komi hráafl í samræmi við tillögu frá Samorku. Þá leggur nefndin til að sæstrengjum verði bætt við sem tilkynningarskyldri framkvæmd í b-lið. Einnig eru lagðar til breytingar á stærðarviðmiðum í h-lið þannig að í stað 500 kW komi 2 MW.
                  d.      Nefndin leggur til að við a-lið 4. tölul., f-lið 5. tölul., b- og c-lið 7. tölul. verði bætt stærðarmörkum í samræmi við reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.
                  e.      Við 10. tölul. Nefndin leggur til undanþágu í samræmi við ákvæði tilskipunar ESB 97/11.
                  f.      Við 11. tölul. Nefndin leggur til að snjóflóðavarnagarðar til varnar þéttbýli verði tilkynningarskyldir. Lítur hún svo á að ekki sé þörf á að tilkynna minni háttar garða til varnar einstökum húsum.
    Katrín Fjeldsted skrifar undir álitið með fyrirvara við ákvæði til bráðabirgða I. Kolbrún Halldórsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir skrifa undir álitið með fyrirvara við ákvæði 3. mgr. 5. gr., 7. mgr. 11. gr. og bráðabirgðaákvæði I og leggja til að nýjum tölulið verði bætt við 1. viðauka og að breyting verði gerð á orðalagi í d-lið 1. tölul. 2. viðauka.
    Össur Skarphéðinsson og Ísólfur Gylfi Pálmason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 8. maí 2000.



Ólafur Örn Haraldsson,


form., frsm.


Kristján Pálsson.


Kolbrún Halldórsdóttir,


með fyrirvara.



Katrín Fjeldsted,


með fyrirvara.


Þórunn Sveinbjarnardóttir,


með fyrirvara.


Ásta Möller.



Gunnar Birgisson.