Ferill 629. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1282  —  629. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á fjarskiptalögum, nr. 107/1999.

Frá 1. minni hluta samgöngunefndar.



    Í frumvarpinu er lagt til að fallið verði frá þeirri meginreglu sem er í gildandi fjarskiptalögum um að tilkynna þurfi í upphafi símtals að það sé tekið upp.
    Heildarlög um fjarskipti voru samþykkt rétt fyrir síðustu áramót. Í þeim var ákvæði sem kvað á um skilyrðislaust bann við upptöku símtala. Eftir frekari skoðun virðist ljóst að löggjafinn gekk of langt í lagasetningu sinni með því að setja skýlaust bann við upptöku, miðað við 5. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 97/66/EB frá 15. desember 1997 um úrvinnslu persónuupplýsinga og friðhelgi einkalífsins á sviði fjarskipta sem er fyrirmynd 3. mgr. 44. gr. núgildandi fjarskiptalaga.
    Það er mat flutningsmanna að í frumvarpinu sem nú liggur fyrir um að afnema 3. mgr. 44. gr. fjarskiptalaga sé að sama skapi gengið of langt til rýmkunar. Meginreglan í tilvitnaðri tilskipun nr. 97/66/EB, sem fjallar um persónuvernd á sviði fjarskipta, er tvímælalaust sú að óheimilt sé að hljóðrita símtal nema hinn aðili símtalsins samþykki upptökuna. Með því frumvarpi, sem liggur fyrir af hálfu meiri hluta samgöngunefndar, er verið að fella þessa meginreglu brott. Verði frumvarp meiri hluta samgöngunefndar samþykkt hefur það í för með sér að aðila símtals er heimilt að taka það upp án vitundar annarra aðila að því. Þetta er í andstöðu við löggjöf sem önnur ríki á EES-svæðinu hafa sett sér eða hyggjast setja sér.
    Hér er því lögð fram breytingartillaga við frumvarp meiri hluta samgöngunefndar sem felur í sér að heimilaðar verði eðlilegar undanþágur frá banni við hljóðritun símtala sem er sama leið og önnur lönd á EES-svæðinu hafa farið.
    Þau sjónarmið sem liggja að baki undanþágu frá banni við hljóðritun símtala eru einkum þörf samfélagsins á því að halda uppi allsherjarreglu og tryggja sönnun í tilteknum tilvikum. Þá er enn fremur hnykkt á mikilvægi fjölmiðla við að tryggja aðhald og upplýsingaöflun og gengið út frá því að viðmælendum fjölmiðlamanna megi vera ljóst að líkur standa til þess að símtalið sé tekið upp.
    Fyrsti minni hluti leggur því til að frumvarpsgreinin verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:



    Við 1. gr. Greinin orðist svo:
    3. mgr. 44. gr. laganna orðast svo:
    Sá aðili að símtali, sem vill hljóðrita símtalið, skal í upphafi þess tilkynna viðmælanda sínum um fyrirætlan sína. Slíkt á þó ekki við um hljóðritun:



Prentað upp.


     a.      í þágu lögmætra viðskiptahagsmuna til sönnunar á inntaki samningssambands eða ef ótvírætt má ætla að viðmælanda sé kunnugt eða megi vera kunnugt um hljóðritunina, t.d. vegna fréttaöflunar fjölmiðla,
     b.      af hálfu stjórnvalds, enda sé hún eðlilegur þáttur í starfsemi þess og nauðsynleg vegna almannahagsmuna eða allsherjarreglu og ótvírætt megi ætla að viðmælanda sé kunnugt um hljóðritunina,
     c.      sem er einstaklingi nauðsynleg til að verjast meiðandi hótunum eða áreitni, svo sem kynferðislegum.

Alþingi, 10. maí 2000.



Lúðvík Bergvinsson,


frsm.


Kristján L. Möller.