Ferill 250. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1327  —  250. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 60/1998, um loftferðir.

Frá minni hluta samgöngunefndar.



    Með frumvarpi þessu eru ýmsar gjaldtökuheimildir loftferðalaga færðar úr gjaldskrám í lög. Einnig er gert ráð fyrir því nýmæli að lagður verði skattur á innanlandsflug með upptöku sérstaks leiðarflugsgjalds til fjármögnunar flugleiðsöguþjónustu við flugrekendur.
    Rekstur innanlandsflugs er ekki með því móti að það geti staðið undir auknum sköttum, enda eru umsagnir þessara aðila allar á einn veg, nýja skattinum er mótmælt harðlega.
    Flugfélag Íslands, Íslandsflug og Samtök ferðaþjónustunnar mótmæla öll eindregið upptöku nýs skatts á flugrekendur í innanlandsflugi. Flugfélag Íslands segir m.a. í umsögn sinni: „Samkvæmt formúlu sem gilda á um þessi nýju gjöld þýðir það að greiða þarf t.d. 10,65 kr. fyrir hvern floginn kílómetra Fokker 50 flugvélar í innanlandsflugi. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að þessu nýja gjaldi sé ætlað að skila Flugmálastjórn um 30 millj. kr. viðbótartekjum í ár. Aðdragandi þessarar nýju gjaldtöku af innanlandsfluginu kom fram á fundi sem samgönguráðuneytið hélt 19. ágúst 1999 með fulltrúum sex íslenskra flugrekenda. Á þeim fundi kom m.a. fram að hér væri „aðeins um fyrsta stig slíkrar innheimtu“ að ræða. Á þeim fundi mótmæltu flugrekendur harðlega slíkum viðbótarálögum og vitnuðu í því sambandi til þeirrar staðreyndar að íslenskt innanlandsflug hefur um árabil verið rekið með töluverðu tapi.“
    Íslandsflug mótmælir upptöku leiðarflugsgjalds, og segir m.a. í umsögn sinni: „Rekstur innanlandsflugs hefur verið erfiður og þolir ekki frekari álögur.“
    Samtök ferðaþjónustunnar segja m.a. í umsögn sinni: „Samtökin mótmæla harðlega tillögu um að lögfesta álagningu flugleiðsögugjalds í innanlandsflugi sem í mörg ár hefur verið rekið með tapi eins og menn vita.“
    Fram kemur í umsögnum þessara aðila að skattheimta sem þessi mun auka enn frekar erfiðleika þeirra í innanlandsflugi. Gjaldið á að fjármagna flugleiðsöguþjónustu við flugrekendur og greiða allan kostnað Flugmálastjórnar af innanlandsflugi, en hann er nú áætlaður allt að 180 millj. kr. á ári.
    Minni hlutinn leggst alfarið gegn þessari auknu skattheimtu á innanlandsflug og flytur breytingartillögu um að hætt verði við hana. Mun minni hlutinn greiða atkvæði með einstökum greinum frumvarpsins sem eru til bóta en ekki greiða atkvæði með frumvarpinu í heild af fyrrgreindum ástæðum.

Alþingi, 9. maí 2000.



Kristján L. Möller,


frsm.


Lúðvík Bergvinsson.


Jón Bjarnason.