Ferill 652. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1407  —  652. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um afnám lagaákvæða um skattfrelsi forseta Íslands.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Garðar Garðarsson, formann Kjaradóms, Stefán Lárus Stefánsson forsetaritara, Árna Kolbeinsson frá fjármálaráðuneyti, Skarphéðin Berg Steinarsson frá forsætisráðuneyti, Sigurð Líndal lagaprófessor, Gísla Tryggvason frá Bandalagi háskólamanna, Ara Skúlason frá Alþýðusambandi Íslands, Ara Edwald frá Samtökum atvinnulífsins og Steinþór Haraldsson frá ríkisskattstjóra.
    Með frumvarpinu er lagt til að öll lagaákvæði sem fela í sér undanþágur fyrir forseta og maka hans frá greiðslu skatta verði afnumin.
    Nefndin tók til sérstakrar skoðunar hvaða áhrif sú ákvörðun að afnema skattfrelsi forseta Íslands hefði á störf Kjaradóms. Kom fram í máli Garðars Garðarssonar, formanns Kjaradóms, að við ákvörðun launa alþingismanna og ráðherra hefði verið horft til sambærilegra starfa á almennum vinnumarkaði og laun þeirra ákvörðuð út frá því. Í kjölfarið hefðu laun forseta verið ákveðin og fylgt þeirri hefð að hafa þau hæst þeirra launa sem eiga undir dóminn þrátt fyrir að forseti nyti skattfrelsis, með öðrum orðum að laun þeirra sem Kjaradómur úrskurðar um hafi ekki haft viðmiðun í launum forseta Íslands. Formaður Kjaradóms taldi enn fremur að í kjölfar samþykktar frumvarpsins mundi Kjaradómur koma saman og úrskurða um hækkun launa forseta Íslands með hliðsjón af breyttum forsendum. Um áhrif slíks úrskurðar sagði formaðurinn að þrýstingur mundi aukast á Kjaradóm um að úrskurða um hækkanir til annarra sem undir hann heyra. Taldi hann hins vegar að Kjaradómur hefði ekki tilefni til að úrskurða um hækkanir til annarra þrátt fyrir nýjan úrskurð um laun forseta Íslands. Meiri hlutinn tekur undir þetta mat formanns Kjaradóms.
    Í máli formanns Kjaradóms kom enn fremur fram að hann teldi æskilegt að dómurinn fengi betri leiðbeiningar um vilja Alþingis varðandi breytingar á launum forseta Íslands en væru í frumvarpinu eða greinargerð þess eða fram hefðu komið í máli í þingmanna við 1. umræðu um málið.
    Meiri hlutinn telur að Alþingi geti ekki gefið Kjaradómi svo nákvæma forskrift að niðurstöðu að stöðu hans sem gerðardóms verði raskað. Hins vegar telur meiri hlutinn að til viðmiðunar fyrir nýjan úrskurð sé í fyrsta lagi eðlilegt að miða við þrönga skilgreiningu á skattfrelsi forseta þannig að ekki sé þörf á að bæta rýrnun kjara vegna skatts á fjármagnstekjur eða aðrar tekjur en þeirra sem koma beint frá embættinu þótt eðlilegt sé að rýrnun kjara vegna tekjuskatts og útsvars á embættislaun sé bætt. Í öðru lagi telur meiri hlutinn að ekki sé sjálfgefið að kjararýrnun vegna óbeinna skatta sé bætt og er þar sérstaklega litið til virðisaukaskatts en hann er almennur skattur á alla neyslu. Meiri rök eru til að bæta kjararýrnun af öðrum óbeinum sköttum, svo sem tollum og vörugjaldi, þar sem sérstakir útgjaldaliðir sem í ýmsum tilvikum bera háa skatta verða að teljast óhjákvæmilegir fyrir forseta Íslands. Í þriðja lagi telur meiri hlutinn að Kjaradómur hljóti að skoða rækilega alla aðra þætti í kjörum forseta Íslands sem raskast við samþykkt þessa frumvarps og meta að hve miklu leyti sanngjarnt og eðlilegt er að taka tillit til þeirra í nýjum úrskurði.
    Meiri hlutinn leggur til að bráðabirgðaákvæði verði bætt við lög um laun forseta Íslands, nr. 10/1990. Er þar kveðið á um að skipa skuli nefnd sem hafi það verkefni að enduskoða þau lög og önnur lög sem áhrif hafa á störf forseta. Verði miðað við að unnt verði að koma á nýrri skipan í upphafi þess kjörtímabils sem hefst 2004. Markmið breytinganna er að undirstrika sérstöðu launaákvarðana fyrir forseta Íslands og að kjör hans skuli ekki vera viðmiðun fyrir aðra. Þá leggur meiri hlutinn til að hlunnindi forseta Íslands vegna embættisbústaðar og rekstrar hans, risnu og bifreiða eða önnur hlunnindi sem embættinu fylgja verði ekki talin til skattskyldra tekna. Ástæða þess er sú að hlunnindi þessi eru vandmetin og í eðli sínu embættiskvöð en nýtast mjög takmarkað þeim sem gegnir embætti forseta Íslands.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:



     1.      Við I. kafla bætist ný grein sem verði 2. gr., svohljóðandi:
              Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
             Forsætisráðherra skal skipa nefnd til að endurskoða lög þessi og önnur lög sem kunna að hafa áhrif á kjör forseta Íslands. Meðal annars skal nefndin fjalla um hvort ástæða sé til að breyta fyrirkomulagi á ákvörðun launa forseta Íslands þannig að annar aðili en Kjaradómur úrskurði um þau. Störf nefndarinnar skulu miðast við að nýtt fyrirkomulag geti eftir því sem við á tekið gildi eigi síðar en að loknu kjörtímabilinu 2000–2004, þ.e. 1. ágúst 2004.
     2.      Við II. kafla bætist ný grein sem verði 4. gr., svohljóðandi:
             6. tölul. 28. gr. laganna orðast svo: Hlunnindi forseta Íslands vegna embættisbústaðar og rekstrar hans, risnu og bifreiða eða önnur hlunnindi sem embættinu fylgja.

Alþingi, 13. maí 2000.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Jón Kristjánsson.



Gunnar Birgisson.


Arnbjörg Sveinsdóttir.


Sigríður A. Þórðardóttir.



Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.