Minning Björns Fr. Björnssonar

Mánudaginn 15. janúar 2001, kl. 13:35:24 (3544)

2001-01-15 13:35:24# 126. lþ. 55.1 fundur 235#B minnst látins fyrrverandi alþingismanns#, Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 126. lþ.

[13:35]

Forseti (Halldór Blöndal):

Björn Fr. Björnsson, fyrrverandi sýslumaður og alþingismaður, andaðist á Landspítalanum í Fossvogi fimmtudaginn 21. desember. Hann var níutíu og eins árs að aldri.

Björn Fr. Björnsson var fæddur í Reykjavík 18. september 1909. Foreldrar hans voru hjónin Björn Hieronymusson steinsmiður og Guðrún Helga Guðmundsdóttir húsmóðir. Hann lauk stúdentsprófi í Menntaskólanum í Reykjavík árið 1929 og lögfræðiprófi í Háskóla Íslands í febrúarmánuði 1934. Að prófi loknu gegndi hann ýmsum lögfræðistörfum, meðal annars setudómarastörfum. Hann var aðstoðarmaður lögreglustjórans á Akranesi í janúar til apríl 1935, settur sýslumaður í Rangárvallasýslu að því er dómsmál snerti átján daga síðsumars 1935 og settur sýslumaður í Árnessýslu 1. desember 1936 til 1. október 1937. Hinn 8. nóvember 1937 var hann settur sýslumaður í Rangárvallasýslu, skipaður í það embætti 8. apríl 1938 og gegndi því til 1. desember 1977.

Björn Fr. Björnsson var í kjöri fyrir Framsóknarflokkinn í Rangárvallasýslu við alþingiskosningarnar vorið 1942, hlaut kosningu og sat á sumarþinginu það ár. Hann var aftur kjörinn þingmaður Rangæinga vorið 1959 og sat sumarþingið. Haustið 1959 var hann kjörinn þingmaður Suðurlandskjördæmis og sat á þingi til 1974. Hann var varaþingmaður Rangæinga 1942--1959 og sat þá á Alþingi frá nóvember 1953 til apríl 1954 og frá febrúar til mars 1959. Hann sat á 19 þingum alls.

Björn Fr. Björnsson gegndi ýmsum trúnaðarstörfum auk þeirra sem hér hafa verið talin. Hann var formaður Taflfélags Reykjavíkur 1936, formaður skólanefndar Skógaskóla 1949--1977, stjórnarformaður Kaupfélags Rangæinga 1955--1978, formaður Sýslumannafélags Íslands 1970--1971 og Dómarafélags Íslands 1971--1972. Árið 1955 var hann fulltrúi Alþingis á stofnfundi Þingmannasambands Atlantshafsbandalagsins í París og tvisvar var hann á vegum Alþingis á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og tvisvar á þingi Evrópuráðs. Hann átti sæti í tryggingarmálanefnd 1957--1958, var kosinn 1966 í milliþinganefnd til þess að athuga lækkun kosningaaldurs, skipaður 1966 í endurskoðunarnefnd laga um dómaskipun og meðferð dómsmála og skipaður 1972 í nefnd til að endurskoða dómstólakerfi á héraðsdómsstigi.

Björn Fr. Björnsson átti sér mörg áhugamál um ævidagana. Á unglingsárum keppti hann með góðum árangri í knattspyrnu og skák. Hann var tónelskur, lék á hljóðfæri og stóð að stofnun tónlistarskóla í Rangárvallasýslu. Honum var umhugað um menntun í heimahéraði, átti mikinn þátt í stofnun Héraðsskólans í Skógum, hafði forustu um framkvæmdir þar og fylgdist alla tíð með skólastarfinu þar. Auk þess átti hann þátt í stofnun og eflingu byggðasafnsins í Skógum. Mörg voru þau framfaramál í Rangárvallasýslu og víðar um Suðurland sem hann átti hlut að. Hann naut vinsælda meðal sýslunga sinna, enda greiðvikinn og ráðhollur þeim sem til hans leituðu. Hann var röskleikamaður til verka og gegndi störfum sínum í héraði og á Alþingi af samviskusemi og trúmennsku.

Ég bið háttvirta alþingismenn að minnast Björns Fr. Björnssonar með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]