Afgreiðsla frumvarps um málefni öryrkja

Mánudaginn 15. janúar 2001, kl. 13:44:19 (3547)

2001-01-15 13:44:19# 126. lþ. 56.94 fundur 243#B afgreiðsla frumvarps um málefni öryrkja# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 126. lþ.

[13:44]

Ögmundur Jónasson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hér er sett á dagskrá stjfrv. sem er þannig vaxið að það stríðir gegn stjórnarskrá Íslands samkvæmt dómi sem kveðinn var upp í Hæstarétti. Allur framgangur þessa máls vekur spurningar sem Alþingi ber að taka til gaumgæfilegrar athugunar og ætti að verða þjóðinni allri til alvarlegrar umhugsunar.

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að mótmæla þeim vinnubrögðum sem viðhöfð eru við málsmeðferðina af hálfu ríkisstjórnarinnar gagnvart Alþingi. Ég lít svo á að þinginu sé sýnd vítaverð lítilsvirðing. Enginn deilir um að hér er um að ræða mál sem varðar þær grundvallarreglur sem lýðveldið er reist á. Í stað þess að lýsa því þegar í stað yfir að farið verði að stjórnarskrá og landslögum og efnt til samráðs við alla þingflokka um álitamál sem kunni að vera uppi hefur komið fram að þingmönnum hafi verið meinað að fá frv. í hendur þegar eftir því var leitað fyrir helgina. Stjórnarandstaðan varð sér engu að síður úti um frv. utan þingsins. Stjórnarmeirihlutinn í heilbr.- og trn. hugðist boða til undirbúnings á afgreiðslu málsins áður en það kæmi til umfjöllunar á Alþingi.

Allt ber að sama brunni. Menn ganga út frá því að niðurstaða löggjafarsamkundunnar verði sú sem ríkisstjórnin hefur mælt fyrir um, sem ríkisstjórnin hefur skipað. Sú niðurstaða var birt af hálfu Tryggingastofnunar í auglýsingu nú um helgina en þar segir hvernig staðið verði að málum þegar lögin hafi verið samþykkt, þá verði greiddar bætur allt að fjórum árum aftur í tímann. Hins vegar er augljóst að það ber að lágmarki að greiða sjö ár afturvirkt.

Nú er það eitt hvernig stjórnarmeirihlutinn lætur kúska sig hér á Alþingi. En af hálfu stjórnarandstöðunnar er þessum forkastanlegu vinnubrögðum harðlega mótmælt.