Meðferð opinberra mála

Mánudaginn 15. janúar 2001, kl. 14:16:00 (3559)

2001-01-15 14:16:00# 126. lþ. 57.1 fundur 367. mál: #A meðferð opinberra mála# (opinber rannsókn) frv., Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 126. lþ.

[14:16]

Forseti (Halldór Blöndal):

Ég vil að þessu gefna tilefni í fyrsta lagi segja að ef hv. þm. á mál á dagskrá og er ekki reiðubúinn að ræða það er mér mjög ljúft að taka það af dagskrá.

Ég vil jafnframt að það komi skýrt fram að fyrir helgi, ég man ekki á hvaða degi síðustu viku, átti ég samtal við forustumenn stjórnarandstöðunnar, einn úr hvorum flokki, tvo úr einum af tilviljum. Ég skýrði þeim frá því að gert væri ráð fyrir tveggja vikna hléi á þingstörfum eftir að umræðum lyki um almannatryggingar og spurði hvort þeir væru sammála því. Því var vel tekið af fulltrúum stjórnarandstöðunnar af þeim sökum að þingmenn hefðu búist við því að hafa þessa viku sem er nú að hefjast til funda í kjördæmum sínum. Það lá fyrir að þing yrði e.t.v. kallað saman fyrr en ella sem mundi raska starfsáætlun þingmanna í janúarmánuði. Það lá því fyrir að þetta yrði venjuleg vinnuvika því að að öðrum kosti voru ekki rök fyrir því að fresta þinghaldi þegar það mál hefur verið afgreitt sem var á dagskrá á síðasta fundi.

Ég vil í annan stað segja að á fundi með formönnum þingflokka í morgun gerði ég þeim grein fyrir því að ef afbrigði næðu ekki fram að ganga mundi ég boða til hins þriðja fundar og þar yrðu tekin á dagskrá þau stjfrv. sem hægt yrði að mæla fyrir og eftir atvikum mál þingmanna. Ég átti á hinn bóginn ekki kost á því að sitja fund þingmanna Samfylkingarinnar svo ég gat ekki komið þeim boðum þangað.