Meðferð opinberra mála

Mánudaginn 15. janúar 2001, kl. 14:45:37 (3574)

2001-01-15 14:45:37# 126. lþ. 57.1 fundur 367. mál: #A meðferð opinberra mála# (opinber rannsókn) frv., RG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 126. lþ.

[14:45]

Rannveig Guðmundsdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég harma það í hvaða farveg þessi umræða hefur farið. Þingflokksformenn hafa óskað eftir fundi og farið yfir það að það kom mörgum þingmönnum á óvart að sjá málin sín á dagskrá. Sumir eru tilbúnir að fara í umræðu um mál sín, aðrir ekki. Þetta snýst ekki um hvort þeir þekkja málin sín. Það er nú einu sinni svo að þegar menn eru með faglega framsögu í þingmáli þá hafa þeir með sér ýmis gögn. Þau eru þingmenn ekki með.

Ef við höldum þennan fund þingflokksformanna og forseta geta þeir þingmenn sem kjósa að taka mál sín fyrir í dag farið út á skrifstofur, sótt þau gögn sem þeir þurfa og við getum átt fund um það með forseta að einhver mál sem þingmenn kjósa að bíði fái að bíða. Um þetta snerist málið. Þetta var erindi okkar beggja þingflokksformannanna og það hefur fullkomlega verið snúið út úr því sem við höfum haft hér að segja. Ég ætla ekki að hafa orð um það meir en vek athygli forseta á því að ástæðulaust er að snupra stjórnarandstöðuna fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram. Þar hallar ekki á.

Ég tel að nú sé komið að því að fara yfir hvaða mál verða tekin til umræðu og hver fái að bíða. Ég mun kanna það hjá mínum þingmönnum og er þegar byrjuð á því, herra forseti.