Tóbaksvarnir

Mánudaginn 15. janúar 2001, kl. 15:23:44 (3580)

2001-01-15 15:23:44# 126. lþ. 57.2 fundur 345. mál: #A tóbaksvarnir# (markaðssetning, tóbaksmengun o.fl.) frv., MF
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 126. lþ.

[15:23]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég get að flestu leyti tekið undir mikinn fögnuð hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur með þetta frv. Þó vil ég spyrja hæstv. ráðherra um nokkur atriði.

Í 2. gr. þessa frv. er fjallað um munntóbak. Þar segir:

,,Með munntóbaki er í lögum þessum átt við allar vörur, unnar að öllu eða einhverju leyti úr tóbaki til töku í munn, að undanskildum þeim sem eru ætlaðar til reykinga.``

Ég tók það þannig að í þeim lögum sem voru samþykkt og eru gildandi um tóbaksvarnir hafi verið í gildi algjört bann við munntóbaki nema því grófa, a.m.k. bann við fínu munntóbaki sem var flutt inn um tíma og selt í Reykjavík og sjálfsagt á fleiri stöðum á landinu. Þó virðist neysla á því tóbaki hafa aukist gífurlega á undanförnum árum og ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig er háttað eftirliti með innflutningi eða á hvern hátt er reynt að koma í veg fyrir sölu á munntóbaki þar sem það er mjög útbreitt? Maður sér þetta nánast á öðrum hverjum unglingi í dag? Sérstaklega eru það drengir sem nota þetta munntóbak. Það er afar áberandi þegar þeir hafa stungið þessu upp í góminn. Er einhver möguleiki á að herða eftirlitið --- eða hvernig er eftirlitinu háttað? --- og herða þá refsingar eins og kveðið er á um í þessu frv. og taka á þessu smygli af mun meiri hörku en gert hefur verið?

Þá vil ég í öðru lagi spyrja hæstv. ráðherra um möguleikana á heimildum til þess að reykja inni á heilbrigðisstofnunum eða sjúkrahúsum. Í mörgum tilvikum er um að ræða einhverjar vistarverur sem eru illa loftræstar þar sem sjúklingar mega reykja en í mörgum tilvikum er nánast útilokað fyrir þá að finna þessum ávana sínum stað. Það tel ég vera slæmt þegar um sjúkling er að ræða og finnst eðlilegra að þeir fái aðstöðu sem væri vel loftræst til þess að reykja á meðan á sjúkradvöl þeirra stendur. Ég held að það sé heppilegra fyrir þann sem ætlar að hætta að reykja að vera við fulla heilsu þegar sú ákvörðun er tekin.

Eins er það varðandi dvalarheimili aldraðra. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra áðan að auðvitað væri öldruðum eða þeim sem væru á dvalarheimilum heimilt að reykja í sínum eigin vistarverum. Það er ekki þannig. Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra: Á hvaða dvalarheimilum, í hve mörgum tilvikum eru reykingar leyfðar í vistarverum þeirra sem þar dvelja? Oft eru fleiri en einn einstaklingur á herbergi og ekki eru aðstæður til reykinga, a.m.k. ekki vel loftræst aðstaða. Það er eins með það og sjúkrahúsin að ég tel óeðlilegt að banna vistmönnum á dvalarheimilum fyrir aldraða eða gera þeim illmögulegt að reykja ef viljinn er til staðar hjá einstaklingnum.

Þó að flest atriði í frv. séu til bóta og ég styðji ráðherra í að koma því í gegn þá get ég ekki stutt einn lið í 9. gr. Ég bið hv. þingmenn um að íhuga mjög vel áður en slíkt ákvæði er sett í lög, sérstaklega þá sem hafa farið í heimsóknir fangelsi landsins og skoðað þá klefa sem fangarnir eru í eða herbergi þeirra, vistarverur þeirra, sem eru yfirleitt litlar og þröngar, illa loftræstar og litlir möguleikar til að bæta loftræstingu. Engu að síður segir í b-lið 9. gr.:

,,Við 1. mgr. bætist nýr töluliður sem orðast svo: Í fangelsum. Leyfa má þó reykingar í fangaklefum.``

Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð með frv. er þetta ákvæði sett inn í samráði við fangelsisyfirvöld, Fangelsismálastofnun. Ég verð að segja að ég er mjög hissa á því að fangelsisyfirvöld skuli, vitandi hvert ástandið er í fangelsum landsins og þeim klefum sem fangarnir dvelja í á meðan á vistun þeirra stendur, beina reykingunum inn á svefnstað þeirra. Ég tala nú ekki um þegar um einangrun eða gæsluvarðhald er að ræða, að eini möguleikinn fyrir fanga til að reykja sé í litlum illa loftræstum klefa. Þetta ákvæði getur ekki og má ekki undir neinum kringumstæðum fara í gegn á hv. Alþingi. Menn verða að velta því fyrir sér hvaða aðstæður verið er að bjóða upp á. Fyrir þann sem sviptur hefur verið frelsi, oft og tíðum vegna eiturlyfjaneyslu, og er settur í fangelsi sem er verið að reyna að halda án eiturlyfja þó að það gangi misjafnlega, þá er það auðvitað gífurleg aukning á refsingu að taka reykingarnar af líka. Það verður þá að gerast með námskeiðum og kostnaði við nikótínlyf og allri þeirri aðstoð sem möguleg er. Ef banna á reykingar í öllu rými fangelsa, t.d. þar sem verið er við tómstundastörf eða þar sem sjónvarp er þá er það út af fyrir sig allt í lagi, en það yrði þá að búa út herbergi með góðri loftræstingu þar sem viðkomandi einstaklingar gætu reykt, en ekki að beina reykingunum inn í klefana. Ég skil að það þetta ákvæði sé komið inn þarna fyrst fangelsismálayfirvöld hafa samþykkt það, þar sem það er gert í samráði við þau, en ég verð að segja að ég skil ekki þá hugsun sem liggur að baki hjá fangelsisyfirvöldum sem þekkja afar vel þær aðstæður sem fangar búa við.

Að lokum vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort nokkuð sé í bígerð að taka þátt í kostnaði við eða niðurgreiða niktótínlyf. Þau eru öll mjög dýr, líka þau sem eru lyfseðilsskyld eins og töflur sem farið er að gefa eftir lyfseðli og eru að mér skilst gamalt geðlyf sem á að draga úr löngun til þess að reykja, eða a.m.k. hjálpa einstaklingi til þess að hafa ekki þá hugsun að hann langi í sígarettu, ef ég skil verkun þessa lyfs rétt. Mér skilst að hver skammtur af þessu lyfi kosti yfir 6.000 kr. Það er dýrt að reykja en það er líka kostnaður við niktótínlyf, sem oft eru notuð fleiri en eitt saman þegar fólk tekur þá ákvörðun að hætta að reykja. Ég tala af nokkurri reynslu og þessi lyf eru mjög dýr. Hafa heilbrigðisyfirvöld nokkuð velt því fyrir sér að niðurgreiða þau tímabundið til þess að hvetja fólk til að taka þá ákvörðun að hætta að reykja, því að markmið frumvarpsins og gildandi laga er að draga úr reykingum?

Líkt og hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir er ég sannfærð um að núgildandi löggjöf hefur dregið úr reykingum. Það sem hér er verið að leggja til mun hjálpa til við að ná því markmiði sem sett var fram í heilbrigðisáætlun. Náttúrlega ættu sem allra fæstir að að reykja. En markmið heilbrigðisáætlunar eru þó mun skynsamlegri en þegar menn setja sér markmið eins og ,,Ísland án eiturlyfja`` sem er illframkvæmanlegt. Hér hafa verið sett fram framkvæmanleg markmið og þetta frv. er til þess að stuðla að því að ná því markmiði og ég styð það, en þó með þeirri breytingu að inn komi ákvæði þess efnis að á dvalarheimilum fyrir aldraða væru vel útbúnar stofur, vel loftræstar, að sett verði inn ákvæði þess efnis að loftræsting skuli vera fullnægjandi, nákvæmlega eins og gert er í 8. gr. frumvarpsins þar sem talað er um að heimila megi reykingar á veitinga- og skemmtistöðum á afmörkuðum svæðum, en tryggja skuli fullnægjandi loftræstingu. Það er þannig að þetta ákvæði ætti auðvitað að eiga alls staðar við þar sem um er að ræða rými þar sem reykingar eru leyfðar, á dvalarheimilum aldraðra eða hjúkrunarheimilum, sjúkrahúsum eða í fangelsum, þ.e. hvar sem um er að ræða undanþágur. Því ætti að vera til ákvæði þess efnis að það bæri að tryggja fullnægjandi loftræstingu. En því miður er það ekki svo. Ég hef komið inn í nokkra þessa afkima þar sem reykingar eru leyfðar, t.d. á dvalarheimilum fyrir aldraða og það er okkur til háborinnar skammar hvernig búið er að mörgum þeim öldruðu einstaklingum sem vilja gjarnan fá að reykja þann tíma sem þeir eiga eftir. Og aðstaðan hér í þinginu sem útbúin er fyrir þingmenn er kannski að sumu leyti svipuð því og boðið er upp á í ýmsum stofnunum, ég tala nú ekki um hversu léleg loftræstingin er.

En umfram allt er b-liður 9. gr., þar sem banna á að reykja í fangelsum nema í fangaklefum, þar er ákvæði sem Alþingi getur ekki að óbreyttum aðbúnaði í fangaklefum samþykkt.