Tóbaksvarnir

Mánudaginn 15. janúar 2001, kl. 15:34:52 (3581)

2001-01-15 15:34:52# 126. lþ. 57.2 fundur 345. mál: #A tóbaksvarnir# (markaðssetning, tóbaksmengun o.fl.) frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 126. lþ.

[15:34]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. heilbrrh. fyrir það frv. sem hér er lagt fram og þann anda sem er í frv.

Ég tek undir orð hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur um að ég hefði verið betur undirbúin undir umræðuna ef ég hefði vitað að hún yrði á dagskrá í dag, en það mun ekki standa á mér eða okkur í heilbr.- og trn. að fara vel yfir málið og ég vona að þær þáltill. sem liggja fyrir heilbr.- og trn. sem snerta tóbakssölu og tóbaksvarnir komi til umræðu og afgreiðslu í nefndinni á sama tíma og verði afgreiddar samhliða.

Fyrir nefndinni liggur þáltill. um tóbaksverð og vísitölu og einnig till. til þál. um að smásala á tóbaki verði háð leyfisveitingu. En nú er leyfisveitingin komin inn í þetta frv. og það gleður mig alveg sérstaklega.

Hæstv. forseti. Mig langar til að fara hér nokkrum orðum um frv. og fyrstu viðbrögð við því. Breytingin á 1. gr. þar sem ákvæðið sem snýr að þeim sem bera ábyrgð á barni, að þeir skuli stuðla að því að börn séu í reyklausu umhverfi, er mjög til bóta og ánægjuleg og gerir alla ábyrga, ekki bara þá fullorðnu sem annast barnið, heldur alla aðra í umhverfinu sem koma að uppeldi og umönnun barna. Ég vil vísa til þess að þetta snýr ekki síður að heilsugæslunni og heilsugæslustörfum í landinu, að taka upp tóbaksvarnir í mæðravernd sérstaklega og ungbarnavernd, og stuðla að reykleysi foreldra og vinna að því að hjálpa þeim sem reykja til að hætta því og gera þeim ljóst hvaða skaða reykingar geta valdið börnum.

Ég tek einnig eftir því að í 2. gr. frv. er búið að fella út ákvæðið um leikföngin eða varning, eins og það er nefnt í núgildandi lögum:

,,Lög þessi taka einnig til varnings sem ætlaður er til neyslu með sama hætti og tóbak þótt hann innihaldi ekki tóbak, ...`` Hér voru á boðstólum lakkríspípur og sælgæti, sígarettur og annað slíkt. Ég mundi vilja óska eftir því að þetta yrði tekið inn aftur, því það er með ólíkindum hvað tóbaksframleiðendur geta seilst langt og eru með ísmeygilegan áróður til að koma vöru sinni á framfæri. Því yngri sem börnin eru, því eðlilegra sem þeim þykir að handfjatla leiksígarettur og pípur og hvað það nú er sem er eftirlíking af tóbaki, vörur sem eru merktar tóbaksframleiðendum, því líklegri eru börnin til að ánetjast tóbaki. Og tóbaksframleiðendur hafa meira að segja gengið svo langt, svo ég taki eitt dæmi, að gefa skó, ungbarnaskó, sérmerkta ákveðnu tóbaksfyrirtæki á því svæði þar sem skór voru lúxusvara. Þetta gera þeir til að skapa jákvætt hugarfar og þess vegna skulum við reyna að beita þeim mótrökum og öllum þeim ráðum sem við höfum til að berjast á móti. Þetta er eitt af þeim og þess vegna vona ég að við getum náð þessu ákvæði inn aftur.

Ég tek einnig undir í 2. gr. hvað varðar eftirlit með dreifingu á munntóbaki, því nú á það ekki að vera í sölu í verslunum. Fínkorna neftóbak, eða ,,snuff``, er ótrúlega algengt og mikið notað, sérstaklega af ungum mönnum. Ég er sannfærð um að fara þarf í sérstakt átak til að koma í veg fyrir innflutning á þessum efnum þannig að ef fínkorna tóbak er selt í verslunum og upp kemst sé gripið til viðurlaga og sekta, því þetta er efni sem hefur mjög hátt nikótíninnihald og er mjög vanabindandi. Það er oft fyrsti vísir þess að verða stórreykingamaður þegar ungir karlmenn byrja á því að nota þessa tegund tóbaks, snuffið, sem þeim finnst trúlega mörgum hverjum bara allt í lagi, þetta sé ekki hættulegt.

Tóbaksvarnalög eru í eðli sínu í anda forræðishyggju ef svo má segja. Við erum að verja börn og ungmenni, við erum að vernda heilsu fólks. Þetta orð, forræðishyggja, hefur oft verið notað til að reyna að draga úr áhrifum og að ákvæði sem hafa verið sett inn í tóbaksvarnalög megi ekki vera með of mikla forræðishyggju. En ég vil bara ítreka það að andi slíkra laga er svona, hvað sem mönnum finnst um það. Við þurfum að setja þau lög til að vernda heilsu fólks. Í þessu frv. er ekkert sem gengur of langt. Frekar hefði ég viljað sjá gengið aðeins lengra og aðeins snarpara orðalag.

Ég gleðst sérstaklega yfir því að sjá það komið inn í 7. gr. að gert sé ráð fyrir því að fólk yngra en 18 ára megi ekki selja tóbak. Þetta hefur verið, er og mun verða vandamál áfram, sérstaklega núna þar sem kaupmaðurinn á horninu sést ekki orðið, þar sem fullorðið fólk afgreiddi áður. Í verslunum eru í dag, sérstaklega í stórmörkuðunum, börn og unglingar, mörg hver undir 18 ára aldri, að afgreiða. Ég tel mig vita að beiðnir um undanþágur frá þessari reglu eigi eftir að koma fram, en það verður þá að koma fram beiðni og það verður að vera undir eftirliti. Til að hægt sé að svipta einstaklinga sem reka verslanir og/eða selja tóbak og fara ekki eftir reglunum því leyfi verður auðvitað að vera til sérstakt leyfi og á heilbrigðisnefnd viðkomandi eftirlitssvæðis að veita það leyfi. Þetta er mjög ánægjulegt og ég trúi ekki öðru en að það verði niðurstaða umfjöllunar um frv. að þessu verði komið á. Ég man nú ekki hversu oft ég er búin að leggja fram þáltill. um þetta efni og því gleðst ég alveg sérstaklega að sjá það hér.

En samfara þessu verður auðvitað að gefa heilbrigðisnefndunum möguleika á að vera virkt eftirlit. Heilbrigðiseftirlitið í dag á í fullu fangi með að ráða við þau verkefni sem það hefur. Ef þetta á að vera virkt eftirlit, ekki bara stafur á bók eða að farið sé fram hjá þessu, þá verður líka að hugsa málið til enda og setja fjármagn til eftirlitsins, ekki bara út af þessu, heldur gera það mögulegt að hafa þetta virkt eftirlit. Lög sem eru þannig að ekki sé hægt að fara eftir þeim eða mjög auðvelt að fara fram hjá eru ekki góð.

Í 8. gr. hefði ég viljað sjá, eins og ég sagði áðan, aðeins snarpar tekið á því sem tilgreint er í 1. mgr., að tóbaksreykingar eru óheimilar í þjónusturými stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka. Ég hefði viljað sjá það á þá leið að tóbaksreykingar væru hreinlega bannaðar í öllu því rými sem almenningur hefði aðgang að í þessum stofnunum. Þegar komið er að veitinga- og skemmtistöðunum, þá á að leyfa reykingar á afmörkuðum svæðum. Þarna mætti flokka skemmtistaðina eða veitingastaðina, t.d. að á þeim stöðum þar sem matur væri borinn fram væri reykt í sérstökum herbergjum og afmarka þetta enn frekar, en ég tek auðvitað undir að tryggja þarf fullnægjandi loftræstingu o.s.frv.

[15:45]

Mig langar að minnast á það sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir talaði um, þ.e. reykingar í fangelsum. Í dag er þetta mikið vandamál og ekki hægt að segja að réttindi þeirra sem ekki reykja séu virt. Það er ekki hægt að segja þeir fái að vera í reyklausu lofti. Þarna þarf út frá heilsufarslegum sjónarmiðum að ná samstöðu um sérstök reykherbergi þannig að svæði þar sem fangar sitja saman og vinna saman séu reyklaus. Það er óþolandi að fangaklefarnir séu reykklefar. Loftræstingin í þessum klefum er þannig að loftið dreifist út um allt og fer inn í klefa annarra, einnig til þeirra sem ekki reykja. Það þarf að skoða vandlega reglur um reykingar í fangelsum.

Mörg dæmi eru um vanlíðan þeirra sem eru reyklausir og hafa verið viðkvæmir fyrir reyk. Jafnframt er erfitt fyrir fanga að hætta að reykja og í fangeslum þyrfti að koma á alveg sérstöku átaki og hjálp til fanga, ekki bara varðandi afvötnun og vímuefnameðferð heldur og átak til að hjálpa þeim við að hætta að reykja, því allt helst þetta í hendur, óregla og fíkn í vín og tóbak.

Í 11. gr. er fjallað um rétt reyklausra til að vera í reyklausu andrúmslofti á vinnustað. Staðreyndin er að þar sem teknar hafa verið upp ákveðnar reglur um reykingar á vinnustöðum, t.d. bann við að reykja í vinnutímanum, hvort sem það var fyrir gildistöku núgildandi laga eða eftir þau, hefur það hjálpar reykingamönnum til að hætta, a.m.k. til að minnka reykingar. Þrátt fyrir óánægju hjá reykingamönnum í byrjun þá þekki ég ekki vinnustað þar sem starfsfólk er ekki ánægt þegar frá líður, ekki síður þeir sem hafa reykt.

Varðandi 13. gr. þá er til gott fræðsluefni um tóbaksvarnir fyrir 6. bekk grunnskóla og upp úr. Því miður hefur það ekki verið nýtt sem skyldi í öllum skólum. Ég fagna því ef taka á ákveðnar á þessu og koma þessari fræðslu markvissar til skólanna en gert er í dag. Það dugir ekki að útbúa gott kennsluefni, aðgengilegt og skemmtilegt, ef það er ekki notað. Ekki veitir af þessari hækkun frá 0,7% upp í 0,9% til tóbaksvarna. Hugsanlegt mætti líta til þess, þó ég setji ekki samasemmerki þar á milli, hvort það borgi sig ekki fyrir þjóðfélagið til lengri tíma að niðurgreiða nikótínlyf. Stöðugt eru að koma fram ný lyf sem fólk hefur náð betri árangri með en áður til að hætta að reykja. Mér finnst það vera mál sem skoða ætti mjög vandlega.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri að sinni. Ég vona að frv. nái fram að ganga hið fyrsta og verði afgreitt með öðrum málum sem liggja fyrir heilbr.- og trn.