Tóbaksvarnir

Mánudaginn 15. janúar 2001, kl. 15:50:34 (3582)

2001-01-15 15:50:34# 126. lþ. 57.2 fundur 345. mál: #A tóbaksvarnir# (markaðssetning, tóbaksmengun o.fl.) frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 126. lþ.

[15:50]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég efast ekki um einlægan áhuga og vilja hæstv. ráðherra, flm. þessa frv., og raunar annarra hv. þm. sem hér hafa lagt orð í belg, til að draga úr reykingum og koma í veg fyrir að börn og unglingar ánetjist þeim. Hins vegar hef ég ákveðnar efasemdir um ýmsa þætti þessa frv. Ég velti því fyrir mér hversu langt er skynsamlegt að ganga til þess að bregðast við vandamálum af þessum toga.

Er það ævinlega rétt nálgun að leggja bann við einhverju, jafnvel þó allir viti að slík boð og bönn muni ekki ná fram að ganga og menn geti nánast gefið sér að gengið verði á svig við þau? Það finnst mér yfirleitt vondar reglur og afspyrnuvond lagasetning þegar um það er að ræða. Boð og bönn og viðmiðunarreglur eru ekki góðar ef menn gefa sér fyrir fram að ekki verði hægt að fara eftir þeim. Þessum hugmyndum er alloft velt upp í almennri umræðu um hámarkshraða á vegum úti og ýmsu öðru.

Ég vil líka vara við því viðhorfi sem mér finnst ég heyra af umræðum ýmissa þingmanna, að þau 20 eða 25% þjóðarinnar sem hafa því miður ánetjast þeirri fíkn sem tóbaksnotkun er séu annars flokks borgarar og skuli alls ekki sjást og helst vera sem fjærst. Ef fordæmisgildið sem reykingamenn sýna yngri kynslóðum með því að reykja hér og þar er það sem ber að forðast, sé það rauði þráðurinn í þessu frv., er þá mjög skynsamlegt að skipa þessum tugþúsundum Íslendinga á götur út? Er mjög skynsamlegt gagnvart yngri kynslóðinni að þeir starfsmenn Alþingis sem hér reykja geri það fyrir framan húsið? Er það yfirleitt skynsamlegt að starfsfólki vítt og breitt í samfélaginu sé skákað út í dyr og undir gafla o.s.frv.? Við þekkjum til að mynda að í nágrannahúsi, þar sem Landssíminn sálugi hafði aðsetur áður en hann varð hlutafélag, stóðu yfirleitt fimm eða tíu manns reykjandi í anddyrum.

Hér er vísað til reynslu annarra þjóða, t.d. Bandaríkjamanna í þessu sambandi, af mjög ströngum og hertum reglum um reykingar innan húss. Þeir sem þar hafa farið um vita að þar er fólk í flokkum á gangstéttum fyrir utan stórhýsin, til að mynda á Manhattan og reykir þar. Er það sú mynd sem við viljum sýna? Ég hef talsverðar efasemdir um það. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að það eigi í fyrsta lagi, sem ég tek alveg hjartanlega undir, að tryggja rétt þeirra sem reykja ekki til þess að geta andað að sér hreinu og ómenguðu lofti. Ég er hins vegar einnig þeirrar skoðunar að því fólki sem enn er undir þetta böl sett eigi að skapa aðstöðu til þess innan húss í sérmerktum herbergjum að iðka þessa fíkn sína. Ég er t.d. undrandi yfir þeirri stífni sem hefur ráðið ríkjum á sjúkrahúsum þar sem mismunandi veikt fólk sem hefur átt í erfiðleikum að stríða heilsu sinnar vegna, ekki endilega vegna reykinga heldur af ýmsum öðrum ástæðum, stundum af sálrænum ástæðum. Þar er aukið á kvöl þess og erfiðleika með því að banna því að reykja. Ég þekki nokkur dæmi þess. Ég hef ekki séð sérstaka ástæðu til þess í sumum tilfellum og þar hefur því ekki verið til að dreifa að fólkið hafi sérstaklega verið að káfa upp á rétt annarra.

Ég get ekki látið hjá líða, þar sem menn þekkja auðvitað sitt nánasta umhverfi hvað best, af því ég gat um það hér áðan að þetta hús er þannig hannað að litlir möguleikar eru á því að skapa hér horn eða holu fyrir þá sem reykja. Ég hirði ekki um að nefna fjölda þingmanna sem undir þetta böl eru enn þá settir. Hins vegar eru fleiri sem starfa í þessu húsi en þingmenn. Hér er allnokkur hópur og hann er hér í kyndiklefa í kjallara.

Áður fyrr var það þannig að menn reyktu undir húsveggjum. Mér finnst enginn bragur á þessu og slæmt að menn horfist ekki í augu við veruleikann. 25% þjóðarinnar reykja, þó sem betur fer fækki í þeim hópi. Menn verða að horfa til þessa hóps með ákveðnum hætti. Ég vona að hæstv. heilbrrh. leggi við hlustir. Ég hef vísu átt orðastað við hana undir öðrum kringumstæðum um þessi atriði og hún þekkir viðhorf mín í þessum efnum.

Þetta frv. er einfaldlega þannig að reykingar eru bannaðar nema þar sem þær eru leyfðar. Það er auðvitað ákveðin nálgun við þetta viðfangsefni.

Hins vegar eru nokkur atriði sem mér er ekki ljóst hvernig eru hugsuð og hvernig verða í framkvæmd. Í 11. gr. þessa frv. er til að mynda gerð breyting á 12. gr. laganna þar sem segir:

,,... skal hver maður eiga rétt á reyklausu andrúmslofti innan dyra á vinnustað sínum og vinnuveitandi sjá til þess að hann njóti þess réttar.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skal setja reglur í samráði við félagsmálaráðherra og samgönguráðherra um takmarkanir á reykingum á vinnustöðum,`` o.s.frv.

Ég vil bara spyrja: Hvað er átt við með þessu? Hvaða breytingar er verið að gera í þessa veru á vinnustöðum? Túlkunin hefur verið sú eins og við þekkjum að í almenningi og þar sem þjónusta er veitt gestum og gangandi hafa verið takmarkanir á reykingum og þær meira og minna bannaðar en í prívatskrifstofum hefur því ekki verið að heilsa. Er átt við að í lokuðum rýmum, á prívatskrifstofum, verði slíkt bann sett? (Gripið fram í: Nei.) Ha? (Gripið fram í: Ef enginn kemur í heimsókn.) Ef enginn kemur í heimsókn? Það eru örugglega fáir kontórar þannig.

Breytingin þýðir í raun að sett er allsherjarbann á reykingar á vinnustöðum. Ég hef miklar efasemdir um þetta. Ég spyr: Halda hv. þm. að ákvæði af þessum toga haldi? Hvað haldið þið að verði um þessi tugþúsund Íslendinga sem reykja? Finnst mönnum góður bragur á að senda þá undir húsgafla? Við þekkjum að í gildandi lögum er reykingabann í framhaldsskólum, bæði innan húss og á lóðum framhaldsskólanna. Hafa hv. þm. farið í marga framhaldsskóla, farið á framhaldsskólalóðirnar og fylgst með því hvernig þeir húka þar saman, kennarar og nemendur, á girðingum viðkomandi stofnana? Er það sú mynd sem við viljum draga upp? Ég hef miklar efasemdir um það. Er það fordæmið sem við viljum sýna?

Af því að menn ræða mikið um fordæmið, sem sannarlega er mjög mikilvægt, þá skulum við heldur ekki gleyma því sem hefur fylgt manninum frá örófi alda, að forboðnir ávextir bragðast best. Ætli menn ekki að horfast í augu við þetta vandamál með myljandi áróðri og fyrirbyggjandi aðgerðum heldur að ýta þessu í skúmaskotin þá hef ég áhyggjur af árangrinum. Við höfum svo sannarlega náð árangri í þessari baráttu þó að hægt fari. Vafalaust rennur einhvern tíma upp sú stund hjá komandi kynslóðum að þetta verði ekki það heilbrigðisvandamál eða félagslega vandamál sem það er svo sannarlega í dag.

[16:00]

En ég hef miklar efasemdir að við ráðum á því bót og niðurlögum með beinum boðum og bönnum. Þess vegna tek ég mjög heils hugar undir það ákvæði sem er einnig að finna í frv. þar sem vikið er að auknu fjármagni til forvarnastarfsemi. Ég sakna þess hins vegar á sama hátt í frv. að ég hefði viljað fá almenna markmiðssetningu í þá veru að lækka verð á hjálparmeðulum þeirra sem eru að reyna að hætta að reykja. Ég gat því miður ekki farið á spennandi fund sem var boðaður, ég held í síðasta mánuði, desembermánuði, þar sem hjúkrunarfræðingar sem hafa sérhæft sig í þessari baráttu voru einmitt að ræða þennan þátt málsins, þ.e. kostnaðinn við hjálparmeðul, nikótíntyggjóið, plásturinn og hvað þetta heitir nú allt. Slík fjárútlát hafa auðvitað líka talsvert að segja í þessum áróðri þegar sú gulrót er kannski ekki jafnaugljós og ætti að vera að menn spari á því peninga að draga úr reykingum og jafnvel hætta þeim en í staðinn verði umtalsverður kostnaður, kannski ekki jafnmikill en í sumum tilvikum langt í það í kostnaði við að kaupa sér plástur, tyggjó og pillur eða hvað það nú er, þá velta menn eilítið vöngum.

Ég sakna þess dálítið að það sé ekki a.m.k. almenn markmiðssetning í þá veru og mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra færi nokkrum orðum um það því að ég hygg að hún hljóti að hafa velt þeim þætti fyrir sér. Ég hef ekki skoðað í hverju þetta háa verðlag á hjálparmeðulum til að hætta að reykja liggur, hvort það er tollamál eða bara hreinlega álagning eða eitthvað annað, en mér þætti það spennandi þáttur í málinu. Ég er sannfærður um að það dregur niður þessa prósentu miklum mun hraðar en það að senda fólk út á götu til að reykja, það er mín trú.

Herra forseti. Ég hef stiklað skipulagslítið á einstökum atriðum þessa máls og vil að endingu segja að menn skuli ævinlega vera á varðbergi gagnvart svokölluðum búmerangáhrifum, þ.e. þegar of langt er gengið í boðum og bönnum. Ég ætla í engu að líkja þessu frv. við brennivínsbannið forðum daga, það er alls ekki ætlun mín en ég vil þó minna á að það leiddi auðvitað ekki til þess að stórkostlega drægi úr neyslu áfengis heldur breyttist neyslumunstrið og varð öðruvísi. Ég held að við vandamál af öllum toga, þar á meðal það viðfangsefni sem við ræðum hér, sé best við að eiga þegar það er sýnilegt og þó að mönnum finnist vont að horfa framan í það er betra að eiga við það þegar það er fyrir framan okkur heldur en þegar það er í afkimum.

Ég geri svo sem ekki mikið með það en maður fer að velta því fyrir sér hvar möguleikum okkar til þess að halda úti þessum eftirlitsiðnaði og leyfisveitingum af ýmsum toga lýkur. Að setja sérstakt gjald á sjoppur sem selja tóbak og setja ákveðnar reykingalöggur, --- jú, jú, við skulum reyna það en ég hef talsverðar efasemdir um að það nái fram að ganga. Með öðrum orðum, áróður, forvarnir og upplýsingar er það sem mun koma okkur áleiðis í þeirri baráttu en algjört bann og að ýta tóbaksreykingum út úr húsum og út á götur held ég að skili okkur ekki jafnhratt og þau atriði sem ég nefndi hér fyrr.

Herra forseti. Ég vænti þess og reikna með því að hv. heilbrn. fari rækilega yfir þetta og skoði alla þætti málsins. Ég tel líka mjög mikilvægt að við 2. umr. liggi það nokkuð ljóst fyrir í grófum dráttum hvernig hæstv. ráðherra hefur hugsað sér að setja á reglur sem heimild er veitt um í þessum lögum þannig að menn viti nokkurn veginn hver hugur hennar er í þeim efnum því að mjög miklu skiptir hvernig framkvæmdin verður. Ég nefni það líka að lyktum að ég er eindregið sammála því að á skemmtistöðum og í veitingahúsum verði það tryggt að þeir sem vilja vera án tóbaksreyks geti það. Það er hægt að gera skipulega og á mjög einfaldan hátt með því að hafa til að mynda reykingasvæðin í innri hólfum veitingahúsanna en ekki fremst við dyr eins og allt of víða tíðkast.

En ég vara mjög við því sem hér er að finna í almennum vangaveltum í greinargerðinni, að það sé bara spurning um tíma og jafnvel mánuði eða missiri þar til að menn fari leiðir ákveðinna fylkja í Bandaríkjunum og setji á algert bann í þessum efnum. Ég hef ákveðnar efasemdir um það og ég hef varast það í vangaveltum mínum hér að tala um rétt reykingamanna en vil þó segja það að lyktum að 25% þjóðarinnar sem reykja, því miður, hafa líka rétt í samfélaginu alveg eins og feitt fólk, kyrrsetufólk og það fólk sem fer ekki samkvæmt ströngustu reglum um heilbrigða lífshætti af öllum toga. Við skulum því ekki búa til óhreinu börnin hennar Evu. Það gæti fjölgað hratt í þeim flokki ef við ætlum að fara í slíkar skilgreiningar.