Tóbaksvarnir

Mánudaginn 15. janúar 2001, kl. 16:12:13 (3585)

2001-01-15 16:12:13# 126. lþ. 57.2 fundur 345. mál: #A tóbaksvarnir# (markaðssetning, tóbaksmengun o.fl.) frv., ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 126. lþ.

[16:12]

Þuríður Backman (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að sú sýn, sem ekki er nú fögur, sem hv. þm. dró upp að hér mundu tugir manna flokkast saman úti á götu væri þar nú þegar. Víða í kringum okkur er verið að ganga lengra en gengið er í þessu frv. og sérstaklega með tilliti til reykinga á veitingastöðum þannig að við erum ekki að setja upp eitthvert lögregluríki hvað þetta varðar. Allra best er að stuðla að því að börn og unglingar og fólk byrji ekki að reykja og síðan að hjálpa þeim sem reykja eða nota tóbak til að hætta.

Þar sem hv. þm. nefndi hjúkrunarfræðinga, Samtök hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra gegn tóbaki, þá get ég upplýst að ég er í þeim hópi og mundi gjarnan vilja hjálpa hv. þm. og fleirum ef óskað væri eftir því til að losna við tóbaksfíknina, en eitt af þeim ráðum sem fólk getur notað --- ef viljinn hefur ekki dugað sem er það sem gildir --- er að nota þau lyf sem til eru á markaðnum. Ég er hlynnt því að þau verði niðurgreidd að einhverju leyti þannig að þeir sem reykja í dag geti frekar notað þau.

En varðandi fyrirmyndir, þá held ég að það sé verri fyrirmynd fyrir börn og unglinga að sjá fullorðna reykjandi inni eins og það sé sjálfsagður hlutur heldur en úti á götum eða svölum sem eru skýr skilaboð um að reykurinn sé mengandi.