Tóbaksvarnir

Mánudaginn 15. janúar 2001, kl. 16:48:28 (3590)

2001-01-15 16:48:28# 126. lþ. 57.2 fundur 345. mál: #A tóbaksvarnir# (markaðssetning, tóbaksmengun o.fl.) frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 126. lþ.

[16:48]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá miklu og góðu umræðu sem fram hefur farið um frv. Það er nú eins og gengur og gerist, sínum augum lítur hver silfrið. Sumir telja að við göngum allt of skammt og aðrir allt of langt. Ég held hins vegar að við höfum fundið þennan gullna meðalveg, eitthvað sem við ráðum við. Við ráðum ekki við að fara öllu lengra í bili. Við höfum tekið þetta í nokkrum skrefum sem hafa verið til góðs. Aðgerðir okkar hafa orðið til þess að reykingar hafa minnkað í yngstu aldurshópunum og skiptir einna mestu máli.

Mér þótti allra verst þegar talað var um að reykingafólk væri annars flokks fólk. Svo er náttúrlega alls ekki. Auðvitað eru til ýmsar fíknir aðrar en reykingafíkn. Þetta hefur ekkert með það að gera að líta niður á reykingafólk á nokkurn einasta hátt. Við erum að reyna að auka forvarnirnar. Það kemur fram í könnun sem gerð var meðal reykingafólks að langstærsti hluti þess, eða 87%, á þá ósk heitasta að hætta. Það segir okkur að við eigum auðvitað að gera það sem í okkar valdi stendur til að hjálpa því til þess.

Í máli hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur og fleiri þingmanna kom fram að þeir vilja gjarnan hafa meiri tíma til að búa sig undir málið sem hér er á dagskrá. Sú sem hér stendur átti reyndar von á að ræða um annað mál en tóbaksvarnir og ég get nú svo sem tekið undir það. Það er kannski farið að fjúka í nokkur spor hjá mér varðandi frv. þar sem nokkuð langt er síðan við afgreiddum það í ráðuneytinu. En við lögðum alveg geysilega vinnu í það og ég tel frv. mjög vandað. Það komu mjög margir að því og ég held að við séum búin að snikka af því flesta annmarka þannig að fólk geti verið nokkuð sátt við það.

Hér var spurt að því áðan hvernig eftirliti verði háttað með því að börnum, yngri en 18 ára, verði ekki selt tóbak. Heilbrigðisnefndir og eftirlit í hverju sveitarfélagi eiga að sjá um það og leyfisgjöldin sem gert er ráð fyrir að tekin verði af þeim sem selja tóbak verða nýtt til þessa eftirlits.

Hér var mikið rætt um munntóbak og fínkornótt tóbak. Ég held að hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hafi verið að spyrja um skroið því hún sagði að hún tæki eftir því að margt ungra manna væri með fullan munninn. Það hlýtur að vera skroið því að fínkornótta tóbakið er það smátt í sniðum að það getur varla myndað mikinn gúl. Við erum ekki að banna skro en við höfum aftur á móti bannað fínkornótt tóbak. Hún spurði líka hvernig eftirliti væri háttað með því að það bærist ekki til landsins. Það er náttúrlega eins og með annað eftirlit með smygli.

Menn höfðu áhyggjur af því að sjúklingar fengju ekki að reykja inni á sjúkrahúsum. Á sjúkrahúsum verður fundinn staður fyrir langlegusjúklinga til að reykja. Það er háð því að þar séu vel reykræstir staðir þar sem auðvelt er að hreinsa andrúmsloftið. Fólkið verður ekki sett í einhverjar kompur og þannig þarf að huga heilmikið að þeim málum.

Hér hefur líka verið rætt um fangelsi í þessu samhengi. Það kom fram í framsöguræðu minni áðan að samkvæmt fangelsisyfirvöldum eða leiðbeiningum frá þeim höfum við farið gjörsamlega að þeirra ráðum. Ég tel mikilvægt fyrir heilbr.- og trn. að fá þá á sinn fund og fara yfir málið með þeim.

Í máli hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar kom fram að honum fyndist allt of langt gengið með þessu frv. og við værum bókstaflega að reka reykingafólk út á götuna o.s.frv. Hann spurði að því hvort það mætti virkilega hvergi reykja á vinnustöðum. Samkvæmt núgildandi lögum áttu yfirmenn stofnana að vera búnir, í samráði við starfsmenn sína, að móta reglur um reykingar á vinnustöðum. Það er þannig oft á tíðum háð samstarfi við yfirmenn. Aðalmálið er hins vegar að þar sem opinber þjónusta er veitt, þar er bannað að reykja. Það er meginlínan.

Hér hefur mikið verið rætt um nikótínlyf og hvað þau eru dýr. Það er alveg hárrétt að þau eru alveg ótrúlega dýr. Mér er sagt af fróðum mönnum að sú regla sé höfð hjá framleiðendum að þetta sé alltaf svipað verð og á sígarettupakka. Hvort sem það er rétt eða ekki rétt þá er það nú nokkuð grunsamlegt að nikótínlyfin eru alltaf á svipuðu verði og sígaretturnar í viðkomandi landi. Það segir nokkra sögu. Hins vegar er alltaf ódýrara að taka inn nikótínlyf en að reykja, það er alveg ljóst. Við höfum ekki farið út í að niðurgreiða þessi lyf. Það er mjög erfitt að fara út í það. Aðrar þjóðir hafa ekki gert það. Ég veit ekki hvort það væri rétt að nota þá fjármuni sem við höfum, kannski 50--60 milljónir til tóbaksvarna, til að greiða niður þessi lyf. Ég held að þetta sé svo mikil ákvörðun hvers og eins að hætta að reykja að ég veit ekki hvort það eru rétt skilaboð að ætla að fara að greiða þetta mjög mikið niður. Aftur á móti höfum við greitt niður námskeið í stórum stíl og jafnvel meðferðarúrræði. Ég tel það vera af hinu rétta. Ég tel að það sé ekki forgangsmál hjá okkur að greiða niður nikótínlyf og við þurfum að fara afar varlega í því, einmitt vegna þess sem ég sagði áðan. Það er tilhneiging til að hafa forvarnalyfin á sama verði og tóbakið. Það segir okkur að ef hið opinbera ætlaði að niðurgreiða lyfin þá mundu þau hækka allverulega. Það er það sem við höfum óttast og það er það sem aðrar þjóðir hjá WHO hafa líka óttast og þess vegna er ekki algengt að þjóðir hafi farið út í þetta. Ég veit reyndar ekki um neina þjóð sem hefur farið út í það.

Ég tel að þessi umræða hafi verið mjög góð. Hér var bryddað upp á mjög mörgum hlutum og sitt sýndist hverjum. En almennt vilja menn fara þær leiðir sem eru í frv. Ég er viss um að það má sníða af þessu ýmsa annmarka í heilbr.- og trn., ef þeir eru til staðar. Þessi umræða verður nú ekki síðasta tóbaksvarnaumræðan. Ég þakka fyrir það sem fram hefur komið hér og langar að segja eitt að lokum.

Hér var einmitt rætt um tóbaksneyslu í skipum. Ég veit að það er visst vandamál. Um borð í skipi er það svæði sem sjómenn hafa yfir að ráða náttúrlega afskaplega þröngt. Samt sem áður hef ég heyrt það frá þeim sem ekki reykja að þeim finnst mökkurinn alveg þrúgandi, t.d. á frystiskipunum þar sem algjörlega er opið að reykja. Þess vegna höfum við verið að bjóða upp á sérstaka meðferð fyrir sjómenn um leið og landlæknisembættið hefur verið að bjóða upp á líkamsæfingar og fróðleik um mataræði vegna þess, eins og ég segi, að það er mjög mikil einangrun fyrir menn að vera lengi til sjós sérstaklega á þessum stóru skipum sem eru farin að vera mjög lengi úti eins og raun ber vitni, allt upp í sex vikur. Þess vegna þurfum við sérstaklega að líta til fiskiskipaflotans og áhafna þeirra skipa varðandi forvarnamál og gefa þeim líka möguleika ekkert síður en þeim sem eru í landi.