Tóbaksvarnir

Mánudaginn 15. janúar 2001, kl. 16:58:16 (3591)

2001-01-15 16:58:16# 126. lþ. 57.2 fundur 345. mál: #A tóbaksvarnir# (markaðssetning, tóbaksmengun o.fl.) frv., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 126. lþ.

[16:58]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru aðeins tvö atriði sem ég vil nefna, þ.e. um að skylda dvalarheimili fyrir aldraða til þess að hafa rými fyrir þá sem reykja og hafa það vel loftræst og setja inn sams konar ákvæði og eru gagnvart veitinga- og skemmtistöðum, þ.e. að tryggja skal fullnægjandi loftræstingu.

Og síðan, virðulegi forseti, bið ég hæstv. ráðherra að velta því fyrir sér hvort þau ráð sem Fangelsismálastofnun eða yfirmenn fangelsismála hafa gefið hæstv. ráðherra um það að leyfa einungis reykingar í svefnrými eða í litlum klefum í fangelsinu, geti átt rætur sínar að rekja til þess að það mun auðvitað hafa í för með sér kostnað að koma upp góðu vel loftræstu rými fyrir þá sem reykja. Það er auðvitað mun skynsamlegri ráðstöfun til lengri tíma litið því að hitt mun aldrei ganga og frekar auka á vandann að leyfa einungis reykingar á svefnstað eða í litlum klefum. Eðlilegra væri að einungis væru leyfðar reykingar í einu vel loftræstu rými í fangelsunum og undanþága væri við óbreytt ástand þangað til því hefði verið komið í verk því að það er nú kannski þannig að mönnum vex þessi kostnaður í augum heldur en hitt að þetta sé óframkvæmanlegt.