Endurheimt íslenskra fornminja frá Danmörku

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 13:44:54 (3600)

2001-01-16 13:44:54# 126. lþ. 58.1 fundur 352. mál: #A endurheimt íslenskra fornminja frá Danmörku# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 126. lþ.

[13:44]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Það var sérstakt drengskaparbragð af Dönum þegar þeir skiluðu okkur aftur handritunum og raunar í alþjóðlegu samhengi einstakur atburður. Ég gerði mér samt ekki grein fyrir því að það hefðu fylgt svo strangir skilmálar hvað varðaði kröfur um aðra hluti.

Ég hef lagt leið mína í danska þjóðminjasafnið til að skoða ýmsa hluti sem ég vissi að þar væru geymdir en þá voru þeir ekki til sýnis, þannig að ég hef efast um að þetta væri Dönum svona mikið mál. Mér dettur í hug, fyrst við megum ekki lyfta þessari kröfu, hvort möguleiki væri að fá danska stjórnmálamenn, sem ég veit að eru margir okkur mjög hliðhollir, til að lyfta henni.