Endurheimt íslenskra fornminja frá Danmörku

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 13:45:56 (3601)

2001-01-16 13:45:56# 126. lþ. 58.1 fundur 352. mál: #A endurheimt íslenskra fornminja frá Danmörku# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 126. lþ.

[13:45]

Fyrirspyrjandi (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum fyrir að hafa tekið þátt í þessari umræðu. Það er ljóst að þjóðina þyrstir í enn frekari tengsl við söguna og arfleifðina og því er mikilvægt að huga vel að þessu og slökkva þennan þorsta að mínu mati. Ég held líka að við eigum að fara að taka tillit til þess m.a. að ferðamannaiðnaðurinn er sívaxandi atvinnugrein og það er gott að auka fjölbreytni fyrir þá ferðamenn sem hingað leggja leið sína.

Það er alveg hárrétt sem kom fram í máli hæstv. menntmrh. áðan að skilmálarnir í sáttmálanum eru afar skýrir og í rauninni okkur óhagstæðir til þess að endurheimta þessa merku dýrgripi. Engu að síður er líka rétt að þetta mál, þ.e. endurheimt þessara fornminja, verði reifað, ekki bara hér á þinginu heldur í dagblöðum og á fleiri stöðum. Það er því ekki að ástæðulausu að ég tek þetta mál hér upp því að ég vil hvetja hæstv. menntmrh. til að taka þetta mál upp, reifa þetta óformlega eða á þann hátt sem þjónar málinu best og þeim miklu hagsmunum sem því fylgja.

Ég tel að mjög viðeigandi væri að opna Þjóðminjasafnið eftir miklar og virkar endurbætur með glæsibrag einmitt á sýningu á þessum íslensku munum sem hafa verið geymdir á danskri grund fram til þessa. Ég held að það væri mjög viðeigandi og hvet því hæstv. ráðherra til þess að taka þetta upp á einn eða annan hátt.