Endurheimt íslenskra fornminja frá Danmörku

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 13:47:42 (3602)

2001-01-16 13:47:42# 126. lþ. 58.1 fundur 352. mál: #A endurheimt íslenskra fornminja frá Danmörku# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 126. lþ.

[13:47]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Það er rétt að Þjóðminjasafnið verður opnað vonandi með glæsibrag innan fárra ára og við endurnýjaðar aðstæður og sjálfsagt að huga að því í tilefni af þeirri athöfn að fá sem flesta muni sem Íslendingar hafa ekki alltaf fyrir augunum til sýninga í safninu. Ég vek athygli á því að við snerum okkur til Þjóðminjasafnsins í tilefni af þessari fyrirspurn og þar kom fram að Þjóðminjasafnið hefði ekki nein áform um að endurheimta íslenska gripi frá Danmörku. En að sjálfsögðu hlýtur það mál eins og annað að vera alltaf til skoðunar. Hér var vitnað til blaðagreina og það voru líklega greinar sem Guðmundur Magnússon sagnfræðingur, sem nú er forstöðumaður Þjóðmenningarhússins, ritaði í Lesbók Morgunblaðsins 23. mars 1996. Síðan birti hann aðra grein 30. mars 1996 þar sem fram kom að hann hafði ekki gert sér grein fyrir því þegar hann ritaði grein sína hve afdráttarlaus 6. gr. sáttmála Danmerkur og Íslands frá 1965 er. Menn virðast því ekki almennt gera sér grein fyrir því hve afdráttarlaus þessi grein er og hve mikilvægt er að umgangast hana af fullri virðingu með hliðsjón af sögu handritamálsins þannig að menn geta ekki talað um þetta eins og léttvægt mál bæði út frá sögulegum sjónarhóli okkar, lögfræðilegum sjónarhóli og samskiptum okkar við Dani.

Ég mun því nálgast málið á þeim forsendum með fullri virðingu fyrir þeim sáttmála sem við gerðum 1965 og hvernig Danir stóðu að málum þá og einnig með hliðsjón af þeim breytingum sem orðið hafa á viðhorfum manna að þessu leyti og síðast en ekki síst með hliðsjón af því að við erum að skapa Þjóðminjasafni Íslands algjörlega nýjar starfsaðstæður þegar það verður endurnýjað nú á næstu árum.

Niðurstaða málsins ræðst að sjálfsögðu af því hvort samkomulag tekst við Dani um eitthvað í þessu efni og hvort unnt sé að vinna þannig að þessum málum að við brjótum ekki gegn neinu sem við höfum áður samþykkt.