Framlög til lögregluumdæmis Árnessýslu

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 13:50:09 (3603)

2001-01-16 13:50:09# 126. lþ. 58.2 fundur 372. mál: #A framlög til lögregluumdæmis Árnessýslu# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 126. lþ.

[13:50]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Á hverju ári eru ákvarðaðar fjárveitingar til lögregluembætta í landinu. Um langan tíma var það viðurkennt að alltaf gæti komið til einhverrar framúrkeyrslu embættanna vegna ófyrirséðra erfiðra mála.

Fjárveitingar til reksturs sýslumannsembættis og lögreglu í Árnessýslu hafa á undanförnum árum verið naumar samanborið við önnur sambærileg embætti og í engu samræmi við umfang starfsins sem þar er innt af hendi. Fólksfjölgun hefur orðið á svæðinu bæði hvað varðar fasta búsetu og svokallaða dulda búsetu en það er fólk sem dvelur í sumarbústöðum á svæðinu nánast hverja helgi allan ársins hring, en ætla má að íbúum á Suðurlandi fjölgi um tíu þúsund flestar helgar ársins.

Bifreiðaeign og umferð á svæðinu hefur aukist og eðli og umfang afbrota breyst eins og annars staðar á landinu samfara aukinni fíkniefnaneyslu. Þetta hefur í för með sér að stöðugt eru gerðar meiri kröfur til starfa lögreglunnar. Bæjarstjórnir Hveragerðis og Þorlákshafnar hafa ítrekað farið fram á aukna viðveru lögreglu á þessum stóru svæðum og það sama gildir um aðra þéttbýliskjarna á svæðinu. Þá er lögreglunni einnig gert að sinna þeim mikla fjölda sem er í sumarbústaðabyggðum án þess að tekið hafi verið tillit til þess hvað varðar fjárveitingar. Að auki hefur lögreglan með sóma séð um sjúkraflutninga í umdæminu.

Nýlega fékk lögreglan í Árnessýslu lykla að fínu húsnæði í Þorlákshöfn ásamt, að ég held, 500 þús. kr. til að reka húsnæðið, borga leigu, rafmagn, hita og þess háttar. Þetta er jákvætt en ég sé ekki hvernig lögreglan á að geta sinnt störfum þarna því að allan húsbúnað vantar. En það sem verra er, það vantar líka mannskap.

Þrátt fyrir mikla þörf og aukið álag hefur frá 1994 aðeins verið veitt eitt nýtt stöðugildi til lögreglunnar í Árnessýslu, þ.e. ein staða fíkniefnalögreglu. Lögreglumönnum sem ganga vaktir hefur hins vegar fækkað um fjóra á þremur árum.

1. nóv. 1997 voru 20 vaktavinnumenn á fjórskiptum vöktum, allir höfðu lokið Lögregluskólanum. 1. nóv. 2000 eru 16 vaktavinnumenn og þar af sex án menntunar. Það segir sig sjálft að þessi fækkun á vöktum hefur haft í för með sér verulega skerta möguleika lögreglunnar í Árnessýslu til að sinna þeirri þjónustu sem henni ber. Og nú er henni gert að mæta 32 millj. kr. halla sem safnast hefur upp á undanförnum árum, m.a. vegna veikinda. Það er alveg ljóst að það er embættinu algjörlega óframkvæmanlegt nema til komi enn frekari skerðing á þjónustu og t.d. fækkun stöðugilda. Það er útilokað fyrir lögregluna, sýslumannsembættið og íbúa á þessu svæði að fallast á slíkar aðgerðir.

Því spyr ég hæstv. dómsmrh.:

,,Hvernig er lögregluumdæminu í Árnessýslu á næstu 3--4 árum ætlað að mæta 32 millj. kr. halla sem safnast hefur upp undanfarin ár? Mun það skerða þjónustu lögreglunnar í umdæminu og þá á hvern hátt?``