Framlög til lögregluumdæmis Árnessýslu

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 13:53:21 (3604)

2001-01-16 13:53:21# 126. lþ. 58.2 fundur 372. mál: #A framlög til lögregluumdæmis Árnessýslu# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 126. lþ.

[13:53]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Það er rétt að embætti sýslumannsins á Selfossi hefur átt við rekstrarerfiðleika að stríða undanfarin ár og hefur safnað upp miklum rekstrarhalla sem nemur nú tæplega 46 millj. kr. Um ástæður þessa er ekki hægt að finna einhlít svör en þó má segja að kostnaður við löggæsluna vegur þungt. Hluta þessa kostnaðar má rekja til mikils veikindakostnaðar lögreglumanna frá fyrri árum sem ekki fékkst bættur. Einnig er það staðreynd að meðalaldur lögreglumanna í liðinu er óvenju hár en það þýðir að þeir eru undanþegnir almennri vaktgöngu eins og yngri lögreglumenn. Þetta kallar á kostnaðarsama aukavinnu yngri lögreglumanna og hefur haft einhver áhrif á það að auka halla embættisins.

Ég vil taka það fram að dómsmrn. hefur lagt sitt af mörkum með því að gera ítarlegar tillögur um að lækka eftirlaunaaldur lögreglumanna einmitt til þess að komast megi hjá vandamálum sem skapast við þessar aðstæður. Þessar tillögur hafa þó ekki fengið hljómgrunn, m.a. með hliðsjón af áhrifum á aðrar starfsstéttir en þess má geta að eftirlaunaaldur lögreglumanna á Íslandi er sá hæsti á Norðurlöndum og þótt víðar væri leitað.

Ég vil líka taka það fram að almennt séð er fjöldi lögreglumanna í löggæsluumdæminu í góðu samræmi við embætti af sambærilegri stærð. Við embættið starfa nú 27 lögreglumenn í umdæminu en hafa ber í huga að lögreglan hefur undanfarin ár einnig sinnt sjúkraflutningum samkvæmt sérstökum samningi við sveitarfélagið. Í reynd er stærð lögregluliðsins hagstæð miðað við fjölda íbúa í umdæminu.

Miðað við þann 1. janúar árið 2000 eru 460 íbúar um hvern lögreglumann og þetta eru færri íbúar um hvern lögreglumann en í mörgum öðrum stórum löggæsluumdæmum úti á landi þar sem talan fer upp í allt að 800 íbúa um hvern lögreglumann. Þó ber að hafa í huga að sérstakir álagstímar í löggæslunni tengjast að einhverju leyti fjölmennari sumarhúsabyggð í umdæminu þar sem fólki fjölgar verulega þótt skráð íbúatala standi í stað.

Dómsmrn. hefur ekki aðra valkosti en að fylgja fjárlögum sem samþykkt eru á Alþingi og að leggja fyrir undirstofnanir sínar að gera það sama. Ráðuneytinu ber einnig að leita leiða til þess að draga úr halla þeirra stofnana sem eru með meira en 4% halla í árslok. Er þá miðað við þá prósentutölu sem tilgreind er í verklagsreglum fjmrn. um framkvæmd fjárlaga, rekstur og stjórn ríkisstofnana í A-hluta. Aðallega er um að ræða sýslumannsembætti og er embættið á Selfossi eitt af þeim.

Fundað var með sýslumönnum á vormánuðum og fyrir þá lagt að grípa til sparnaðaraðgerða í þeim tilgangi að draga úr rekstrargjöldum á tveimur til fimm árum. Ráðuneytið hefur síðan verið í stöðugu sambandi við öll þessi embætti og óskaði greinargerða um stöðu mála nú í haust. Það er gert ráð fyrir því að fara yfir stöðuna aftur þegar niðurstaða ársins 2000 liggur endanlega fyrir á næstu vikum. Ráðuneytið hefur einnig óskað eftir því við embætti ríkislögreglustjóra að skoða fyrirkomulag löggæslu á þessum embættum með það í huga hvort unnt sé að breyta vaktskipulagi og/eða gera aðrar breytingar sem geta leitt til skilvirkari og kostnaðarminni löggæslu.

Halli sýslumannsembættisins á Selfossi var 31,9 millj. kr. í árslok 1999 eins og áður segir eða sem nemur 18,5%. Bráðabirgðaniðurstaða gefur til kynna að hallinn sé u.þ.b. 46 millj. kr. í lok ársins 2000.

Eins og áður hefur verið rakið á vandi embættisins sér margar orsakir. Ein af þeim er m.a. hár meðalaldur lögregluliðsins og mikill veikindakostnaður. Það er ljóst að ekki verður unnt að vinna á halla af þessari stærðargráðu nema með sérstöku aðhaldi í rekstri og sýslumaðurinn á Selfossi hefur lagt fram margvíslegar tillögur um aðgerðir og ráðuneytið hefur fallist á þær. Ég mun rekja þær frekar í seinna svari þar sem ég sé að tíminn er að renna út. En með þessari endurskipulagningu í rekstri embættisins þá er það von okkar að unnt verði að vinna á þeim gríðarlega rekstrarvanda sem blasir við embættinu.