Framlög til lögregluumdæmis Árnessýslu

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 13:58:29 (3605)

2001-01-16 13:58:29# 126. lþ. 58.2 fundur 372. mál: #A framlög til lögregluumdæmis Árnessýslu# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 126. lþ.

[13:58]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 3. þm. Suðurl. fyrir að vekja máls á þessu máli sem er vissulega alvarlegt. Ég þakka einnig dómsmrh. fyrir hennar svör. Það er viðvarandi halli á rekstri lögregluembættisins í Árnessýslu og það bitnar á þjónustu á svæðinu. Það finnum við þegar við ferðumst um þetta svæði að mjög mikið er kvartað um að meiri löggæslu vanti, sérstaklega í þéttbýliskjarna svæðisins. Ég veit líka til þess að ungir lögreglumenn sem hafa t.d. verið í víkingasveitinni hér í Reykjavík, hafa farið frá Selfossi og komið hingað, mjög vaskir ungir menn, vegna þess að ekki hefur tekist að skapa þeim aðstöðu sem víkingasveitarmönnum þar. Það er mjög brýnt að horfa til þess hve svæðið liggur nálægt Reykjavík og við þurfum að kappkosta að halda í unga menn sem eru að mennta sig til lögreglustarfa, t.d. í Árnessýslu.

Sérstök álagssvæði eru á Suðurlandi, álagspunktar, samanber sumarbústaðina eins og komið hefur fram og einnig, það sem ekki hefur verið nefnt, að þegar erlendir þjóðhöfðingjar koma á Suðurland þá koma þeir á Þingvöll og þá lendir sá kostnaður á lögregluembætti Árnesinga.