Framlög til lögregluumdæmis Árnessýslu

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 14:00:05 (3606)

2001-01-16 14:00:05# 126. lþ. 58.2 fundur 372. mál: #A framlög til lögregluumdæmis Árnessýslu# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 126. lþ.

[14:00]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram að um viðvarandi halla er að ræða hjá þessu embætti. En skyldi það ekki vera m.a. vegna þess að um 10 þúsund manns bætast við íbúafjölda þessa umdæmis? Ég vil aðeins benda á að við höfum þessa 10 þúsund íbúa um hverja einustu helgi og suma hverja mánuðum saman án þess að þess hafi gætt í fjárveitingum til sýslumannsembættisins.

Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að í samanburði við önnur embætti byggjum við nokkuð vel. En ef horft er á framlög á fjárlögum 2001 erum við í fjórða neðsta sæti miðað við íbúafjölda hvað varðar framlög til sýslumannsembættisins og þá er einungis miðað við þá sem eru með fasta búsetu, ekki þá sem eru í sumarbústöðum eða dveljast í sumarbústöðum um hverja einustu helgi og nánast allt sumarið. Eðlilega er því um viðvarandi halla að ræða vegna þess að þetta embætti hefur verið í fjársvelti í mörg undanfarin ár. Mér er kunnugt um að sýslumaðurinn heimsótti m.a. fjárln. Alþingis og gerði nefndinni grein fyrir stöðunni í haust. Það virðist ekkert hafa haft að segja og auðvitað er rétt að hæstv. dómsmrh. verður að fara að þeim fjárlögum sem eru í gildi hverju sinni. En það er mikil nauðsyn á því að taka sérstaklega á hvað varðar þetta embætti sem er nákvæmlega eins og hæstv. dómsmrh. lýsti áðan að við búum m.a. við það að hæsti meðalaldur lögregluþjóna er hjá þessu embætti og afar fáir sem ganga vaktir, 16 í staðinn fyrir 20 fyrir þremur árum. Ekki er hægt að endurskipuleggja embættið miðað við þann mannafla sem við höfum, miðað við þær fjárveitingar sem við höfum öðruvísi en skerða og skera niður þjónustuna og það er aldeilis útilokað á þessu svæði.