Einbreiðar brýr

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 14:16:22 (3615)

2001-01-16 14:16:22# 126. lþ. 58.3 fundur 374. mál: #A einbreiðar brýr# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi KF
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 126. lþ.

[14:16]

Fyrirspyrjandi (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Ég þakka þingmönnum fyrir að taka þátt í þessari umræðu og hæstv. dómsmrh. fyrir svörin sem voru mjög skýr og gott að vita af áhuganum á þessu máli.

Rétt er að heilmikið átak hefur verið gert í að breikka brýr. Að sjálfsögðu hef ég stutt það. Vegáætlun er gerð til ákveðins tíma í senn og það smásaxast á verkefni af þessu tagi. Mín hugmynd var að gera eitthvað til bráðabirgða þangað til verkinu væri lokið.

Og ég beindi fsp. til dómsmrh. af ráðnum hug vegna þess að eins og hún sagði þá er biðskylda og stöðvunarskylda bundin í reglugerð. Samkvæmt reglugerð á að nota biðskyldu eða stöðvunarskyldu við vegamót. Kannski mætti gera breytingu á þessari reglugerð þannig að heimilað væri að setja slíkar merkingar einnig við brúarsporða þar sem mönnum finnst það eðlilegt? Reglugerðarbreyting af þessu tagi gæti mögulega tryggt eða aukið öryggi í umferð á vegunum.

Ég veit að það er ekki alltaf auðhlaupið að því að breyta reglugerðum af þessu tagi. Þegar ég átti sæti í borgarstjórn og borgarráði á sínum tíma reyndi ég að koma því á hér í Reykjavík að sett yrði upp svokölluð fjórhliða stöðvunarskylda við gatnamót. Um það varð nokkurra ára barátta við dómsmrn. sem lyktaði þannig að það náðist ekki fram. Þar var einnig um reglugerðarákvæði að ræða. Í þessu máli fyndist mér að athuga mætti hvort breyting á reglugerðinni gæti til bráðabirgða dregið úr slysahættu þar til allar þessar brýr hafa verið breikkaðar, en það er auðvitað takmarkið.