Framkvæmdir tengdar Reykjanesbraut

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 14:42:49 (3624)

2001-01-16 14:42:49# 126. lþ. 58.5 fundur 373. mál: #A framkvæmdir tengdar Reykjanesbraut# fsp. (til munnl.) frá samgrh., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 126. lþ.

[14:42]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég sat einmitt mjög merkilegan fund um þetta málefni í Stapa í Reykjanesbæ í síðustu viku þar sem farið var mjög nákvæmlega yfir þetta mál. Ég tel það vera í býsna öruggum farvegi eins og fram hefur komið hjá hæstv. samgrh. Ég held að óhætt sé að segja að þingmenn frá Suðurnesjum og reyndar Suðurlandi eru býsna samstiga í málinu þannig að við þurfum í rauninni vart um það að deila. Það er í mjög öruggum höndum og mjög öruggum farvegi.

Vissulega er nauðsynlegt að velta upp hugmyndum um járnbrautalest eða eimreið eða hvað við köllum slíkt fyrirbæri en það er í rauninni langtum lengra inni í framtíðinni. Það mál sem hér er rætt er í mjög öruggum höndum og það er líka athyglisvert að skynja það góða samstarf sem er milli lögregluembættanna í Hafnarfirði, á Suðurnesjum og á Keflavíkurflugvelli og Vegagerðarinnar í því að ná niður hraða á þessari braut og það skynja menn sem aka um þá braut.