Framkvæmdir tengdar Reykjanesbraut

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 14:46:09 (3627)

2001-01-16 14:46:09# 126. lþ. 58.5 fundur 373. mál: #A framkvæmdir tengdar Reykjanesbraut# fsp. (til munnl.) frá samgrh., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 126. lþ.

[14:46]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Það liggur alveg ljóst fyrir að þingmannahópur Reykjaneskjördæmis hefur unnið að því af mikilli einurð að koma tvöföldun Reykjanesbrautarinnar á vegáætlun og fá breytingar í gegn til þess að það geti orðið. Það sem hins vegar hefur breyst hér á síðustu vikum og mánuðum er að einstakir þingmenn hafa verið að reyna að slá sig til riddara í þessu máli, oft og tíðum, vil ég halda fram, á frekar ósmekklegan hátt. En það breytir því ekki að samstaðan er fyrir í hópnum. Allir eru að vinna að þessu máli.

Ég vil líka taka það fram fyrst ég er komin hér upp að það er algjörlega nauðsynlegt, eins og kemur fram í fyrirspurn hv. þingmanna vinstri grænna, að láta athuga hvað líður athugun á rafbraut til Suðurnesja af því að þó svo að Reykjanesbrautin verði tvöfölduð á næstu árum þá má líka við því búast að efla þurfi hér almenningssamgöngur svo um munar á næstu áratugum.