Framkvæmdir tengdar Reykjanesbraut

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 14:48:36 (3629)

2001-01-16 14:48:36# 126. lþ. 58.5 fundur 373. mál: #A framkvæmdir tengdar Reykjanesbraut# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 126. lþ.

[14:48]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Því var hvíslað í eyra mér áðan að umræðan um tvöföldun Reykjanesbrautar væri sennilega einhver hysterískasta umræða í samfélaginu í dag.

Það er alveg rétt. Hún virkar hálfhysterísk, kannski vegna þess að þingmannahópur Suðurnesjabúa hefur látið virkilega mikið finna fyrir sér á síðum dagblaðanna og í öðrum fjölmiðlum varðandi málið. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs vilja fá inn í umræðuna aðra möguleika. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs vilja herma það upp á hæstv. samgrh. að hann stýri ráðuneyti sem hefur umhverfisstefnu og samkvæmt þeirri umhverfisstefnu ber að efla almenningssamgöngur á öllu landinu. Ég harma þau ummæli hæstv. samgrh. sem komu fram í svari hans áðan að samgrn. hyggist ekki leggja meira fjármagn en búið er í athugun á mögulegri rafbraut suður til Keflavíkur því að þar finnst mér hæstv. samgrh. vera að fara á svig við yfirlýsta stefnu ráðuneytisins sem hann stýrir og sömuleiðis vera að fara á svig við þann yfirlýsta tilgang ríkisstjórnarinnar að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og þar með losun gróðurhúsalofttegunda.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð vill fá þessa hluti fram í umræðuna. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð vill líka fá fram í umræðuna möguleikana á framkvæmdum sem gætu tryggt öryggi vegfarenda á annan hátt en með milljarðaframkvæmdum sem kannski er ekki þörf á til að auka öryggi vegfarenda. Kannski eru til aðrar aðferðir ódýrari og sem eru jafnvel fljótvirkari. Þessi asi á þingmannahópi Reykjanesþingmanna er í hæsta máta skrýtinn og ég minni á að Vesturlandsvegurinn er hættulegri en Reykjanesbrautin. Um hann fara fleiri bílar. Á honum verða jafnalvarleg og jafnvel fleiri umferðarslys. Það er það sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur viljað fá fram hér í umræðunni í dag og við höfum fengið það.