Framkvæmdir tengdar Reykjanesbraut

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 14:50:51 (3630)

2001-01-16 14:50:51# 126. lþ. 58.5 fundur 373. mál: #A framkvæmdir tengdar Reykjanesbraut# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 126. lþ.

[14:50]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég get ekki tekið undir það með hv. fyrirspyrjanda, Kolbrúnu Halldórsdóttur að óeðlilega mikill asi sé á þeim þingmönnum sem leggja áherslu á framkvæmdir við Reykjanesbrautina. Ég tel að það sé í fyllsta máta eðlilegt að lögð sé áhersla á þessa framkvæmd. Ég hef ekki hafnað neinum hugmyndum um könnun á lestarsamgöngum milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Ég hef ekki hafnað því. Ég hef meira að segja staðið fyrir því að Vegagerðin taki þátt í samstarfi við Orkuveitu Reykjavíkur um að athuga þetta.

Ég hafna því hins vegar að það sé gefið undir fótinn með framkvæmdir við uppsetningu á lest á milli þessara staða á sama tíma og við ætlum að leggja út í mikla fjárfestingu við tvöföldun á Reykjanesbrautinni. Það er algjörlega óforsvaranlegt að gefa undir fótinn með slíkt.

Lítum aðeins á tölur. Reykjanesbrautin frá Reykjavík til Suðurnesja er talin kosta 9 milljarða. Fjárveitingar á vegáætlun eru 3,3 milljarðar þannig að okkur vantar enn þá 5,7 milljarða til þess að ljúka þessu verkefni sem er að tvöfalda brautina með mislægum gatnamótum allar götur úr Reykjavík til Keflavíkur. Eingöngu kaflinn Hafnarfjörður/Fitjar kostar 2,3--2,5 milljarða þannig að þar vantar yfir 1,5 milljarða til þess að ljúka því verki. Hér er því um stórt verkefni á mælikvarða okkar Íslendinga að ræða og við eigum ekki, þó að við viljum auðvitað draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að nota samgöngutæki sem henta vel til þess, að gefa undir fótinn með þá kosti sem eru ekki í augsýn. En við eigum að skoða það í framtíðinni.