Neytendavernd og innflutningur á írskum nautalundum

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 15:20:53 (3636)

2001-01-16 15:20:53# 126. lþ. 59.94 fundur 252#B neytendavernd og innflutningur á írskum nautalundum# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 126. lþ.

[15:20]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér gilda lög og hér gilda reglur. Íslenskir neytendur og íslenskir bændur treysta því að landbrn. fari að þeim reglum sem það hefur sjálft sett sér og undirritaðar eru af landbrh. og auglýst að unnið sé eftir. Í stað þess að viðurkenna að hér hafi orðið alvarleg mistök í framkvæmd gildandi laga og reglna við innflutning á írsku nautalundunum fer ráðuneytisstjórinn, talsmaður hæstv. ráðherra, að afsaka afglöpin með því að reglur okkar séu allt of strangar og ekki sé hægt að fara eftir þeim að mati hans. Það er landbrn. sem gefur út skriflegt innflutningsleyfi fyrir kjötið. Hæstv. landbrh. sjálfur getur ekki svarað því í viðtali hvað hann viti um framkvæmd reglna við innflutning á umræddu írsku kjöti.

Verslun með nautakjöt skekur lönd um allan heim og ráðherrar fjúka af stólum sínum vegna slælegrar framgöngu í eftirliti. Hér þykist hæstv. landbrh. ekkert vita hvað um er að vera í eigin ráðuneyti og kallar á lögfræðing til að segja sér hvort brjóta megi eigin auglýstar reglur sem eru í fullu gildi þar til þær hafa verið dæmdar af eða aðrar eru teknar við.

Herra forseti. Það hvarflar að manni hvort Evrópuvírusinn sé farinn að búa svo um sig í landbrn. að þar sé litið svo á að við séum þegar orðin hluti af Evrópusambandinu, að við höfum yfirtekið allan heilbrigðiskafla Evrópusambandsins. En svo er aldeilis ekki. Menn halda þar e.t.v. að hagsmunir ESB-landa séu æðri íslenskum hagsmunum okkar. Nei, herra forseti, svo er ekki.

Bændasamtökum Íslands hefur loks ofboðið og hafa þau í dag skorað á landbrn. að stöðva a.m.k. tímabundið allan innflutning á nautakjöti og unnum matvælum sem innihalda nautgripaafurðir frá þeim löndum þar sem kúariða hefur greinst. Bændasamtök Íslands hafa í dag afhent landbrh. bréf þess efnis. Spurning mín til hæstv. landbrh. er: Ætlar hann að verða við þessu?