Neytendavernd og innflutningur á írskum nautalundum

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 15:23:14 (3637)

2001-01-16 15:23:14# 126. lþ. 59.94 fundur 252#B neytendavernd og innflutningur á írskum nautalundum# (umræður utan dagskrár), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 126. lþ.

[15:23]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Eins og hér hefur komið fram mun hæstv. landbrh. taka á þessu máli og láta skoða allar lagalegar hliðar þess. Það er nauðsynlegt og brýnt að mínu mati. Hér hefur komið fram að Eiríkur Tómasson lagaprófessor mun fá færustu sérfræðinga til að fara yfir fyrirkomulag þessara mála. (Gripið fram í: Er Jón Steinar upptekinn?)

Ég vil koma því á framfæri hérna að Hollustuvernd ríkisins hefur fylgst með eftirliti á unnum vörum í nágrannalöndum okkar daglega í gegnum svokallað Ratex-kerfi eða alþjóðlegt matvælaeftirlitskerfi Evrópusambandsins. Samkvæmt upplýsingum sérfræðinga okkar frá Hollustuvernd ríkisins hefur ekki verið bannað að flytja unnar vörur á milli landa hér í kringum okkur. Hins vegar sendi Hollustuvernd ríkisins bréf 5. desember til innflutningsaðila þar sem þeir eru beðnir að upplýsa hvaðan kjöt kemur sem er í viðkomandi afurð. Þær upplýsingar eru núna að berast.

Ég vil einnig benda á það við þessa umræðu að matvælaráð mun hittast á morgun en þar eru þeir aðilar sem koma helst að matvælaeftirliti í landinu fyrir utan heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga, þ.e. fulltrúar Hollustuverndar ríkisins, yfirdýralæknir, fulltrúi Fiskistofu og mér skilst að einnig muni sóttvarnalæknir koma þangað.

Ég vil að lokum taka undir það sem kom hér fram hjá hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni um að við eigum að fara með fyllstu varúð en við eigum líka að hafa vísindalegar upplýsingar að leiðarljósi. Ég fagna þessari yfirlýsingu og tel hana mjög brýna og eðlilega í umræðunum hér. Þetta hefur verið málflutningur okkar út á við, sérstaklega gagnvart fiskimjölinu sem menn hafa nýlega rætt hér. Við höfum viljað styðjast við vísindaleg rök og við hljótum að gera það í þessu máli eins og í umræðunni um fiskimjölið.