Neytendavernd og innflutningur á írskum nautalundum

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 15:34:32 (3642)

2001-01-16 15:34:32# 126. lþ. 59.94 fundur 252#B neytendavernd og innflutningur á írskum nautalundum# (umræður utan dagskrár), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 126. lþ.

[15:34]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Það mætti halda að Alþfl. sálugi hefði flutt inn nautalundirnar í haust af málflutningi stjórnarliða að dæma. Svo er nú ekki og það vitum við öll og ég held að það sé ágætt að fólk haldi sig við efnið í jafnalvarlegri umræðu og hér á sér stað, því við vitum í raun mjög lítið um Creutzfeldt-Jakob heilahrörnunarsjúkdóminn. Við vitum þó að hann veldur alvarlegri lömun og dregur alla sem fá hann til dauða. Við vitum einnig að mörg ár, jafnvel áratugir geta liðið frá því að sjúklingur smitast þar til hann verður veikur en þetta hefur m.a. komið fram í máli Margrétar Guðnadóttur prófessors, eins helsta sérfræðings á þessu sviði.

Við getum heldur ekkert fullyrt um smitleiðir því að í því efni er ekkert sannað þrátt fyrir fullyrðingar embættismanna og annarra þar um. Það er ekki hlutverk stjórnvalda að skapa falskt öryggi hjá almenningi, heldur ekki að vekja óþarfa ótta eins og fram kom í máli hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar. Það er hins vegar skylda stjórnvalda að leita allra leiða til þess að stjórnvöld verji heilsu almennings og komi í veg fyrir að kúariða berist til landsins. Það er hægt að gera, herra forseti, þrátt fyrir alþjóðlegar skuldbindingar um frjáls viðskipti, því skulum við ekki gleyma.

Eina leiðin til að tryggja sem best öryggi almennings hér á landi er að koma í veg fyrir innflutning vöru sem unnin er úr nautgripaafurðum frá löndum þar sem kúariðu hefur orðið vart. Í raun er það mjög einfalt og það hafa t.d. Nýsjálendingar og Ástralir gert, því í þessu máli vega heilbrigðissjónarmiðin þyngst. Hagur neytenda verður að ganga fyrir, dýrkeypt reynsla annarra þjóða hlýtur að vera okkur nóg áminning um það. Ef það nægir ekki skyldu ráðherrar hér á landi hafa það í huga að annars staðar í Evrópu hafa ráðherrar fokið þegar sannleikurinn um kúariðuna og Creutzfeldt-Jakob sjúkdóminn hitti málflutning þeirra sjálfra fyrir.

Ábyrgðin í þessu alvarlega máli er fyrst og síðast pólitísk og þá ábyrgð ber hæstv. landbrh.