Neytendavernd og innflutningur á írskum nautalundum

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 15:40:42 (3645)

2001-01-16 15:40:42# 126. lþ. 59.94 fundur 252#B neytendavernd og innflutningur á írskum nautalundum# (umræður utan dagskrár), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 126. lþ.

[15:40]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þeim mörgu sem hafa tekið þátt í umræðunni fyrir málefnalegar ræður og finn að við eigum samleið. Hér verður farið af fullri varúð og hefur verið gert og farið eftir lögum og reglum að ég vona. Eiríkur Tómasson prófessor er að fara yfir það.

Hins vegar harma ég málflutning sumra. Ekki eru það síst málshefjandi og vinstri grænir sem hér hafa farið offari. Ég vil segja við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon að fylgi hans getur verið jafnfallvalt og stóllinn minn. Hann fer offari í ótrúlegum hroka og ómerkilegum málflutningi. Hv. þm. beitir stíl Gróu á Leiti, hann notar kjaftakerlingarstíl þegar það hentar honum og það hefur hann komist upp með og það gerði hann í ræðu sinni. Ég veit að hv. þm. Drífa Hjartardóttir var að ræða um fleiri vörur og fara þarf yfir unnar matvörur og það kjöt sem í þeim er, pitsur, vorrúllur og fleira sem hér hefur verið nefnt. Yfir það verður einnig farið af hálfu ríkisstjórnarinnar og um það var rætt í morgun. Þess vegna er það hörmulegt að hv. þm. skuli beita kjaftastíl sínum, slá tungunni sitt hvorum megin um höfuðið þegar hann er að reyna að rægja æruna af félögum sínum. Þetta er ljótur málflutningur.

Mér varð það því miður á hér í upphafi að vekja upp lítinn krata í brjósti hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar. Hann blundaði þá þar enn, blessaður drengurinn. Ég vil segja við hv. þm. að ég vildi auðvitað ekki vekja upp þann draug, ég var að fara yfir söguna. Ég var ekki að gera lítið úr verslunarkeðjunni. Ég sagði: Íslenska þjóðin er dálítið óttaslegin vegna þess sem er að gerast í Evrópu og óttast hið írska nautakjöt. Ég var að dást að verslunarkeðjunni fyrir að segja frá því að nú væri afgangurinn af þessu kjöti kominn í frysti og jafnframt sagði ég frá því til að róa íslenska neytendur að ekkert af þessu kjöti hefði farið á hótelin. Ég var ekki að hræða þá eða annað slíkt, svo að það sé ljóst.

Ég vil líka segja út af umræðunni um norska fósturvísa að ýmsir hér hafa minnst á það og hafa viljað blanda því inn í þessa umræðu þó að það sé vitanlega allt annað mál. Þar ber auðvitað að fara af fullri varúð og verður gert. Ég hef rætt um það við yfirdýralækni að hann fari eftir næstu mánaðamót enn eina ferð til Noregs og hafi með sér í þeirri för Sigurð Sigurðarson á Keldum til þess að fara á nýjan leik yfir öll grundvallarmál í þeim efnum, til þess að alls öryggis sé gætt og við getum gripið í taumana ef þess þarf með.

Ég vil segja við hv. alþm. og raunar við neytendur á Íslandi: Ríkisstjórnin hefur áhyggjur af þessum málum. Við í ríkisstjórn munum fara yfir þau. Við munum á næstu dögum leita samstarfs við alla þá aðila sem skipta máli í þessum efnum og jafnvel --- og enginn vafi að meira að segja --- vinstri grænir munu koma að því borði þó að málflutningurinn sé ekki upp á marga fiska.

Ég þakka þessa umræðu og er þakklátur fyrir það að íslenska þjóðin metur landbúnað sinn og skynjar nú hvað hún á.