Ummæli landbúnaðarráðherra í utandagskrárumræðum

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 15:44:24 (3646)

2001-01-16 15:44:24# 126. lþ. 59.93 fundur 251#B ummæli landbúnaðarráðherra í utandagskrárumæðum# (um fundarstjórn), SJS
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 126. lþ.

[15:44]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli hæstv. forseta á því að það gerist æ ofan í æ þegar hæstv. landbrh. á í hlut að hæstv. landbrh. notar rétt sinn sem síðasti ræðumaður í umræðu af þessu tagi til að ráðast með býsna svæsnum hætti, hygg ég að megi segja, að þeim sem tekið hafa þátt í umræðunni og hafa fullnýtt rétt sinn og eiga ekki möguleika á því að bera hönd yfir höfuð sér. Þetta gerðist í utandagskrárumræðu um mál sem heyrði undir ráðherra rétt fyrir jólin og gerðist aftur nú, þar sem hæstv. ráðherra m.a. sakaði mig um að vera í hlutverki Gróu á Leiti og vera með mjög ómerkilegan málflutning uppi og þar fram eftir götunum.

[15:45]

Ég ætla ekki að bera af mér sakir sem engar eru. Ég sé ekki að ég megi ekki hafa uppi ummæli í mjög svipaða veru og aðrir hv. þm. gerðu og lutu að því einu að það kynnu að hafa verið alvarlegri tilvik á umliðnum mánuðum sem vörðuðu innflutning á búvörum en það sem var sérstaklega til umræðu hér. Það var allt og sumt sem ég sagði.

Herra forseti. Auðvitað verður forseti að ráða því hvernig hann fer með áminningarvald sitt og hann kaus að víta ekki framgöngu hæstv. ráðherra hér áðan eða í fyrri tilvikum. Hæstv. ráðherra hefur hér mikinn ræðutíma, mestan allra ræðumanna. Til hvers? Til þess að svara spurningum sem eru meira að segja lagðar skriflega fyrir ráðherrann með margra klukkutíma fyrirvara og öðrum spurningum sem koma fram í umræðunni. Engri einustu spurningu svaraði hæstv. ráðherra hér, hvorki í fyrri né síðari ræðu sinni. (Utanrrh.: Er hann að bera af sér sakir?)

Herra forseti. Þetta er að mínu mati misnotkun á því formi umræðunnar sem hér er. Utandagskrárumræður af þessu tagi eru til þess að vekja athygli á máli eða leggja spurningar fyrir hæstv. ráðherra. Sú venja hefur þróast að til að greiða fyrir umræðunni og auðvelda hæstv. ráðherrum að koma með málefnaleg svör, þeim sem a.m.k. vilja reyna það, hvort sem þeir geta það eða ekki, við hina sem ekki einu sinni reyna er erfitt að eiga, eru ráðherrunum sendar spurningarnar skriflega, jafnvel með sólarhrings eða a.m.k. nokkurra klukkustunda fyrirvara.

Herra forseti. Er það þá við hæfi, samrýmist það þessu tjáskiptaformi að hæstv. ráðherrar komist upp með það endurtekið að svara engum spurningum en nota ræðutíma sinn og sérstaklega seinni ræðutíma þegar aðrir hafa ekki lengur aðstöðu til að bera hönd fyrir höfuð sér eða verja sig til ómálefnalegra árása á aðra þingmenn? Ég hvet hæstv. ráðherra til að taka þetta til íhugunar og velta því fyrir sér hvort ekki sé ástæða til þess með einhverjum hætti að reyna að tryggja að umræðurnar gangi ekki svona fyrir sig. Það er í raun og veru þýðingarlaust að reyna að biðja um utandagskrárumræður og fá svör við spurningum, a.m.k. þegar hæstv. landbrh. á í hlut, ef þetta heldur áfram að ganga svona fyrir sig.