Eiturefni og hættuleg efni

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 16:00:30 (3653)

2001-01-16 16:00:30# 126. lþ. 59.3 fundur 369. mál: #A eiturefni og hættuleg efni# (yfirstjórn, gjaldtaka o.fl.) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 126. lþ.

[16:00]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til að gagnrýna að þetta frv. sé lagt fyrir. Mér finnst þó full ástæða til að spyrja hæstv. ráðherra hvort starfsmenn vanti í ráðuneyti hennar. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem slík bráðabirgðalagasetning kemur frá umhvrn. Við fjölluðum í vetur um málefni skipulags- og byggingarlaga þar sem kippt var í liðinn fáeinum atriðum á meðan yfir stóð endurskoðun á þeim lagabálki, sem er reyndar það nýr að hann er ekki nema tveggja ára gamall. Það er full ástæða til að velta fyrir sér hvort nægilega vönduð vinnubrögð séu viðhöfð úr því að mál koma með þessum hætti frá ráðuneytinu. Satt að segja voru nokkur okkar í hv. nefnd sammála um að við fengjum ekki nægan tíma til að stunda sæmileg vinnubrögð í því máli sem afgreitt var hér á Alþingi fyrir áramótin og ég nefndi áðan. Ég geri ekki athugasemdir við að þetta mál komi hér inn nema að því leyti, að mér finnst full ástæða til að spyrja hæstv. ráðherra: Þarf hún á meiri liðstyrk að halda til að koma málum fram og fyrir Alþingi með þeim hætti sem hún vill hafa þau? Ég geri ráð fyrir því að hún vilji hafa þau burðug þegar þau eru lögð fyrir hv. Alþingi og að ekki þurfi að endurskoða þau árið eftir eins og hefur brugðið við að undanförnu.