Samráð stjórnvalda við frjáls félagasamtök

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 16:16:58 (3660)

2001-01-16 16:16:58# 126. lþ. 59.4 fundur 46. mál: #A samráð stjórnvalda við frjáls félagasamtök# þál., Flm. KF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 126. lþ.

[16:16]

Flm. (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þáltill. sem flutt er auk mín af Ólafi Erni Haraldssyni, Kristjáni Pálssyni, Ástu Möller, Ísólfi Gylfa Pálmasyni, Gunnari Birgissyni, Drífu Hjartardóttur og Árna R. Árnasyni.

Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd er geri úttekt á stöðu frjálsra félagasamtaka á Íslandi og hvernig samskiptum stjórnvalda og sveitarstjórna við þau er háttað. Jafnframt skili nefndin tillögum til ríkisstjórnarinnar um hvernig samráði stjórnvalda við frjáls félagasamtök á sviði umhverfismála verði hagað með vísan til skuldbindinga Íslands samkvæmt alþjóðasamningi um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum sem undirritaður var í Árósum 23.--25. júní 1998.``

Herra forseti. Fyrir tveimur og hálfu ári var þetta samkomulag undirritað sem kennt er við Árósa. Það er í fullu samræmi við stefnu núverandi ríkisstjórnar og þeirrar sem á undan sat um sjálfbæra þróun. Í lýðræðisríkjum hafa frjáls félagasamtök gegnt sífellt mikilvægara hlutverki undanfarna áratugi. Á þetta ekki síst við á sviði umhverfismála. Þau veita stjórnvöldum og atvinnurekendum mikilvægt aðhald og sinna bæði fræðslu- og eftirlitshlutverki. Einkenni frjálsra félagasamtaka er að þau eru óháð ríkisvaldinu, hafa sjálfstæðan fjárhag, eru rekin án gróðasjónarmiða og hafa fagleg vinnubrögð að leiðarljósi. Æ fleiri viðurkenna nauðsyn þess að virkja mannauð og þekkingu frjálsra félagasamtaka.

Stjórnvöld í ríkjum heims hafa gengið einna lengst í að viðurkenna nauðsyn þess að almenningur og frjáls félagasamtök séu höfð með í ráðum þegar umhverfismálum er skipað. Á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem haldin var í Ríó 1992, var í samningi um svokallaða Dagskrá 21, í 27. kafla, fjallað um nauðsyn þess að styrkja stöðu frjálsra félagasamtaka og mikilvægt hlutverk þeirra í umfjöllun um sjálfbæra þróun.

Sameinuðu þjóðirnar hafa einnig haldið svæðisbundnar ráðstefnur um umhverfismál. Á fjórða ráðherrafundi umhverfisráðherra um umhverfismál í Evrópu, sem haldinn var í Árósum í Danmörku 23.--25. júní 1998, var gengið skrefi lengra og undirritaður alþjóðasamningur um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvörðunum og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Samningurinn felur í sér viðurkenningu á réttindum borgaranna að því er varðar umhverfismál og er, eins og fram kom í yfirlýsingu umhverfisráðherranna, mikilsvert framfaraskerf bæði fyrir umhverfið og lýðræðið. Með samningnum er staðfest mikilvægi þess að einstaklingar og frjáls félagasamtök taki þátt í mótun umhverfisreglna og viðurkennt að stjórnvöldum beri að hafa eðlilegt samráð við almenning við mótun umhverfisstefnu.

Flutningsmenn tillögunnar telja eðlilegt að skipuð verði nefnd er geri annars vegar úttekt á stöðu frjálsra félagasamtaka á Íslandi og samskiptum stjórnvalda við þau og hins vegar tillögur byggðar á Árósasamningnum um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum.

Flutningsmenn gera hvorki tillögu um fjölda nefndarmanna né hvernig þeir verða skipaðir. Eðlilegt er að nefndin verði skipuð á breiðum grunni, þ.e. með þátttöku hins opinbera, ríkis, sveitarfélaga, atvinnulífsins, launþegasamtaka og frjálsra félagasamtaka.

Árósasamningurinn fjallar um hvernig almenningur getur komið að ákvörðunum stjórnvalda í umhverfismálum. Í honum eru þrjú meginatriði. Það fyrsta er aðgangur að upplýsingum eins og áðan sagði. Annað er aðgangur almennings að ákvarðanatöku og í þriðja lagi er um að ræða aðgang að réttlátri málsmeðferð, þar með talið að bera fram kærur og láta reyna á ákvarðanir fyrir dómstólum.

Hvað aðgang að upplýsingum snertir segir í samningnum að skylda sé lögð á stjórnvöld að upplýsa almenning um umhverfismál og hvaða áhrif framkvæmdir geti haft á umhverfið.

Í öðru lagi fjallar hann um aðgang almennings að því að taka þátt í ákvörðunum á sviði umhverfismála og hafa áhrif á hvaða ákvarðanir eru teknar og það snemma á ferlinum, einnig þegar verið er að semja lagafrumvörp.

Í þriðja lagi eiga borgararnir rétt á því að geta kært ákvarðanir stjórnvalda og fengið úr þeim skorið fyrir dómstólum, ekki síst við virkjanaframkvæmdir, í efnaiðnaði o.s.frv.

Þá er mælt með því í ályktun, sem fylgdi samningnum, að frjáls félagasamtök fái tækifæri til að taka virkan þátt í milliríkjasamstarfi þegar unnið er að stefnumótun í umhverfisvernd.

Þannig er Árósasamningurinn svokallaði rammi fyrir stefnumörkun Norðurlandanna og fleiri landa fram til ársins 2004 með það fyrir augum að gera almenning meðvitaðan um það sem leitt getur til sjálfbærrar þróunar, einkum með því að almenningur komi sjálfur í auknum mæli að verki. Til þess að samningurinn gengi í gildi þurftu 16 ríki af þeim 40 sem undirrituðu að hafa staðfest hann.

Norðurlöndin vilja vera í fararbroddi í umhverfismálum. Á því leikur varla nokkur vafi. Þó að Norðurlandabúar séu ekki nema um 0,5% af mannkyni hafa þau samt metnað til að vera í fararbroddi.

Þegar samningurinn var undirritaður var gert ráð fyrir því að efni hans yrði lögtekið hið fyrsta og hefur það nú verið gert, a.m.k. bæði í Svíþjóð og Danmörku. Ég veit ekki um Noreg og Finnland. Þar hefur umhverfisverndarsamtökum verið tryggður lagalegur réttur til aðildar að náttúruverndar- og umhverfismálum.

Umhverfisverndarsamtök hafa fjölþætt hlutverk. Hér á landi eru mörg slík samtök, fámenn og fjölmenn sem hver um sig hafa sína sérstöðu, ef svo má að orði komast. Þau eru umræðuvettvangur. Þau hafa alþjóðleg tengsl. Þau eru umsagnaraðilar fyrir stjórnvöld. Þau koma fram með hugmyndir, gagnrýna stjórnvöld, hrósa stjórnvöldum. Þau vekja athygli á því sem miður kann að fara og þau stuðla jafnvel að rannsóknum og auknum rannsóknum á sviði umhverfismála. Ég tel afar mikilvægt að efla slík samtök og virkja þá þekkingu sem þar býr enn frekar. Auðvitað er það gert í talsverðum mæli og leitað umsagnar slíkra samtaka og það er auðvitað af hinu góða. En Árósasamningurinn segir að við eigum að lögfesta þetta og út á það gengur tillagan.

Með því að efla slík samtök og virkja þessa þekkingu erum við að hugsa um framtíðina og eftirkomendur okkar. Með því er líka tryggt að náttúran eigi sér málsvara gagnvart stjórnvöldum og, ef svo vill til, fyrir dómstólum. Með því sem gert hefur verið t.d. í Svíþjóð og Danmörku er komin fyrirmynd sem gæti verið eðlilegt fyrir okkur að nýta.

Ég legg að lokum til, herra forseti, að þáltill. þessari verði vísað til umhvn. þótt að sjálfsögðu komi fleiri nefndir þingsins að málum vegna þess að frjáls félagasamtök eru í svo mörgum málaflokkum. Þau eru í heilbrigðismálum. Það má minna á stór samtök og alþjóðleg eins og Rauða krossinn og Amnesty sem kemur einnig að vinnu hæstv. allshn. Það eru Öryrkjabandalag, sjúklingasamtök af ýmsum toga og í félagsgeiranum eru auðvitað mörg merkileg samtök. Það eru neytendasamtök, það eru kvenfélagasamtök o.s.frv. Því gæti þurft að fá umsagnir fleiri nefnda um þessa nefndaskipan, fleiri nefnda en umhvn. En ég efast ekki um að sú nefnd muni sinna því hlutverki.

Svo vona ég, herra forseti, og skora á hæstv. umhvrh. að taka jákvætt í þessa tillögu og segja okkur frá því hvað er á döfinni í ráðuneytinu um Árósasamninginn og lögleiðingu hans.