Samráð stjórnvalda við frjáls félagasamtök

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 16:26:24 (3661)

2001-01-16 16:26:24# 126. lþ. 59.4 fundur 46. mál: #A samráð stjórnvalda við frjáls félagasamtök# þál., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 126. lþ.

[16:26]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni mjög tímabær tillaga og ber að þakka 1. flm. að hafa staðið fyrir þessum tillöguflutningi á hinu háa Alþingi. Málið er samráð stjórnvalda við frjáls félagasamtök í samræmi við Árósasamninginn frá 1998.

Þessi tillaga fjallar að mestu um samráð í málum er varða umhverfið, þ.e. á vettvangi umhverfismála. Hins vegar hef ég tekið eftir því í greinargerðinni að flutningsmenn tillögunnar telja eðlilegt að skipuð verði nefnd sem geri annars vegar úttekt á stöðu frjálsra félagasamtaka á Íslandi í samskiptum við stjórnvöld og hins vegar tillögur byggðar á Árósasamningnum. Ég hygg að þetta sé farsælt og gott verkefni sem þarf að vinna og þó svo að ekki sé gerð tillaga um það beinlínis hvernig nefndin skuli skipuð, held ég að það þurfi að ræða mjög ítarlega þannig að það sé alveg öruggt að enginn verði út undan í undirbúningnum.

Mér finnst ekki síst mikilvægt að farið sé almennt yfir sviðið hvað varðar samskipti stjórnvalda við frjáls félagasamtök, hvaða nafni sem þau kunna að nefnast. Ef eitt einkenni má draga fram á nútímasamfélagi, því samfélagi sem við búum í, er það að vægi frjálsra félagasamtaka margs konar er alltaf að aukast. Nægir þar að nefna nokkur dæmi. Mannúðarsamtök ýmiss konar eru mjög öflug, ekki bara á Íslandi heldur víða um heim. Íslendingar eru líka hluti af alþjóðlegum mannúðarsamtökum eins og Rauða krossinum, mannúðarsamtök á Íslandi eins og Hjálparstofnun kirkjunnar, Mæðrastyrksnefnd, önnur slík. Svo eru auðvitað óteljandi félagasamtök og alls kyns hagsmunasamtök, hvort heldur það eru stangveiðimenn eða samtök foreldra barna í framhaldsskólum þannig að ýmislegt má tína til.

Hins vegar er alveg ljóst að þessi samtök axla líka mikla ábyrgð með starfi sínu. Vægi þeirra er í sjálfu í samræmi við það hversu mikla samfélagslega ábyrgð samtök sem þessi axla í starfi sínu. Þau standa fyrir umræðu og taka þátt í opinberri og almennri umræðu um hin ýmsu þjóðþrifamál. Þau taka málefni upp á arma sína ef þannig mætti að orði komast og vekja athygli á tilteknum málum og ýmsu því sem betur mætti fara í samfélaginu. Þau taka einnig að sér að fylgja því eftir að stjórnvöld taki á málum sem hafa kannski verið látin liggja milli hluta. Síðast en ekki síst virkja þau landsmenn, bæði til ábyrgðar og þátttöku. Ég held að það sé í raun mikilvægasta verkefni allra frjálsra félagasamtaka, alveg sama að hverju þau beina sjónum sínum, að þau virkja fólk til ábyrgðar og þátttöku í lýðræðislegu samfélagi. Því er svo brýnt að samskipti við stjórnvöld almennt, hvort heldur það eru ráðuneyti ellegar sveitarfélög eða stofnanir, séu í lagi, séu skýr, allar leiðir séu færar og öllum sé kunnugt um hvernig þau samskipti eigi að eiga sér stað.

[16:30]

Nú kann einhver að halda að þetta gerist bara af sjálfu sér en svo er auðvitað ekki. Stundum þarf að setja ramma utan um slík samskipti og ég vænti þess að verði tillagan samþykkt muni nefndin sem á að gera þessa úttekt skila ítarlegri greiningu á því hvernig við viljum hafa þetta hér og væntanlega þá byggja á reynslu annarra landa í þessum efnum og þeim samningum og ekki síst Árósasamningnum sem hér er lagður til grundvallar.

Annað verður líka að hafa í huga og það er fjármögnun eða framlög ríkisins til frjálsra félagasamtaka. Það er eitt af því sem þessi nefnd þarf svo sannarlega að fjalla um. Við höfum nýleg dæmi þess, við afgreiðslu fjárlaga hér fyrir jól, að framlög til frjálsra félagasamtaka einmitt á sviði umhverfisverndar voru veitt með, ég veit ekki alveg hvernig ég á að orða það, mjög undarlegum hætti. Það er kannski rétta lýsingin, herra forseti. Það er ekki síst þetta sem þarf að taka á í svona nefndarstarfi og að gæta þess að frjáls félagasamtök á sviði umhverfismála eða annarra mála séu jafnsett þegar kemur að styrkjum eða framlögum frá ríkinu eða sveitarfélögum og að skýrar reglur, öllum kunnar, gildi um það hvernig skuli úthluta slíkum styrkjum.

Ég er einnig þeirrar skoðunar að standi félagasamtök og hagsmunasamtök undir nafni sé því fjármagni yfirleitt betur varið beint til slíkra samtaka en að ríkið sé sjálft að vafstra í ýmsum hlutum sem frjáls félagasamtök geta í raun sinnt miklu betur og hafa mörg hver sýnt í gegnum árin. Ég tel mjög mikilvægt að benda á þetta hér sérstaklega með fjármögnunina.

Að lokum get ég ekki látið hjá líða að minnast á ójafna stöðu félagasamtaka, sérstaklega á sviði umhverfismála, og svo þeirra opinberu stofnana sem sinna sérstaklega orkugeiranum á Íslandi. Ég hef oft velt því fyrir mér í umræðum á undanförnum missirum um stöðu Landsvirkjunar, um virkjanir, hvort heldur það var um Fljótsdalsvirkjunina sálugu eða þá sem nú er í farvatninu við Kárahnjúka, hversu einkennilegt það er að umhverfisverndarsinnar eiga engan aðgang eða skýran aðgang að fjármagni til þess að fjámagna baráttu sína eins og t.d. Landsvirkjun á. Landsvirkjun er náttúrlega fyrirtækið okkar og þar er ófáum milljónum, og ég mundi halda kannski tugmilljónum, varið til auglýsinga, kynningarstarfa og jafnvel listsýninga og menningarviðburða á hverju einasta ári. Auðvitað er þetta hluti af ímynd fyrirtækis. Þetta er hluti af ímynd fyrirtækis sem er í eigu ríkis og sveitarfélaga. Því hefði ég haldið, til þess að á engan sé hallað í þessari umræðu, að ríkið ætti einmitt að leggja sig fram um að styðja við bakið á þeim er halda uppi andstæðum málstað þó svo að hann sé kannski andstæður stefnu stjórnvalda. Þannig þrífst lýðræðið best.